Skip to main content
23. maí 2022

Tuttugu og þrjú brautskráð frá Alþjóðlegum jafnréttisskóla GRÓ

Tuttugu og þrjú brautskráð frá Alþjóðlegum jafnréttisskóla GRÓ - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jafnréttisskóli GRÓ við Háskóla Íslands (GRÓ-GEST) útskrifaði 23 sérfræðinga frá 15 löndum á föstudag, en þá var fjórtándu brautskráningu skólans frá upphafi fagnað í Hátíðasal Háskóla Íslands. Alls hafa nú 195 nemendur frá 34 löndum útskrifast frá Jafnréttisskólanum með diplóma á meistarastigi í alþjóðlegum jafnréttisfræðum. Þess má geta að sex nemendur úr útskriftarhópnum hlutu styrk úr alþjóðavídd Erasmus+ menntaáætlunar Evrópusambandsins til náms. 

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, opnaði athöfnina og í kjölfarið flutti Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, ávarp. Diana Motsi, nemandi frá Simbabve, flutti áhrifamikið eigið ljóð sem bar yfirskriftina „Byltingarkonur“ og Maame Adwoa Amoa-Marfo frá Gana flutti ávarp fyrir hönd nemenda. Nemendur tóku við skírteinum sínum frá Ólöfu Garðarsdóttur, forseta Hugvísindasviðs HÍ, og Nínu Björk Jónsdóttir, forstöðumanni GRÓ Þekkingarmiðstöðvar þróunarsamvinnu. Irma Erlingsdóttir, forstöðumaður Jafnréttisskóla GRÓ, stjórnaði athöfninni. 

Alþjóðlegur jafnréttisskóli GRÓ er hýstur við Hugvísindasvið Háskóla Íslands en starfar samhliða með ölllum sviðum Háskólans. Markmið hans er að mennta og þjálfa sérfræðinga frá þróunarlöndum, átakasvæðum og fyrrverandi átakasvæðum og gera þeim betur kleift að vinna að jafnri stöðu karla og kvenna í heimalöndum sínum. Í nemendahópnum í ár voru einstaklingar frá 15 ólíkum löndum, þar af í fyrsta skiptið frá Moldóvu, Pakistan og Simbabve. Nemendurnir starfa öll sem sérfræðingar ýmist við stjórnsýslu, dómstóla, háskóla, hjá félagasamtökum eða innan heilbrigðisgeirans í heimalöndum sínum. 

Tvenn verðlaun fyrir lokaverkefni

Við brautskráninguna fengu tveir nemendur verðlaun fyrir lokaverkefni sem kennd eru við Vigdísi Finnbogadóttur verndara Jafnréttisskólans. Að þessu sinni féllu verðlaun fyrir hagnýtt verkefni í skaut Nicole Wasuna. Verkefni hennar fjallar um kvennamorð í heimalandi hennar Kenía og hefur að markmiði stofnun miðstöðvar til þess að auka þekkingu á og hvetja til aðgerða gegn slíkum morðum. Verðlaun fyrir rannsóknarverkefni hlaut Sandani N. Yapa Abeywardena, en hún beindi sjónum að meðferð kynferðisbrotamála fyrir dómstólum í Sri Lanka. Hún skoðaði m.a. dóma í nauðgunarmálum, alvarlegum kynferðisafbrota- og áreitnimálum auk þess sem hún kannaði viðhorf dómara og túlkun þeirra á lögum um kynbundið ofbeldi og trúverðugleika fórnarlamba.

Hluti af GRÓ Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu

Jafnréttisskólinn er einn fjögurra skóla sem GRÓ Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu starfrækir á Íslandi undir merkjum UNESCO. Hinir skólarnir eru Jarðhitaskólinn, Sjávarútvegsskólinn og Landgræðsluskólinn, en GRÓ er hluti af alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands. Samtals hafa nú 1.536 nemendur, frá rúmlega 100 löndum, lokið námi við skólana fjóra. Að auki hafa fjölmörg styttri námskeið verið haldin á vettvangi. Einnig veitir GRÓ skólastyrki til útskrifaðra nemenda til meistara- og doktorsnáms við íslenska háskóla.

Nánar um brautskráninguna á vef Alþjóðlega jafnfréttisskólans

Brautskráningarkandídatar í Hátíðasal