Uglan tekin upp í Háskólanum á Bifröst | Háskóli Íslands Skip to main content

Uglan tekin upp í Háskólanum á Bifröst

27. júní 2019

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Vilhjálmur Egilsson, rektor Háskólans á Bifröst, undirrituðu á dögunum formlegan þjónustusamning vegna innleiðingar vefkerfisins Uglunnar á Bifröst. 

Uglan var upphaflega þróuð sem innri vefur Háskóla Íslands fyrir bæði nemendur og kennara. Kerfið gefur færi á að halda utan um nemendaskráningu, námsumsjón, umsóknarferli nemenda, kennsluskrá og ýmislegt annað er varðar sjálft háskólastarfið. Aðrir opinberir skólar tóku upp Ugluna fyrir nokkrum árum og Háskólinn á Bifröst bætist nú í hóp notenda. 

Uglan er alfarið innlend framleiðsla og er þróuð og hýst hjá Upplýsingatæknisviði Háskóla Íslands. Um er að ræða heildstæða lausn sem miðast við íslenskar aðstæður og er þróun Uglunnar stýrt sameiginlega af öllum háskólunum. Ugla hefur leitt af sér mikla hagræðingu fyrir íslenska háskóla, m.a. með sameiginlegum rekstri kerfisins hjá Háskóla Íslands. 

Með því að nýta sama innra kerfi í skólunum verður mun auðveldara fyrir þá að eiga samskipti, t.d. vegna námsferla nemenda, en einnig munu nemendur vinna í sambærilegu námsumhverfi án tilits til þess í hvaða skóla þeir stunda nám sitt. Sama á við um kennara sem kenna í fleiri en einum skóla.

Samkvæmt samningnum sem undirritaður var á dögunum mun Upplýsingatæknisvið Háskóla Íslands veita Háskólanum á Bifröst tiltekna þjónustu sem snýr að uppsetningu, viðhaldi, hýsingu og rekstri Uglunnar og hefur undirbúningsvinna vegna innleiðingar kerfisins staðið yfir undanfarna mánuði. Stefnt er að því að gangsetja Uglu fyrir Háskólann á Bifröst nú um mánaðamótin þannig að kerfið nýtist skólanum strax á komandi skólaári.

Vilhjálmur Egilsson, rektor Háskólans á Bifröst, og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, handsala þjónustusamning vegna innleiðingar Uglunnar á Bifröst.