Þurfum öll að breyta hugsunarhætti okkar | Háskóli Íslands Skip to main content
22. febrúar 2020

Þurfum öll að breyta hugsunarhætti okkar

""

„Allt starf Háskóla Íslands hefur frá fyrstu tíð miðað að því að efla farsæld og velferð á Íslandi. Það var því enn ein dýrmæt staðfesting á árangri okkar þegar nýlega varð opinbert að Háskóli Íslands er í hópi allra fremstu háskóla heims þegar kemur að áhrifum á samfélag og nærumhverfi.“ 

Þetta sagði Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, við brautskráningu hartnær 400 kandídata úr grunn- og framhaldsnámi við hátíðlega athöfn í Háskólabíói í dag. Í brautskráningarhópnum í dag voru 250 konur og 149 karlar. Brautskráð var frá 24 deildum af öllum fræðasviðum Háskóla Íslands. 

Myndir Kristins Ingvarssonar frá brautskráningu

Myndir úr myndakössum í anddyri

Prófgráðan lykill að farsælli framtíð

Háskólarektor gerði árangur skólans í alþjóðlegri samkeppni að umtalsefni í ávarpi sínu og sagði að öll fræðasvið Háskóla Íslands væru nú í fyrsta sinn á virtum matslistum yfir það sem best gerist í heiminum. „Þýðing þessa fyrir íslenskt samfélag verður seint ofmetin,“ sagði Jón Atli og bætti því við að allur þessi árangur væri ekki aðeins viðurkenning fyrir vísindastarf skólans heldur vekti hann athygli víða um lönd og gerði Háskóla Íslands að eftirsóttum samstarfsaðila. Hann sagði að þetta yki jafnframt verðmæti prófgráðanna sem kandídatarnir hefðu áunnið sér á þessum góða degi. 
„Það er metnaður okkar að prófgráða frá Háskóla Íslands færi ykkur í hendur lykil að farsælli framtíð.“

Jón Atli sagði að háskólastarf væri í eðli sínu landnám, óþrjótandi leit að dýpri skilningi, traustari þekkingu, betri lausnum og fegurra mannlífi. „Það er eitthvað í innsta kjarna háskólahugsjónarinnar, og raunar í lífinu sjálfu, sem unir illa kyrrstöðunni. Landneminn Stephan G. Stephansson orðaði þetta svo í ávarpi til samlanda sinna í Vesturheimi um líkt leyti og Háskóli Íslands var stofnaður: Það er engra þakka vert að búa í Róm, heldur að byggja hana upp.“  

Samkvæmt orðum skáldsins er uppbygging forsenda þess að við getum verið sátt við okkur sjálf og tryggt um leið að næsta kynslóð verði farsælli en kynslóðin á undan.

Þurfum að leita nýrra lausna og efla nýsköpun í allri hugsun

Háskólarektor vék einnig talinu að mikilvægi heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbærni  sem lýsa brýnustu áskorunum samtímans. „Mörg þeirra þola enga bið,“ sagði Jón Atli.

„Mikill samhljómur er með þessum markmiðum og stefnu Háskóla Íslands sem og grunngildum skólans um jafnrétti, fagmennsku og akademískt frelsi. Á næstu árum munum við taka enn frekara mið af heimsmarkmiðunum við stefnumótun og í háskólastarfinu. Vísindamenn okkar hafa hér margt fram að færa. Má í því sambandi nefna markmiðin um heilsu og vellíðan, viðbrögð við loftslagsvá, nýsköpun og uppbyggingu, verndun vistkerfa, jafnrétti kynjanna, sjálfbærni í orkumálum, menntun fyrir alla, aukinn jöfnuð og frið og réttlæti.“  

156 kandídatar tóku við brautskráningarskírteini sínu frá Félagsvísindasviði í dag, 41 frá Heilbrigðisvísindasviði, 78 frá Hugvísindasviði, 54 frá Menntavísindasviði og 69 frá Verkfræði- og náttúruvísindasviði. Samanlagt brautskráðust því 398 kandídatar í dag með 401 prófgráðu.  MYND/Kristinn Ingvarsson

Háskólarektor sagði að stærsta áskorunin fæli þó sér þá staðreynd að við þurfum öll sem eitt að breyta hugsunarhætti okkar því við stæðum frammi fyrir viðfangsefnum sem varða möguleika alls lífs á jörðinni. „Þessum áskorunum verður ekki mætt að fullu með átaki einstakra fræðimanna eða fræðigreina. Við þurfum að vinna enn betur saman þvert á fræðigreinar, þvert á þjóðríki og þvert á menningarheima. Til þess þurfum við að leita nýrra lausna og efla nýsköpun í allri hugsun, breyta skipulagi og innviðum og þróa nýja samskiptahætti.“ Hann bætti því við að Háskóli Íslands væri vel í stakk búinn til að leggja sitt af mörkum og sagði að þörfin fyrir alhliða háskóla í fremstu röð á Íslandi hefði aldrei verið meiri en nú.

Jón Atli eggjaði kandídatanna til afreka undir lok ræðu sinnar og sagði að framlag þeirra gæti skipt sköpum því umbylting hugarfarsins hæfist iðulega hjá yngri kynslóðum.  

Brautskráð frá öllum fræðasviðum

157 kandídatar tóku við brautskráningarskírteini sínu frá Félagsvísindasviði í dag, 41 frá Heilbrigðisvísindasviði, 78 frá Hugvísindasviði, 54 frá Menntavísindasviði og 69 frá Verkfræði- og náttúruvísindasviði. Samanlagt brautskráðust því 399 kandídatar í dag með 401 prófgráðu. 

Nú stunda um 13.300 nemendur nám við Háskóla Íslands, af þeim eru um 8.200 í grunnnámi og um 5.100 í framhaldsnámi, þar af um 640 í doktorsnámi, og um 1.200 í viðbótarnámi á meistarastigi. Frá síðustu febrúarbrautskráningu hafa brautskrást 2.269 kandídatar í grunn- og framhaldsnámi og á sama tímabili hafa 80 lokið doktorsprófi frá Háskólanum. 

Að lokinni brautskráningu flutti Jóna Þórey Pétursdóttir, forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands, ávarp og Háskólakórinn söng nokkur lög.

Frá brautskráningu Háskóla Íslands