Skip to main content
16. apríl 2020

Ugla sat á kvisti: Hvaða nám á ég að velja?

Ugla sat á kvisti: Hvaða nám á ég að velja? - á vefsíðu Háskóla Íslands

Hvaða aðferðir er hægt að nota til að taka farsæla ákvörðun um framtíðarnáms- og starfsferilinn? Það veit hún Inga Berg, náms- og starfsráðgjafi hjá Háskóla Íslands.  Í dag, fimmtudaginn 16. apríl, ætlar hún ekki bara að kynna gagnlegar leiðir til að skoða betur fjölbreytt námsframboð í framhaldsnámi því hún ætlar líka að kynna leið til að taka ákvörðun um fyrirhugað nám. Hún ætlar að sýna fram á hvernig hægt er að taka slíka ákvörðun af skynsemi en láta ekki tilviljun ráða námsvalinu. 

Kynning Ingu Berg verður í streymi og hefst hún klukkan 15 en Háskólinn kynnir þessa dagana hartnær hundrað leiðir í framhaldsnámi við skólann, allar í streymi.

Kynning Ingu Berg í heild sinni:

Þótt byggingar Háskólans séu nú lokaðar er starfað áfram í öllum einingum. Þannig geta þeir sem eru að pæla í framhaldsnámi haft samband við Náms- og starfsráðgjöf skólans alla virka daga frá  9 til 12 og frá 13 til 16 í síma 525-4315. Það er líka hægt að ræða við náms- og starfsráðgjafa í netspjallinu sem er aðgengilegt á heimasíðu skólans. Svo er líka mögulegt að senda fyrirspurnir á netfangið: radgjof@hi.is  

Hundrað námsleiðir kynntar í streymi

Fjarkynningin sem fer fram þessa dagana gerir öllum sem áhuga hafa á framhaldsnámi kleift að kynna sér vel framboð skólans án þess að víkja frá tölvunni eða smátækinu. Til viðbótar því að horfa á námskynningu er hægt að senda inn spurningar sem reynt verður að svara jöfnum höndum eftir því sem þær berast. Það er líka hægt að senda spurningar á námsráðgjafann Ingu Berg á morgun. 

Á fjarkynningunum verða veittar ítarlegar upplýsingar um samsetningu hverrar námsleiðar, inntökuskilyrði, fyrirkomulag lokaverkefna, atvinnumöguleika og margt fleira.  

Félagsvísindasvið kynnti framboð sitt í gær en í dag kynnir Heilbrigðisvísindasvið sínar leiðir frá kl. 9 til 15. Hugvísindasvið kynnir sitt námsframboð dagana 17. og 22. apríl, Menntavísindasvið þann 20. apríl og Verkfræði- og náttúruvísindasvið þann 21. apríl. 

Ítarleg dagskrá fjarkynninganna er á vef Háskólans og þar jafnframt hægt að horfa á fyrri kynningar. 

Hér er hægt að sækja um framhaldsnám við Háskóla Íslands. 
 

"Frá Háskóladeginum 2020"