Skip to main content
6. október 2020

Tilnefningar til Íslensku menntaverðlaunanna kynntar

Tilnefningar til Íslensku menntaverðlaunanna voru kynntar síðdegis í gær, á Alþjóðlegum degi kennara. Það var Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, sem kynnti tilnefningarnar í beinni útsendingu á Rás 2. Verðlaun verða veitt í þremur aðalflokkum en þeir eru framúrskarandi skólastarf eða menntaumbætur, framúrskarandi kennari og framúrskarandi þróunarverkefni. Að auki verður veitt hvatning til einstaklings, hóps eða samtaka sem stuðlað hafa að menntaumbótum er þykja skara fram úr. Ráðgert er að veita verðlaunin við hátíðlega athöfn 6. nóvember næstkomandi.

Íslensku menntaverðlaunin voru síðast veitt árið 2012 en þá höfðu þau verið veitt árlega frá árinu 2005.

Að verðlaununum standa Forseti Íslands, mennta- og menningarmálaráðuneytið, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, Kennarasamband Íslands, Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Háskólinn á Akureyri, Listaháskóli Íslands, Félag um menntarannsóknir, Grunnur, Menntamálastofnun, Miðstöð skólaþróunar við HA, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök áhugafólks um skólaþróun og skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar.

Hægt er að fræðast nánar um tilnefningarnar HÉR.

Tilnefningar til Íslensku menntaverðlaunanna voru kynntar síðdegis í gær, á Alþjóðlegum degi kennara. Ráðgert er að veita verðlaunin við hátíðlega athöfn 6. nóvember næstkomandi. MYND/ Kristinn Ingvarsson