Skip to main content
27. maí 2019

Tvö verkefni innan HÍ fá styrk úr Barnamenningarsjóði

""

Tvö verkefni innan Háskóla Íslands, Vísindasmiðjan í Hörpu og Umboðsmenn friðar, hafa hlotið styrki úr Barnamenningarsjóði Íslands en styrkjum var í fyrsta sinn úthlutað úr sjóðnum við hátíðlega athöfn í Alþingishúsinu sunnudaginn 26. maí. Þá hlaut ein af nánustu samstarfsstofnunum Háskólans, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, næsthæsta styrkinn sem veittur var.

Barnamenningarsjóður Íslands var settur á laggirnar í tilefni aldarafmælis fullveldis Íslands í fyrra og er átaksverkefni til fimm ára. Hlutverk sjóðsins er að fjármagna og styðja við fjölbreytta starfsemi á sviði barnamenningar með áherslu á sköpun, listir og virka þátttöku barna í menningarlífi. 

Alls fengu 36 verkefni styrki að þessu sinni samanlagt að upphæð nærri 100 milljónir króna. Sem fyrr segir eru tvö þeirra innan Háskóla Íslands.

Verkefnið Vísindasmiðjan í Hörpu hlaut nærri 3,8 milljóna króna styrk en að því standa Vísindasmiðja Háskóla Íslands í samstarfi við Hörpu tónlistarhús. Til stendur að bjóða upp á innsetningar og vinnusmiðjur í Hörpu í tilefni af nýrri barnamenningardagskrá þar sem áherslan verður á að tengja saman vísindi og listir með margvíslegum hætti. Með tilraunum, tækjum, tólum, leikjum og þrautum bjóðast börnum á öllum aldri að gera óvæntar uppgötvanir og kynnast nýjum leyndardómum vísinda og lista, ljóss og hljóðs, sjónar og heyrnar. Stefnt er á að barnamenningardagskráin í Hörpu hefjist í haust og verði mánaðarlegur viðburður fram á næsta vor.

Vísindasmiðja Háskóla Íslands, sem er til húsa í Háskólabíói, hefur verið starfrækt frá árinu 2012 og hefur það að markmiði að auka áhuga ungs fólks á vísindum og fræðum, m.a. í gegnum leiki, þrautir, tól og tæki. Smiðjan hefur notið mikilla vinsælda hjá grunnskólum og frá upphafi hafa um 25 þúsund krakkar á aldrinum 10-16 ára heimsótt smiðjuna eða kynnst henni á ferðum Vísindasmiðjunnar um landið í Háskólalestinni.

Verkefnið Umboðsmenn friðar hlaut einnar milljónar króna styrk úr sjóðnum en það grundvallast á námskeiði í mannréttinda- og friðarfræðslu sem Höfði friðarsetur Háskóla Íslands og Reykjavíkurborgar stendur að í samstarfi við skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar, Rauða kross Íslands, Listaháskóla Íslands og Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Markmiðið með námskeiðinu er stuðla að aukinni friðar- og mannréttindafræðslu meðal grunnskólabarna og efla þekkingu þeirra á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna með skapandi hætti.

Höfði friðarsetur hefur undanfarin tvö ár boðið upp á sumarnámskeið fyrir börn af ólíkum uppruna með svipaðar áherslur. Í stað þess að bjóða upp á sumarnámskeið nú munu Höfði  friðarsetur og samstarfsaðilar heimsækja þrjá samstarfsskóla reglulega yfir mánaðartímabil í haust og bjóða upp á vinnusmiðjur fyrir 6. bekkinga sem hverfast munu um þrjú þemu: mannréttindi og borgararétt, fjölmenningarlega færni og andlega heilsu og velferð. Meðal þess sem verður í boði er sameiginlegur dagur með vinnusmiðjum fyrir alla skólana þrjá en verkefninu lýkur svo með útskrift friðarfulltrúa í Höfða við hátíðlega athöfn. 

Þessu til viðbót hlaut náin samstarfsstofnun Háskólans, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, nærri 9,4 milljóna króna styrk fyrir verkefnið Handritin til barnanna, en það var næsthæsti styrkurinn sem veittur var úr Barnamenningarsjóði. Verkefnið snýst um að færa handritin til nýrrar kynslóðar. Verkefnið er margþætt og gerir ráð fyrir virkri þátttöku barnanna sjálfra, fjölbreyttri dagskrá, kröftugri fræðslu og útgáfu sem spannar þrjú ár og lýkur árið 2021 þegar 50 ár verða liðin frá því að dönsk stjórnvöld skiluðu íslensku þjóðinni Flateyjarbók og Konungsbók eddukvæða. 

Fulltrúar þeirra verkefna sem hlutu styrk við fyrstu úthlutun úr Barnamenningarsjóði Íslands í Alþingishúsinu í gær.