Skip to main content
5. mars 2020

Þróaði spálíkan um legutíma sjúklinga eftir kransæðahjáveituaðgerðir

""

Læknanemi á fjórða ári í Háskóla Íslands hefur ásamt leiðbeinendum sínum þróað fyrsta spálíkanið hér á landi um legutíma eftir kransæðahjáveituaðgerðir. Vonir standa til að hægt verði að nýta það til að skipuleggja enn betur starfsemi á skurðstofum og gjörgæsludeildum, bæði hér heima og erlendis. Verkefnið hlaut á dögunum fyrstu verðlaun á alþjóðlegu þingi hjartaskurðlækna.

Sagt var frá spálíkaninu og rannsóknum tengdu því í nýjasta tölublaði Læknablaðsins undir yfirskriftinnni „Algengi og áhættuþættir lengdrar dvalar á gjörgæsludeild eftir kransæðahjáveituaðgerð“. Þar kemur fram að kannað var hversu lengi sjúklingar þurfa gjörgæslu eftir svokallaða kransæðahjáveitu sem er algengasta opna hjartaaðgerðin á Íslandi. Áhættuþættir lengdrar legu voru einnig kannaðir og í framhaldinu útbúið áðurnefnt spálíkan sem ætlað er að segja fyrir um lengri legutíma en sólarhring. 

Allir sjúklingar þurfa að fara á gjörgæslu eftir opna hjartaaðgerð a.m.k. yfir nótt og dugði það í 80% tilvika hjá þeim 2.200 sjúklingum sem skoðaðir voru í rannsókninni. Hin 20% sjúklinganna þurftu á lengri innlögn að halda af ýmsum orsökum en þær tengdust oftast ástandi þeirra fyrir aðgerðina, eins og hjartabilun vegna kransæðastíflu, en einnig fylgikvillum aðgerða, eins og blæðingum eða sýkingum. 

Á Íslandi eru gerðar 100-150 kransæðahjáveituaðgerðir á ári og á Landspítala eru tvær gjörgæsludeildir sem rúma alls 22 sjúklinga. Þar af eru 11 gjörgæslupláss við Hringbraut þar sem opnar hjartaaðgerðir eru framkvæmdar flesta daga vikunnar. Undanfarin tvö ár hefur ekki verið unnt að nýta nema 12-13 gjörgæslupláss af 22 á Landspítala vegna skorts á hjúkrunarfræðingum, þar af 6-7 rúm af 11 við Hringbraut. Þetta getur valdið því að valkvæðum gjörgæsluinnlögnum er frestað. Árið 2018 var rúmlega þriðjungi allra hjartaaðgerða frestað vegna plássleysis á gjörgæslu. Á Íslandi eru ekki til svokallaðar hágæsludeildir, sem eru millistig milli gjörgæsludeildar og almennrar legudeildar. Þar liggja sjúklingar sem þurfa mikla umönnun og eftirlit en þarfnast ekki fullrar gjörgæslumeðferðar. Ef slíkur möguleiki væri til staðar á Landspítala gæti það hugsanlega létt á gjörgæsludeildinni og aukið möguleika á valaðgerðum sem krefjast gjörgæslu, eins og kransæða- og hjartalokuaðgerðum. 

Af ofangreindu er ljóst að afar mikilvægt er að nýta þau gjörgæslupláss vel sem í boði eru. Með því að þekkja áhættuþætti lengdrar gjörgæsludvalar eftir aðgerð eins og kransæðahjáveitu er betur hægt að  skipuleggja starfsemi á skurðstofu og gjörgæsludeildum og t.d. raða valaðgerðum þannig að pláss á gjörgæslu nýtist sem best og þannig fækka valaðgerðum sem þarf að fresta. Tekið skal fram að sjúklingar sem þurfa bráðaaðgerð eru ávallt teknir til aðgerðar og fá í kjölfarið gjörgæslumeðferð óháð plássstöðu. 

Þetta er í fyrsta sinn sem þróað er spálíkan um legutíma eftir kransæðahjáveituaðgerðir hér á landi en hugmyndin er að prófa megi líkanið frekar í framtíðinni. 

Fyrsti höfundur greinarinnar í Læknablaðinu er Erla Liu Ting Gunnasdóttir, læknanemi á 4. ári, en rannsóknin er hluti af BS-verkefni hennar sem hún varði sl. vor við Læknadeild Háskóla Íslands. Leiðbeinendur hennar voru prófessorarnir Martin Ingi Sigurðsson og Tómas Guðbjartsson sem jafnframt eru yfirlæknar á Landspítala. Þess má geta að Erla vann fyrstu verðlaun fyrir verkefnið á alþjóðlegu þingi hjartaskurðlækna, SSRCTS, sem haldið var í Noregi fyrir tveimur vikum.

Fyrsti höfundur greinarinnar í Læknablaðinu er Erla Liu Ting Gunnasdóttir, læknanemi á 4. ári, en rannsóknin er hluti af BS-verkefni hennar sem hún varði sl. vor við Læknadeild Háskóla Íslands. Leiðbeinendur hennar voru prófessorarnir Martin Ingi Sigurðsson og Tómas Guðbjartsson sem jafnframt eru yfirlæknar á Landspítala.