Skip to main content
21. september 2017

Undur í Öskjuhlíð

Öskjuhlíð

Leynileg neðanjarðarhús, skotbirgi, furðuleg listaverk, gull (eða glópagull öllu heldur), kanínur, tankar og trjákofar. Þetta er fátt eitt af því sem gerir Öskjuhlíðina að undraheimi sem ótrúlega gaman er að rannsaka. Í hlíðinni er líka vísir að skógi með miklu fuglalífi. Á laugardaginn kemur, þann 23. september nk., ætlar Stefán Pálsson, sagnfræðingur og stundakennari við Háskóla Íslands, að leiða göngufólk um Öskjuhlíðina og veita innsýn í sögu svæðisins enda er Stefán góður sögumaður. Fjölmargt muna án efa koma á óvart í spjalli Stefáns á göngunni um hlíðina.  

„Öskjuhlíð hefur ótal tengingar við sögu Reykjavíkur og ekki þarf að fara lengra en að benda á  íþróttasöguna í því sambandi,“ segir Stefán Pálsson um áform sín. Hann þekkir reyndar Öskjuhlíðina betur en margir að því marki að hann býr nánast í hlíðinni og sleit þar barnskónum. Hann er Frammari og á son í Val en Hlíðarendaliðið varð Íslandsmeistari í knattspyrnu karla fyrir örfáum dögum. Þannig hagar reyndar til að knattspyrnuliðið Valur og Háskóli Íslands eru stofnsett sama árið, 1911, og svo skemmtilega vill reyndar til að grjót sem er á gólfi anddyris Aðalbyggingar Háskóla Íslands var sótt í Öskjuhlíð.

Stefán mun líka minnast á orkusöguna, blessað heita vatnið, landbúnað og samgöngur. „Saga svæðisins verður sett í samhengi við vöxt borgarinnar í gegnum aldirnar.“ Stefán segir að saga Öskjuhlíðar sé óvenju spennandi enda hafi hún að geyma hvorki meira né minna en konungsheimsókn, þjóðvegaræningja og drauma um stórkostleg íþróttamannvirki – „og svo er stríðssagan við hvert fótmál.“

Brottför er frá Nauthólsvík klukkan 11 á laugardag og er reiknað með að ferðin taki tvær klukkustundir. Gestir eru hvattir til að koma með nesti og klæða sig auðvitað eftir veðri. Öskjuhlíðin er auðvitað einstök og Reykvíkingar stálheppnir að eiga svona perlu inni í miðri borg með ágætu útsýni til Esjunnar og Snæfellsjökuls og yfir Fossvoginn, Kópavog, Álftanes og Reykjanes. Það eru samt fleiri borgir sem eiga svona myndarlegar hlíðar eða hæðir og aðspurður um eitthvað áþekkt nefnir Stefán fjallið lága Arthur´s Seat í Edinborg í Skotlandi. „Enda hefur Edinborg stundum verið kölluð „Reykjavík suðursins“ - vissulega þó helst af stríðnum Englendingum.“

Gangan um Öskjuhlíð er hluti af verkefni Háskóla Íslands og Ferðafélags Íslands, Með fróðleik í fararnesti, sem hófst á aldarafmæli skólans árið 2011. Reynsla og þekking fararstjóra Ferðafélagsins og þekking kennara og vísindamanna Háskólans blandast saman í þessum áhugaverðu gönguferðum. Markmiðið með þeim er að vekja áhuga almennings á fræðslu og hollri útivist og fjölga valkostum í þeim efnum. Um leið er vakin athygli og vonandi áhugi á fjölbreyttri starfsemi Háskóla Íslands og Ferðafélagsins.

Þátttaka í göngunni á laugardag er ókeypis og allir velkomnir.

Stefán Pálsson