Þýddi skáldsögu um vegi valdsins | Háskóli Íslands Skip to main content
16. júní 2020

Þýddi skáldsögu um vegi valdsins

Út er komin bókin Beðið eftir barbörunum eftir J. M. Coetzee í þýðingu Rúnars Helga Vignissonar, dósents í ritlist við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands og Sigurlínu Davíðsdóttur, fyrrverandi kennara við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Bókin kom út á frummálinu árið 1980 og er talin á meðal merkustu skáldsagna síðari hluta 20. aldar. J. M. Coetzee er margverðlaunaður rithöfundur frá Suður-Afríku og er Beðið eftir barbörunum eitt þekktasta verk hans. Sagan er áleitin gagnrýni á nýlenduveldi og aðskilnaðarstefnu líkt og fjallað er um í eftirmála Einars Kára Jóhannssonar, útgefanda og ritlistarnema við Háskóla Íslands.

Rúnar Helgi Vignisson segir að verkið spretti úr veruleika aðskilnaðarstefnunnar í Suður-Afríku, „þó að bókin gerist reyndar ekki þar heldur í tilbúnu ríki. Í verki sem skírskotar til allra tíma skoðar Coetzee vegi valdsins á landamærum stórveldis sem óttast stöðugt innrás hinna innfæddu, barbaranna. Þegar fulltrúar heimsveldisins taka svo völdin gerist dómari við landamærin gagnrýninn á alræði þeirra og ofbeldi, en þarf samhliða að horfast í augu við eigin takmörk, fýsnir og siðferði. Að mínu mati er Beðið eftir barbörunum eitt allra sterkasta skáldverk Coetzees og afrískra bókmennta.“

Út er komin bókin Beðið eftir barbörunum eftir J. M. Coetzee í þýðingu Rúnars Helga Vignisson, dósent í ritlist við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands og Sigurlínu Davíðsdóttur.