Skip to main content
9. apríl 2021

Trúir á mátt samtalsins í kennslu

Trúir á mátt samtalsins í kennslu - á vefsíðu Háskóla Íslands

„Kennarastarfið getur verið margskonar og er bæði lifandi og skapandi. Ég hef áhuga á fólki og börnum og vil láta gott af mér leiða,“ segir Arianna Ferro, nýútskrifaður kennari frá Háskóla Íslands, sem ákvað að fara í kennaranám vegna þeirra fjölmörgu tækifæra sem starfið gefur. Arianna valdi sviðslistir sem kjörsvið í náminu en hún hefur bakgrunn úr tónlist.  

Undanfarin þrjú ár hefur hún kennt tónmennt í Hraunvallaskóla í Hafnarfirði. Traust milli kennara og nemenda innan veggja kennslustofunnar skiptir meginmáli að Ariönnu sögn og hún trúir á mátt samtalsins. „Ég vil geta talað við nemendur eins og ég vil að talað sé við mig. Kennsluaðferðir sem styrkja líkamsvitund og skerpa á athygli og samhljómi hópsins eru mér einnig að skapi. Þannig stend ég oft í hring með hópnum, fer í leiki og kroppaklapp með söng. En svo er mikilvægt að vera lunkin í að lesa hópinn ef kennslustundin á að skilja eitthvað eftir sig.“ 

Hraði samfélagsins til ama 

Arianna er ekki í vafa um að helstu áskoranir sem íslenskir grunnskólar standa fyrir um þessar mundir er hraði samfélagsins. „Í þessum mikla hraða gleymist oft að fara á dýptina í viðfangsefnum nemenda. Í stað þess er algengara að kennt er lítið um margt. Eðli starfsins kallar líka á það að kennarar gefa mikið af sér og því er mikilvægt fyrir þá að stunda sjálfsrækt af einhverju tagi.“ 

Fyrstu nemendur Menntavísindasviðs luku MT-prófi í kennaranámi í febrúar síðastliðnum og var Arianna í þeim hópi. Um er að ræða 120 eininga meistarapróf til kennsluréttinda þar sem nemendur taka námskeið til 30 eininga í stað þess að vinna jafnstórt lokaverkefni. Hún segir það hafa skipt sköpum að geta klárað námið á þennan hátt.  

„Ég hefði sennilega ekki útskrifast ef þessi leið stæði ekki til boða. Ég reyndi að skrifa meistararitgerð samhliða fullu starfi í næstum tvö ár. Ég var komin með tvo frábæra leiðbeinendur sem voru búnir að setja mikla vinnu í verkefnið mitt. Verkefnið var spennandi en ég átti í vandræðum með að koma frá mér heildstæðu, fræðilegu verki. Í eðli mínu er ég listakona og MT-námsleiðin bauð upp á að ég gat aflað mér dýpri þekkingu á ákveðnum sviðum sem nýtist mér í starfi. Reglulega les ég niðurstöður rannsókna í kennslufræðum en það þýðir ekki endilega að ég þurfi að framkvæma slíka rannsókn sjálf til þess að vera góður tónmenntakennari.“ 

Skipulögð vinnubrögð borga sig 

Skilaboð Ariönnu til þeirra sem eru að stíga sín fyrstu skref í kennslu eru þau að gott sé að nálgast starfið af forvitni. „Alls ekki vera með fyrirfram mótaðar hugmyndir. Fyrsta árið er gott að hafa í huga að vera skilningsríkur við sjálfan sig. Það tekur um tvö ár að komast almennilega inn í starfið og það tekur tíma að koma sér upp góðu skipulagi. Það kom mér vel að taka lítil skref og huga að einni kennslustund í einu,“ segir Arianna og mælir jafnframt með góðu vinnulagi og að taka sér smástund í lok hvers vinnudags til að skipuleggja þann næsta.