Skip to main content
11. júní 2021

Tvö verkefni um stéttarstöðu og stefnumótun í framhaldsskólum fengu styrk

Tvö verkefni um stéttarstöðu og stefnumótun í framhaldsskólum fengu styrk - á vefsíðu Háskóla Íslands

Tvö doktorsverkefni sem snúa að stéttarstöðu foreldra af erlendum uppruna og stefnumótun í framhaldsskólum hljóta styrk úr Styrktar- og rannsóknarsjóði Þuríðar J. Kristjánsdóttur í ár. Styrkjum var úthlutað við hátíðlega athöfn í húsnæði Menntavísindasviðs Háskóla Íslands fimmtudaginn 10. júní síðastliðinn, en þetta var í annað sinn sem styrkir eru veittir úr sjóðnum.

Markmið sjóðsins er að styrkja doktorsnema á Menntavísindasviði, einkum vegna verkefna á sviði kennslumála. Samanlögð styrkupphæð er ein milljón króna.

Doktorsrannsókn Elizabet Bik Yee Lay ber heitið „Dynamics of power and difference among ethnic minority parents in Iceland“. Markmið rannsóknarinnar er að skoða uppruna og stéttarstöðu foreldra á Íslandi af erlendum uppruna og mótun félagslegs auðs þeirra. Notaðar verða sögur foreldra sem eru af erlendum uppruna og koma úr millistétt. Skoðuð verða áhrif kynþáttar, stéttar, kyngervis og menntunar á þátttöku þeirra í námi barna sinna og réttláta menntun innan íslenskra skóla. Í umsögn dómnefndar segir: „Áhugaverð rannsókn með áherslu á foreldra barna af erlendum uppruna og áhrif þeirra innan skólakerfisins. Verkefnið er mikilvægt framlag á sviði fjölmenningar sem nýtist við samfélagslega aðlögun innflytjenda.“ Elizabet hóf doktorsnám við skólann árið 2018. Aðalleiðbeinandi hennar er Berglind Rós Magnúsdóttir, dósent við Deild menntunar og margbreytileika, og meðleiðbeinandi er Brynja Elisabeth Halldórsdóttir, lektor við sömu deild.

Doktorsverkefni Maríu Jónasdóttur ber heitið „Decentralised curriculum making in the upper secondary schools: A study of the number, content and variability of currently available study programmes“. Á árunum 2008 til 2014 voru gerðar umfangsmiklar breytingar á íslenskum framhaldsskólum. Öllum framhaldsskólum var t.d. falið að semja námsbrauta- og áfangalýsingar auk þess sem námstími til stúdentsprófs var styttur. Tilgangur verkefnisins er að útbúa yfirlit yfir núgildandi námsbrautir til stúdentsprófs og felst verkefnið í söfnun, flokkun og greiningu gagna úr gagnagrunni Menntamálastofnunar.  Í umsögn dómara segir: „Spennandi verkefni sem felur í sér að kortleggja stefnubreytingar í framhaldsskólum og útfærslur á þeim. Verkefnið gagnast við þróun náms í framhaldsskólum.“ María hóf doktorsnám við skólann árið 2020. Aðalleiðbeinandi hennar er Elsa Eiríksdóttir, dósent við Deild faggreinakennslu, og meðleiðbeinandi er Guðrún Ragnarsdóttir, lektor við Deild kennslu- og menntunarfræði. Í dómnefnd vegna úthlutunarinnar sátu þau Friðgeir Börkur Hansen, prófessor við Deild kennslu- og menntunarfræði, Kristín Erla Harðardóttir, forstöðumaður Menntavísindastofnunar, og Ingunn Eyþórsdóttir, markaðsstjóri Menntavísindasviðs Háskóla Íslands.

Stjórn Menntavísindasviðs fer með stjórn sjóðsins.

Um sjóðinn

Styrktar- og rannsóknasjóður Þuríðar J. Kristjánsdóttur var stofnaður við Háskóla Íslands í október árið 2019. Stofnframlag sjóðsins er gjöf Þuríðar Jóhönnu Kristjánsdóttur, fyrrverandi prófessors og aðstoðarrektors Kennaraháskóla Íslands, sem lést árið 2018. Í erfðaskrá sinni arfleiddi hún Háskóla Íslands að húseign sinni og öðrum peningalegum eigum með það að markmiði að stofna þennan sjóð.

Þuríður lauk doktorsprófi frá Illinois-háskóla í Urbana í Bandaríkjunum árið 1971 og hóf störf við Kennaraháskóla Íslands sama ár. Hún varð fyrsti prófessorinn við skólann árið 1973. Þá gegndi hún starfi aðstoðarrektors Kennaraháskólans á árunum 1983-1987. Þuríður lét af störfum við skólann árið 1989.

Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem ánafnaðar hafa verið Háskóla Íslands allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja við ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta og starfsfólk. Sjóðirnir eru mikil lyftistöng fyrir háskólann, sem hefur notið mikils velvilja af hálfu fjölmargra einstaklinga í gegnum tíðina en þeir hafa af miklum rausnarskap lagt fé í styrktarsjóði sem allir miða að því að efla vísindarannsóknir og afla nýrrar þekkingar, samfélaginu til heilla.