Skip to main content
23. maí 2019

Ungt hugvitsfólk verðlaunað fyrir hagnýt nýsköpunarverkefni

Úrslit í Nýsköpunarkeppni grunnskólanna 2019 voru kynnt í fyrradag og verðlaun afhent með viðhöfn í Háskólanum í Reykjavík. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, voru á meðal þeirra sem ávörpuðu hugvitsfólkið og afhentu verðlaun í ýmsum flokkum. 

Nýsköpunarkeppni grunnskólanna (NKG) er keppni í nýsköpun fyrir 5. – 7. bekk grunnskólanna sem var haldin í fyrsta skipti árið 1991. Yfir 1200 hugmyndir frá 38 skólum víðs vegar af landinu bárust að þessu sinni. Dómnefnd valdi 26 hugmyndir í sjálfa úrslitakeppnina. Nemendurnir komust í gegnum strangt matsferli þar sem uppfinningar þeirra voru metnar með tilliti til hagnýti, nýnæmi og markaðshæfi.

„Háskóli Íslands er afar stoltur af því að vera bakhjarl Nýsköpunarkeppni grunnskólanna. Að geta þróað nýjar og skapandi lausnir skiptir miklu máli, bæði til að móta og stýra eigin lífi og ekki síður til að hafa áhrif á það samfélag sem við búum í, gera það að betra og öflugra samfélagi. Það er sannarlega engin ástæða til að kvíða framtíðinni miðað við þau ótrúlega fjölbreyttu og frumlegu nýsköpunarverkefni sem kynnt hafa verið í keppninni núna í ár,“ sagði Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs, í ávarpi sínu við verðlaunaafhendinguna. 

Kolbrún bendir enn fremur á að nýsköpunarmennt sé mikilvægt námssvið innan skóla sem hafi vaxið ásmegin á síðustu árum. „Í nýsköpunarmennt felst ferli sem virkjar sköpunarkraft nemenda í lausnamiðuðum hugsunarhætti og eykur sjálfstraust þeirra og frumkvæði. Nýsköpunarkeppni grunnskólanna ýtir undir og er öflugur hvati fyrir nýsköpunarmennt en slík menntun er mikilvæg til að ala upp og rækta þessa hæfni til sköpunar og framtakssemi sem við þurfum á að halda á ölllum sviðum.“

Þær Anna Valgerður Árnadóttir og Oliwia Huba frá Brekkubæjarskóla á Akranesi hlutu fyrstu verðlaun fyrir hugmynd sína að Hafragrautaruppáhellara. Um er að ræða tímastilltan pott til að elda hafragraut. Önnur verðlaun hlaut Rakel Sara Þórisdóttir úr Seljaskóla í Reykjavík með snaga sem hægt er að hækka og lækka fyrir börn. Í þriðja sæti var Ásgeir Máni Ragnarsson frá Brúarásskóla í Fljótsdalshéraði með hólfaskiptan brúsa. Allir þátttakendur úr 7. bekk sem komust í úrslit fengu gjafabréf í Háskóla unga fólksins 2019.   

Við sama tilefni voru veitt sérstök hvatningarverðlaun til kennara fyrir framlag til nýsköpunarkennslu. Það voru þær Halla Leifsdóttir og Þórdís Sævarsdóttir sem hlutu verðlaunin að þessu sinni.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið stendur að Nýsköpunarkeppni grunnskólanna en Nýsköpunarmiðstöð Íslands sér um rekstur keppninnar í samstarfi við Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Menntamálastofnun, Samband íslenskra sveitarfélaga, Arion banka, Samtök iðnaðarins, ELKO, IKEA, JCI, grunnskóla og fleiri aðila.

Myndir frá viðburðinum
 

 Kolbrún Þ. Pálsdóttir forseti Menntavísindasviðs Háskóla Íslands,