Tilnefndar til verðlauna Hagþenkis  | Háskóli Íslands Skip to main content

Tilnefndar til verðlauna Hagþenkis 

1. febrúar 2018
""

Sjö bækur eftir fræðimenn sem starfa við Háskóla Íslands eða tengdar stofnanir eru tilnefndar til  Viðurkenningar Hagþenkis 2017. Tilkynnt var um tilnefningarnar í dag en fjórar bókanna komu út á vegum Háskólaútgáfunnar á síðasta ári. 

Hagþenkir er félag höfunda fræðirita og kennslugagna og hefur í yfir þrjá áratugi veitt verðlaun fyrir úrvals vinnu við samningu fræðirita, kennslugagna, aðra miðlun fræðilegs efnis eða rannsóknir.

Líkt og undanfarin ár eru tíu bækur tilnefndar til verðlauna Hagþenkis en val á bókunum er höndum viðurkenningaráðs Hagþenkis. Að þessu sinni eru fjórar bækur Háskólaútgáfunnar tilnefndar, en þær eru:

  • Inngangur að skipulagsrétti – lagarammi og réttarframkvæmd eftir Aðalheiði Jóhannsdóttur, prófessor við Lagadeild. „Heildstætt rit um flókinn heim skipulagsréttar. Handbók sem gagnast bæði lærðum og leikum,“ segir í umsögn um verkið.
  • Íslenska lopapeysan – uppruni, saga og hönnun eftir Ásdísi Jóelsdóttur, lektor við Menntavísindasvið. „Margþætt rannsókn í textílfræði sem lýsir samspili handverks, hönnunar og sögu prjónaiðnaðar í fallegri útgáfu,“ segir viðurkenningaráð um bókina.
  • Ójöfnuður á Íslandi – skipting tekna og eigna í fjölþjóðlegu samhengi eftir Stefán Ólafsson, prófessor við Félags- og mannvísindadeild, og Arnald Sölva Kristjánsson, starfsmann við norska fjármálaráðuneytið. „Skýr og aðgengileg greining á þróun eigna og tekna á Íslandi og misskiptingu auðs í alþjóðlegum samanburði,“ segir í umsögn um verkið.
  • Frelsi, menning, framför – um bréf og greinar Jóns Halldórssonar eftir ÚIfar Bragason, rannsóknaprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. „Næm lýsing á sjálfsmynd, væntingum og viðhorfum vesturfara við aðlögun þeirra að samfélagi og menningu Norður-Ameríku,“ segir í umsögn viðurkenningarráðs um bókina.

Þá eru þrjár aðrar bækur eftir fræðimenn sem starfa eða hafa starfað við Háskólann meðal tilnefndra að þessu sinni. Þetta eru bækurnar:

  • Jarðhiti og jarðarauðlindir eftir Stefán Arnórsson, prófessor emeritus við Jarðvísindadeild. Hið íslenska bókmenntafélag gefur út og í umsögn dómnefndar segir: „Einstaklega ítarlegt rit um auðlindir í jörðu og brýn áminning um að huga að sjálfbærni við nýtingu náttúruauðæfa.“
  • Leitin að klaustrunum – klausturhald á Íslandi í fimm aldir eftir Steinunni Kristjánsdóttur, prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild. Sögufélagið og Þjóðminjasafn Íslands gefa bókina út en þess má geta að hún var einnig tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fræðirita og bóka almenns eðlis. „Umfangsmikil og vel útfærð rannsókn sem varpar nýju ljósi á sögu klausturhalds á Íslandi. Frásagnarstíll höfundar gefur verkinu aukið gildi,“ segir í umsögn viðurkenningaráðs.
  • Sjálfstætt fólk – vistarband og íslenskt samfélag á 19. öld eftir Vilhelm Vilhelmsson, sem er nýráðinn forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra. Sögufélagið gefur bókina út en hún byggist á doktorsritgerð Vilhelms við Háskóla Íslands. Bókin var einnig tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunna í flokki fræðirita og bóka almenns efnis. Viðurkenningaráð Hagþenkis segir um  bókina:  „Aðgengilegt og vel skrifað rit sem sýnir hvernig vinnufólk fyrri tíma gat haft áhrif á bága stöðu sína með hversdagslegu andófi og óhlýðni.“

Viðurkenning Hagþenkis verður veitt á á vormánuðum.

 

Kápur sjö bóka

Netspjall