Skip to main content
16. nóvember 2018

Umhverfismál á nýrri öld: Viðhorf Íslendinga

""

Í tilefni af aldarafmæli Vísindafélags Íslendinga stendur félagið fyrir málþingi um umhverfismál í samstarfi við Félagsfræðingafélag Íslands, Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild Háskóla Íslands, Félagsvísindastofnun, Umhverfis- og auðlindafræði og Rannsóknasetur Háskóla Íslands í Hornafirði, föstudaginn 16. nóvember 2018 milli klukkan 13 og 17 í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins við Suðurgötu.

Loftslagsbreytingar af mannavöldum hafa þegar haft veruleg áhrif lífsskilyrði á Íslandi og jörðinni allri og allar líkur eru á að þau áhrif muni einungis aukast. Ljóst er að við, bæði einstaklingar og samfélag, þurfum að breyta hegðun okkar, sérstaklega þegar kemur að nýtingu orku og annarra náttúruauðlinda áður en það verður of seint. En hver eru viðhorf Íslendinga til málaflokksins? Höfum við einhverjar áhyggjur og erum tilbúin til að taka ábyrgð og gera það sem þarf? Og hvernig eru viðhorf okkar í samanburði við viðhorf almennings í öðrum Evrópulöndum.

Dagskráin samanstendur af fjórum erindum en að þeim loknum verða pallborðsumræður og svo léttar veitingar í lokin.

Í erindunum fjórum verður gert grein fyrir og kynntar niðurstöður könnunarinnar „Lífsviðhorf Evrópubúa“ (e. European Social Survey) sem framkvæmd var af Félagsvísindastofnun haustið 2016.

Í fyrsta erindinu verður gerð grein fyrir könnuninni „Lífsviðhorf Evrópubúa“, sem er ein vandaðasta könnun á viðhorfum almennings sem gerð er í heiminum, en sérlega er gætt að aðferðafræðilegri og kenningarlegri samanburðarhæfni. Árið 2016 var sérstök áhersla lögð á loftslags-og orkumál og í næstu þremur erindum verða niðurstöður kynntar, bæði fyrir Ísland en einnig hvernig við stöndum í evrópskum samanburði. Að auki verður sjónum beint að því hvort það sé munur á milli hópa varðandi viðhorf til umhverfismála á Íslandi.

Í pallborðsumræðunum verður svo rætt um helstu áskoranir og þær aðgerðir sem grípa þarf til á Íslandi, út frá mismunandi sjónarhornum.

Málþinginu verður streymt í gegnum Facebook viðburð.

Dagskrá málþingsins er að finna hér.

Umhverfismál á nýrri öld