Skip to main content
29. janúar 2020

Umbylting háskólanáms – Fundur um framtíðina og Aurora

""

„Stúdentar við Háskóla Íslands vildu koma saman öllum þeim sem tilheyra háskólasamfélaginu, óháð stöðu og starfi, til að fræðast um komandi tíma og verkefni sem Háskólinn er að taka þátt í sem gætu haft áhrif á háskólaumhverfið hér á Íslandi og framtíð háskólanáms.“ Þetta segir Elísabet Brynjarsdóttir, forseti stúdenta í Aurora-samstarfsnetinu en þar leiðir hún um 300 þúsund stúdenta sem er án vafa mesti fjöldi sem nokkur íslenskur stúdentaforingi hefur leitt frá upphafi. Innan Aurora netsins starfa níu öflugir rannsóknarháskólar víða um Evrópu. 

Hér talar Elísabet um viðburð sem er skipulagður af stúdentafulltrúum Háskóla Íslands innan Aurora-samstarfsnetsins og Stúdentaráðs Háskóla Íslands þar sem sjónum er beint að tilgangi Aurora og að nýju styrkjakerfi Evrópusambandsins sem mun styrkja myndarlega evrópsk háskólanet á næstu þremur árum. 

Styrkirnir verða helgaðir verkefnum sem tengjast svokölluðu European University neti en með því ætlar Evrópusambandið að efla samstarf evrópskra háskóla og styrkja þá til sóknar í samkeppni við háskóla annars staðar í heiminum. „Stúdentar halda viðburðinn í góðu samstarfi við Háskóla Íslands, og við ákváðum að hafa hann opinn fyrir alla og hafa blöndu af örkynningum og pallborðsumræðum um þessi mál,“ segir Elísabet. 

Aurora leggur áherslu á framúrskarandi rannsóknir

Á fundinum verður sjónum m.a. beint að Aurora-netinu sem leggur þunga á samfélagslega ábyrgð, margbreytileika, kennsluþróun, nýsköpun og framúrskarandi rannsóknir sem gera samfélögum betur kleift að takast á við áskoranir samtímans, m.a. þær sem felast í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. 

Háskólar innan Aurora eru nú í samstarfi um umsókn í styrk í European University netinu sem er að Elísabetar mati ótrúlega metnaðarfull framtíðarsýn. Vrije-háskólinn í Amsterdam leiðir umsóknina með Háskóla Íslands. „Við teljum mikilvægt að allir fái tækifæri til að kynna sér málin og vera þannig upplýst um stöðu mála í þessu afar spennandi verkefni sem Háskóli Íslands er að taka þátt í og er að leiða á marga vegu,“ segir stúdentaforinginn.

Viðburðurinn, sem nefnist Umbylting háskólanáms, er eins og Elísabet segir helgaður framtíð háskóla á Íslandi og í Evrópu og verður hann í Veröld þann fimmtudaginn 30. janúar nk. Hann hefst kl. 12.30 og mun standa í eina og hálfa klukkustund. „Okkar von er að það muni skapast fræðandi og upplýsandi umræður með gestum og að hægt verði að ræða hlutina út frá öllum mögulegum sjónarhornum,“ segir Elísabet sem gegndi í heilt ár stöðu forseta Stúdentaráðs Háskóla Íslands.

Hún segir að til máls taki Steinunn Gestsdóttir, aðstoðarrektor kennslu og þróunar, sem sé öllum hnútum kunnug innan Aurora og sömuleiðis Magnús Þór Torfason, lektor í nýsköpun og sérfræðingur hjá Aurora. „Ég mun sjálf halda örkynningu í upphafi um Aurora og European Network verkefnið út frá sjónarhorni stúdenta. Kolfinna Tómasdóttir, alþjóðafulltrúi Stúdentaráðs Háskóla Íslands mun stýra fundinum.“

Elísabet segir að fundinum ljúki svo með pallborðsumræðum með stúdentafulltrúum og Halldóri Jónssyni, sviðsstjóra vísinda- og nýsköpunarsviðs Háskólans. Hann heldur utan um starf Aurora innan Háskólans ásamt Friðriku Harðardóttur, forstöðumanni skrifstofu alþjóðasamskipta. 

„Það eru stór samfélagsleg málefni sem við verðum að bregðast við, t.d. loftslagsbreytingar og það er mikilvægt að efla stúdenta til þess að hagnýta rannsóknir sínar og nám til samfélagslegs ávinnings. Stúdentar munu hafa öfluga aðkomu að því að móta háskóla framtíðarinnar að mínu mati og er mikilvægt að tryggja að þeir geti tekið lýðræðislegan þátt í mótun stefnu háskólanna sem og í kennsluefni og öðrum ákvörðunum,“ segir Elísabet Brynjarsdóttir.

Aurora eflir stúdentana

Elísabet segir að Háskóli Íslands hafi verið hluti af Aurora frá stofnun netsins árið 2016. „Markmið samstarfsnetsins er að tengja saman stofnanir, starfsfólk þeirra og stúdenta. Einnig að skapa vettvang þar sem mikilvægustu þekkingu á hverjum tíma í ólíkum málaflokkum er miðlað. Út frá sjónarhóli stúdenta er þetta gert til að tryggja gæði í háskólanámi og enn betri upplifun nemenda. Í gegnum starf mitt sem stúdentaforseti Aurora hef ég fundið fyrir því hvað háskólarnir leggja mikla áherslu á þátttöku stúdenta, að valdefla þá til að hafa áhrif á vinnu og áherslur netsins. Það hefur verið mjög lærdómsríkt að koma að þeirri vinnu síðustu tvö ár frá því að ég tók sæti í stúdentaráði Aurora.“ 

Elísabet segir að háskólar framtíðarinnar muni í auknum mæli leggja áherslu á tækni, bjóða upp á fjölbreytta möguleika þegar stúdentar skipuleggja nám sitt, aukið framboð af skiptinámi og rafrænni kennslu og frelsi til þess að flakka á milli landa í Evrópu. Þetta efli stúdenta á alþjóðavísu. „Það eru stór samfélagsleg málefni sem við verðum að bregðast við, t.d. loftslagsbreytingar og það er mikilvægt að efla stúdenta til þess að hagnýta rannsóknir sínar og nám til samfélagslegs ávinnings. Stúdentar munu hafa öfluga aðkomu að því að móta háskóla framtíðarinnar að mínu mati og er mikilvægt að tryggja að þeir geti tekið lýðræðislegan þátt í mótun stefnu háskólanna sem og í kennsluefni og öðrum ákvörðunum.“

Elísabet Brynjarsdóttir