Skip to main content
6. febrúar 2018

Túba og píanó á Háskólatónleikum

Nimrod Ron og Anna Guðný Guðmundsdóttir flytja verk eftir Franz Strauss, Ralph Vaughan Williams og Batya Franklakh á fyrstu háskólatónleikum vormisseris. Tónleikarnir verða í Hátíðasal Háskóla Íslands þann 7. febrúar og hefjast kl. 12.30. 

Nimod Ron er ísraelskur túbuleikari sem stundaði nám hjá Daniel Perantoni og Shmuel Hershko. Nimrod hefur unnið fyrstu verðlaun í alþjóðlegum keppnum, t.d. International Tuba Euphonium Conference í Tucson árið 2010 og Indiana University Concerto Competition ári síðar. Hann situr í stjórn International Tuba and Euphonium Association. 

Árið 2012 fluttist Nimrod til Íslands enda hafði hann þá verið ráðinn leiðandi túbuleikari Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Hann kennir á túbu við Tónlistarskólann í Reykjavík. Hann leikur á tónleikum og kennir á námskeiðum víða, t.d. austan hafs og vestan og í heimalandi sínu, Ísrael. Nimrod hefur verið metnaðarfullur talsmaður nýrrar túbutónlistar á Íslandi allt frá því að hann hóf störf hérlendis og hefur líka kynnt íslenska tónlist erlendis.

Anna Guðný Guðmundsdóttir nam við Tónlistarskólann í Reykjavík og naut leiðsagnar Hermínu S. Kristjánsson, Jóns Nordal og Margrétar Eiríksdóttir. Áður var hún í Barnamúsíkskólanum hjá Stefáni Edelstein. Hún lauk Post Graduate Diploma við Guildhall School of Music. Hún hefur síðan starfað hér við margvísleg störf, leikið kammertónlist, verið meðleikari og einleikari. Hún spilar reglulega á Listahátíð í Reykjavík og hefur líka leikið á tónlistarhátíðunum Reykjavík Midsummer Music og Reyk-holtshátíð. Hún er píanóleikari Kammersveitar Reykjavíkur, hefur ferðast með sveitinni víða og leikið inn á geisladiska. Alls hefur hún leikið inn á um 30 diska með ýmsum listamönnum. Anna Guðný hefur auk þess leikið með Karlakór Reykjavíkur á vortónleikum í yfir 20 ár og leikur með hljómsveitinni Salon Islandus. Hún starfaði við tónlistardeild LHÍ frá stofnun hennar 2001 til ársins 2005 þegar hún var fastráðin við Sinfóníuhljómsveitina. Í dag starfar hún einnig sem píanóleikari við Tónlistarskólann í Reykjavík.

Anna hefur þrisvar sinnum verið tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna og hlaut þau árið 2008 sem flytjandi ársins. 

Franz Strauss, tónskáld og hornleikari, samdi noktúrnu þá sem hér er flutt á sjöunda áratugi nítjándu aldar. 

Túbukonsert Ralph Vaughan Williams var frumfluttur árið 1954 á hálfrar aldar afmæli the London Symphony Orchestra. Verkið var samið fyrir Philip Catelinet, aðaltúbuleikara sveitarinnar.

Batya Franklakh er ísraelskt hljóðfæraleikari og tónskáld.

Enginn aðgangseyrir er að tónleikunum og allir eru velkomnir.

Anna Guðný Guðmundsdóttir og Nimrod Ron