Skip to main content
28. apríl 2020

Tvær af hverjum fimm sem leita á bráðamóttöku vegna heimilisofbeldis gera það oftar en einu sinni

""

Tæplega tvær af hverjum fimm konum sem leita á bráðamóttöku Landspítalans vegna heimilisofbeldis af hálfu maka gera það oftar en einu sinni. Þetta sýnir ný rannsókn sem Drífa Jónasdóttir, doktorsnemi við Læknadeild Háskóla Íslands, hefur unnið en niðurstöður hennar birtust í nýjasta hefti vísindatímaritisins Scandinavian Journal of Public Health. 

Rannsóknin er sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi og er liður í doktorsverkefni Drífu sem unnin er undir leiðsögn Brynjólfs Mogensen, prófessors emeritus við Læknadeild Háskóla Íslands og fyrrverandi yfirlæknis á bráðamóttöku Landspítala. 

„Við erum að meta umfang, eðli og kostnað heimilisofbeldis í garð kvenna eins og það birtist í gögnum Landspítala. Einnig er meiningin, að fengnu leyfi Vísindasiðanefndar, að skoða áverka kvenna sem koma á Landspítala vegna annars ofbeldis en heimilisofbeldis eða vegna slysa og bera saman við áverka af völdum heimiliosofbeldis,“ segir Drífa aðspurð um efni doktorsrannsóknar sinnar sem er á sviði heilbrigðisvísinda. 

Í umræddri vísindagrein, sem er sú fyrsta af þremur í doktorsverkefninu, kannaði Drífa hversu margar konur, 18 ára og eldri, hefðu á árabilinu 2005-2014 leitað til Landspítala vegna heimilisofbeldis af hálfu maka. Jafnframt rýndi hún í hvers eðlis og hversu alvarlegir áverkarnir voru ásamt kostnaði spítalans vegna þessara heimsókna.

Drífa segir að ákveðið hafi verið að einblína á konur sem þolendur og karla sem gerendur í þessu tilviki. „Það er ekki þar með sagt að konur beiti ekki ofbeldi en ég var bara að skoða líkamlega áverka á konum eftir ofbeldi af hálfu karla. Svo er líka miklu algengara að karlar slasi konur sínar alvarlega eða jafnvel drepi þær heldur en að kona slasi eða drepi maka sinn og því þörf á frekari rannsóknum á því sviði sem hér var skoðað,“ útskýrir hún.

„Vonandi er hægt að nýta niðurstöðurnar sem rökstuðning fyrir breytingum á þjónustu við þennan sjúklingahóp innan heilbrigðiskerfisins á Íslandi. Þannig má vonandi draga verulega úr komum kvenna á heilbrigðisstofnanir með áverka eftir líkamsárás af hálfu maka og bæta lífsgæði þolenda heimilisofbeldis, aðstandenda þeirra, eins og barna, og í leiðinni draga úr kostnaði fyrir samfélagið,“ segir Drífa Jónasdóttir, doktorsnemi við Háskóla Íslands.

Nærri 150 leita árlega á spítala af völdum heimilisofbeldis

Alls reyndust spítalaheimsóknir kvenna vegna heimilisofbeldis af hálfu maka á þessu tíu ára tímabili rúmlega 1450 eða næri 150 að meðaltali á ári. Langflestar heimsóknanna voru á bráðamóttöku. Meðalaldur þeirra kvenna sem leituðu til spítalans var 34 ár og þurftu 3% þeirra að leggjast inn á spítalann vegna áverkanna. Flestir áverkanna töldust minni háttar og tveir þriðju þeirra reyndust á efri hluta líkamans, þ.e. á höfði, hálsi, andliti eða handleggjum. Þá sýnir greiningin enn fremur að 30% áverkanna voru af völdum kýlinga, 28% af völdum hrindinga eða sparka og í tíu prósentum tilvika voru þolendur teknar kyrkingartaki. Þá reyndist í 38% tilvika um endurtekna heimsókn að ræða af völdum heimilisofbeldis. Að sögn Drífu eru þessar niðurstöður almennt í samræmi við niðurstöður sams konar rannsókna sem gerðar hafa verið annars staðar í heiminum.

Í rannsókninni voru einnig skoðuð gögn um kostnað spítalans vegna þessa ofbeldis. „Samtals var kostnaður vegna koma kvenna á tímabilinu rúmar 100 milljónir. Það eru kannski ekki háar upphæðir á 10 ára tímabili en engu að síður fáránlega há upphæð sem spítalinn og þar með samfélagið okkar þarf að standa straum af þegar karlar ákveða að beita maka sína ofbeldi,“ segir Drífa og undirstrikar að hér sé bara um að ræða beinan kostnað spítalans, ekki afleiddan og óbeinan kostnað sem oft fylgi slíkum líkamsárásum. 

Drífa bendir enn fremur á að með niðurstöðum rannsókninnar sé í fyrsta sinn komið viðmið til að meta hvort einhvers konar inngrip eða fræðsla í framtíðinni hafi áhrif, t.d. hvort markviss fræðsla heilbrigðisstarfsfólks í að greina heimilisofbeldismál skili til lengri tíma litið færri endurkomum á spítalann. „Niðurstöðurnar teikna upp klíníska birtingarmynd áverkanna og bæta við miklum fróðleik og staðreyndum um þolendur heimilisofbeldis þar sem rannsóknin er fyrsta sinnar tegundar. Vonandi er hægt að nýta niðurstöðurnar sem rökstuðning fyrir breytingum á þjónustu við þennan sjúklingahóp innan heilbrigðiskerfisins á Íslandi. Þannig má vonandi draga verulega úr komum kvenna á heilbrigðisstofnanir með áverka eftir líkamsárás af hálfu maka og bæta lífsgæði þolenda heimilisofbeldis, aðstandenda þeirra, eins og barna, og í leiðinni draga úr kostnaði fyrir samfélagið,“ segir hún að endingu.

Greinina í Scandinavian Journal of Public Health má nálgast á vef tímaritsins.

Íslenskir fjölmiðlar hafa sýnt rannsókninni mikinn áhuga, þar á meðal Fréttablaðið, Stöð 2 og RÚV.

""