Ungt fólk á flótta í brennidepli á friðarráðstefnu Höfða | Háskóli Íslands Skip to main content

Ungt fólk á flótta í brennidepli á friðarráðstefnu Höfða

4. október 2018
""

Höfði - friðarsetur stendur fyrir sinni árlegu friðarráðstefnu miðvikudaginn 10. október kl. 9.30-17 í Veröld - húsi Vigdísar. Þetta er í þriðja sinn sem ráðstefnan er haldin og að þessu sinni verður áhersla lögð á mikilvægt hlutverk ungs flóttafólks, frumkvöðla og aðgerðarsinna í að stuðla að jákvæðum breytingum og hvernig samfélög geta stuðlað að aukinni samfélagsþátttöku og aðkomu ungs flóttafólks að ákvarðanatöku.

Landamæri hafa mikil áhrif á ungt fólk sem flýja þarf erfiðar aðstæður í leit að betra lífi og nýjum tækifærum. Mikil áhætta fylgir flóttanum þar sem ungt fólk getur átt á hættu að verða fyrir kynferðislegu og kynbundu ofbeldi, vera brottnumið, hneppt í varðhald eða neytt í nauðungarvinnu. Þrátt fyrir það er mikilvægt að líta ekki á ungt fólk sem einungis fórnarlömb og ræna það þar með valdi og áhrifum.

Aðalfyrirlesarar á ráðstefnunni eru:
JJ Bola er rithöfundur, ljóðaslammari, fyrirlesari og fyrrverandi flóttamaður frá Austur-Kongó en hann flúði til Bretlands þegar hann var sjö ára. JJ hefur gefið út þrjú ljóðasöfn og fyrsta skáldsaga hans, No Place to Call Home, kom út í Bretlandi árið 2017. Hann er talsmaður Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) og hefur víða komið fram á þeirra vegum, meðal annars á World Economic Forum.

Pia Oberio, sérfræðingur hjá Mannréttindastofnun Sameinuðu þjóðanna. Pia leiðir vinnu stofnunarinnar þegar kemur að mannréttindum innflytjenda og flóttafólks og er ráðgjafi mannréttindafulltrúa varðandi stefnumótun og lagaleg málefni tengd fólksflutningum og mannréttindum. 

Aðrir fyrirlesara eru Sophia Mahfooz, framkvæmdastjóri SVIP, Nazanin Askari, femínisti og aðgerðarsinni, Kathy Gong, frumkvöðull og framkvæmdastjóri og meðstofnandi Wafa Games, Adam Elsod, stjórnarformaður og stofnandi The Young Republic, og Harald Quintus-Bosz, kennari við D-Lab í MIT og CTO hjá Cooper Perkins. 

Höfði friðarsetur er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands og er vettvangur fyrir þverfaglegt og alþjóðlegt samstarf með áherslu á hlutverk borga, smáríkja og almennra borgara í að stuðla að friði, friðarmenningu og friðarfræðslu.

Frekari upplýsingar um ráðstefnuna og skráning á hana fer fram á heimasíðu friðarsetursins. 

Texti á mynd: The Imagine forum - Youth on the Move