Þróttmikil nýsköpun og samstarf við atvinnulíf í forgrunni á ársfundi HÍ | Háskóli Íslands Skip to main content

Þróttmikil nýsköpun og samstarf við atvinnulíf í forgrunni á ársfundi HÍ

23. ágúst 2018

Árangur Háskóla Íslands í alþjóðlegu vísindastarfi og ávinningur af margháttuðu nýsköpunarstarfi innan skólans og samstarfi við atvinnulíf í landinu var meginþema á ársfundi Háskóla Íslands sem fram fór í Hátíðasal Aðalbyggingar í dag að viðstöddum mennta- og menningarmálaráðherra, fjölda gesta, starfsfólks og stúdenta. 

Lilja D. Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra fjallaði m.a. í ávarpi sínu um það leiðtogahlutverk sem Háskóli Íslands hefði haft í uppbyggingu íslensks samfélags á fullveldistímanum og sagði að skólinn hefði rækt það starf vel. Áskoranir biðu samfélagsins á næstu öld fullveldis og farsæld þjóða í framtíðinni réðist af því hversu miklu ríki verðu rannsókna og nýsköpunarstarfs. Þar gegndi Háskóli Íslands áfram lykilhlutverki.

Í ávarpi sínu á ársfundinum vék Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, að framgangi stefnu skólans og góðum árangri í alþjóðlegu vísindasamstarfi. Hann benti hins vegar á að Háskóli Íslands væri enn eftirbátur sambærilegra norrænna háskóla þegar kæmi að fjármögnun starfsins. Sem dæmi fengi Háskóli Íslands um helmingi lægri fjárframlög en margir norrænir skólar sem skólinn stæði jafnfætis. Því hvíldi starf Háskólans á mun færra starfsfólki en hjá nágrannaþjóðunum og fjölga þyrfti því um yfir 200 til þess að mönnunin yrði sambærileg. 

Rektor gerði einnig nýsköpunarstarf og samstarf við atvinnulíf að umtalsefni og sagði tækifæri til samvinnu milli akademíu og atvinnulífs að finna á öllum fræðasviðum skólans. Nú á haustmánuðum yrði sett á laggirnar tækniveitan Auðna en hún verður mikilvæg brú á milli rannsókna og nýsköpunar þannig að verðmætur ávöxtur vísinda- og þekkingarstarfs skili sér til samfélagsins. Þá væri uppbygging á Vísindagörðum Háskóla Íslands í Vatnsmýri í fullum gangi. Háskólinn hefði þegar gert samstarfssamninga við Alvotech, sem þegar hefur komið sér fyrir í Vatnsmýri, og CCP, sem flytur í nýjar höfuðstöðvar þar innan nokkurra missera.

Fulltrúi stúdenta, Elísabet Brynjarsdóttir, forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands, gerði enn fremur grein fyrir starfi ráðsins og stefnumálum stúdenta og þá fór Jenný Bára Jensdóttir, fjármálastjóri Háskólans, yfir ársreikning háskólans fyrir árið 2017.

Seinni hluti árfundarins var helgaður nýsköpun í Háskóla Íslands. Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, aðstoðarrektor vísinda, fjallaði um ávöxt nýsköpunarstarfs starfsmanna og stúdenta innan skólans en fjölmörg fyrirtæki hafa verið stofnuð á grundvelli rannsókna innan hans. Þá ræddi Magnús Þór Torfason, lektor við Viðskiptafræðideild, um nýsköpunarkennslu við skólann,  og Hilmar B. Janusson, forstjóri Genís og stjórnarformaður Vísindagarða Háskóla Íslands, sagði frá uppbyggingu innan garðanna og framtíðarsýn þeirra. Þá fjallaði Sesselja S. Ómarsdóttir, forstöðumaður greiningardeildar Alvotech og prófessor við Lyfjafræðideild, um ávinning af samstarfi fyrirtækisins og Háskóla Íslands á sviði kennslu og starfsþjálfunar, rannsókna og nýsköpunar.

Upptaka af fundinum 

Myndir frá fundinum

Lykiltölur Háskóla Íslands 2018

Nýtt fréttabréf Háskóla Íslands

Gestir á ársfundi Háskóla Íslands