Skip to main content
15. febrúar 2021

Tuttugu og þrjú verkefni vísindamanna á sviði samfélagsvirkni fá styrk

Tuttugu og þrjú verkefni vísindamanna á sviði samfélagsvirkni fá styrk - á vefsíðu Háskóla Íslands

Háskóli Íslands hefur veitt 23 styrki sem ætlað er að styðja við virka þátttöku akademískra starfsmanna í samfélaginu í krafti rannsókna þeirra og sérþekkingar. Þetta er í annað sinn sem slíkum styrkjum er úthlutað. 

Styrkirnir miða að því að skapa starfsfólki aukið svigrúm til „samtals við samfélagið“. Náið samstarf við aðila utan Háskólans hefur frá fyrstu tíð verið mikilvægur þáttur í starfsemi skólans og er þessum styrkjum ætlað að efla þann þátt starfsemi Háskóla Íslands enn frekar. 

Alls var úthlutað rúmlega 32 milljónum að þessu sinni til verkefna frá öllum fræðasviðum Háskólans auk Stofnunar rannsóknasetra HÍ. Kynjahlutfall styrkþega er nánast jafnt. Verkefnin sem fá styrk að þessu sinni eru afar fjölbreytt og snúast m.a. um gerð fræðsluefnis um örverur, vef um bókmenntir íslenskra kvenna, hlaðvarp um mannfræði, orðabók fyrir leikskólabörn, heimildamyndir um veruleika transfólks, upphaf líftækni á Íslandi, félagslega virkni barna með ólíkan bakgrunn, vöktun og miðlun upplýsinga um náttúruvá, ráðstefnur og námskeið og margt fleira sem nýst getur íslensku samfélagi á ýmsan hátt.

Umsóknirnar voru mjög góðar og sýna það blómlega starf sem fram fer í Háskóla Íslands á sviði samfélagsvirkni og nýsköpunar. 

Háskóli Íslands þakkar öllum umsækjendum fyrir framlag þeirra til verkefna á sviði samfélagsvirkni. Styrkþegum er óskað hjartanlega til hamingju með styrkinn með von um að hann gagnist vel.

Upplýsingar um nöfn styrkhafa og verkefna má finna hér.

 

""