Skip to main content
14. maí 2021

Um arfleifð Freuds og sálgreiningarinnar

Um arfleifð Freuds og sálgreiningarinnar - á vefsíðu Háskóla Íslands

Í fyrsta Riti Hugvísindastofnunar ársins 2021 er fjallað um arfleifð Freuds og með áherslu á heimspeki, guðfræði, kvikmyndir og bókmenntir. Árið 2019 voru 120 ár síðan Draumaráðningar Sigmunds Freud komu út á prenti og lagði ritið grunn að nýrri fræðigrein sem fjallaði um sálrænan veruleika fólks, menningar og samfélags. Allt síðan sálgreiningin náði fótfestu hefur hún verið einstaklega frjó í nálgun sinni á hverskyns viðfangsefni en einnig greinst í ýmsa skóla og hefðir og meðal annars haft umtalsverð áhrif á sviði hugvísinda. Í þessu hefti Ritsins er fjallað um hvernig unnið hefur verið úr arfleifð Freuds og sálgreiningarinnar.

Í heftinu eru birtar átta frumsamdar greinar, einn myndaþáttur og fimm nýjar þýðingar. Frumsömdu greinarnar í heftinu eru af margbreytilegum toga. Björn Þorsteinsson tekur til athugunar gagnrýni frönsku heimspekinganna Gilles Deleuze og Felix Guattari á Ödipusarlíkan Freuds, Torfi Tulinius skoðar birtingarmyndir dauðahvatarinnar í Njálu og Dagný Kristjánsdóttir ræðir m.a. hið ókennilega og úrkastið í grein um barnabókina Kóralína eftir Neil Gaiman. Þá beinir Sigrún Alba Sigurðardóttir sjónum að tráma í kvikmyndinni Andkristur eftir Lars von Trier og Guðrún Elsa Bragadóttir að ást, narsisma og skorti í kvikmynd Spike Jonze, Hún, auk þess sem Bjarni M. Bjarnason fjallar um rannsókn sem doktor Ágúst H. Bjarnason framkvæmdi á Vopnafirði sumarið 1914 á fjarskyggnigáfu Jóhannesar Jónssonar frá Ásseli, eða Drauma-Jóa. Jafnframt birtist hér grein eftir Sæunni Kjartansdóttur um tengslakenningu John Bowlbys. Í myndaþættinum fjallar Steinar Örn Erluson, annar gestaritstjóra Ritsins, um ljósmyndir af látnum sæfarendum á Íslandi á árunum 1939 til 1945.

Þýðingar að þessu sinni eru ákaflega fjölbreytilegar. Hér birtist stutt ritgerð eftir Sigmund Freud, „Neitun“, auk þýðinga á textum eftir Juliu Kristevu, „Unglingsskáldsagan“, og Slavoj Žižek, „’Guð er dauður en hann veit það ekki’ Lacan leikur sér með Bobok“, en aðrir textar þessara höfunda hafa þegar verið þýddir á íslensku, enginn þó meira en Freud. Einnig birtast hér þýðingar á textum eftir Ann Belford Ulanov, „Ótti kristinna við sálarlífið“, og Friedrich Kittler, „Rómantík – sálgreining – kvikmynd. Um sögu tvífarans“, síðarnefnda greinin með ítarlegum inngangi þýðanda.

Forsíðumynd Ritsins að þessu sinni er eftir Harald Jónsson og er úr seríu silkiþrykksmynda sem Haraldur nefnir Sónar (2020). Í verkunum notar listamaðurinn grunnform sónarsins en í viðtali í Fréttablaðinu 20. febrúar 2021 sagði hann um verkin: „Þetta form fór að sækja á mig en ég hef alltaf haft áhuga á gegnumlýsingu og myndbirtingu hins ósýnilega. Formið er upphaflega tómt, ég þrykki síðan með svörtum farva og veit útkomuna ekki fyrir fram. Þannig er ég í raun að skrásetja sjálft sköpunarferlið, hvert verk er einstakt og útkoman er líka ákveðið sönnunargagn.“

Gestaritstjórar heftisins eru Marteinn Sindri Jónsson og Steinar Örn Erluson en aðalritstjórar þess eru Guðrún Steinþórsdóttir og Sigrún Margrét Guðmundsdóttir. Um umbrot sá Helgi Hilmarsson og Lúther Jónsson um prófarkalestur.

Ritið er gefið út í rafrænu formi.

Ritið:1/2021