Skip to main content
29. ágúst 2017

Tilvonandi viðskiptafræðingar

Viðskiptafræðideild býður nýnema velkomna í nám við Háskóla Íslands.

Stór hópur nemenda sem eru að hefja nám við deildina mætti á nýnemakynningar og það má segja að skólaárið sé svo sannarlega að hefjast með miklum krafti með glæsilegum hóp nemenda.

Á hverju ári er haldinn nýnemadagur í Háskóla Íslands þar sem starfsemi deilda og aðstaða er kynnt fyrir nýjum nemendum. Þetta er kjörinn vettvangur til að kynnast háskólasvæðinu og mynda tengsl við samnemendur.

Eftir kynningu hjá Félagsvísindasviði tók Viðskiptafræðideild við nemendum sem eru að hefja BS-nám í viðskiptafræði. Gyða Hlín Björnsdóttir, markaðsstjóri deildarinnar, kynnti dagskrá dagsins og bauð nemendur velkomna í nám við Háskóla Íslands. Ingi Rúnar Eðvarðsson, forseti Viðskiptafræðideildar, ávarpaði nemendur og sagði þeim frá deildinni og ýmsum hagnýtum atriðum sem hafa ber í huga nú þegar nemendur eru komnir í háskóla.

Lilja Brandsdóttir, nemandi á öðru ári í viðskiptafræði, gaf nemendum góð ráð fyrir fyrsta árið þeirra, fór yfir hvernig hún skipuleggur sig í námi og ræddi um hvað það er mikilvægt að læra jafnt og þétt yfir önnina því þá verður lífið ekki eins erfitt þegar prófatörnin hefst. Lilja var ein af þremur sem komst á forsetalista Viðskiptafræðideildar í vor en deildin veitir verðlaun þeim þremur nemendum sem hljóta hæstu meðaleinkunn að loknum prófum á fyrsta ári. Verðlaunin verða veitt í júní ár hvert.

Næst á svið kom formaður NESU, Nordic Economics Student‘s Union, Auður Elísabet Guðrúnardóttir, og ræddi um starf félagsinsN. Að lokum komu fulltrúar nemendafélagsins Mágusar og voru þeir Benedikt Guðmundsson formaður og Alexander Kristjánsson varaformaður með kynningu á því sem er fram undan hjá félaginu á komandi skólaári. Stjórn Mágusar fór með nýja nemendur í göngutúr um háskólasvæðið en deginum lauk með óvissuferð sem endaði með mikilli gleði.

Nýnemar við Viðskiptafræðideild á kynningarfundi í Háskólabíói.