Þrjú verkefni vísindamanna HÍ fá öndvegisstyrk | Háskóli Íslands Skip to main content

Þrjú verkefni vísindamanna HÍ fá öndvegisstyrk

24. janúar 2018
""

Vísindamenn Háskóla Íslands hlutu þrjá af fjórum öndvegisstyrkjum sem úthlutað var úr Rannsóknasjóði Rannís styrkárið 2018. Af 63 styrkjum sem úthlutað var úr sjóðnum að þessu sinni komu 47 í hlut vísindamanna og doktorsnema sem starfa við skólann og tengdar stofnanir.

Fram kemur á heimasíðu Rannís að Rannsóknasjóði hafi borist 342 gildar umsóknir um styrki að þessu sinni og voru 63 þeirra styrktar eða um 18% umsókna. Samanlögð upphæð styrkja nam um 900 milljónir króna.

Fjórir öndvegisstyrkir voru veittir að þessu sinni, sem fyrr segir, og þrír þeirra komu í hlut vísindamanna við Háskólann. Hæstan styrk, 50 milljónir króna, hlaut Einar Árnason, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild, til rannsóknarinnar „Stofnerfðamengjafræði þorskfiska með háa frjósemi“. Þá hlaut Sigurður Gylfi Magnússon, prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild,  rúmlega 48 milljóna króna styrk til rannsóknaverkefnisins „Heimsins hnoss: Söfn efnismenningar, menningararfur og merking“ og Eiríkur Steingrímsson, prófessor við Læknadeild, hlaut tæplega 30 milljóna króna styrk til rannsóknarinnar „MITF: Boðleiðir og frumuhringurinn“.

Enn fremur barst sjóðnum 181 umsókn um verkefnisstyrki og voru 33 verkefni styrkt, en starfsmenn Háskóla Íslands og tengdra stofnana standa að 25 þeirra. Styrkir voru veittir til rannsókna á afar fjölbreyttum fræðasviðum, þar á meðal lyfjafræði, stjórnmálafræði, efnafræði, líffræði, fornleifafræði, umhverfisverkfræði, eðlisfræði og hagfræði.

Rannís veitt enn fremur 11 rannsóknastöðustyrki til nýútskrifaðra doktora og koma sjö þeirra í hlut vísindamanna við Háskóla Íslands á sviði eðlisfræði, lýðheilsuvísinda, líffræði, bókmenntafræði, lyfjafræði og íslenskra fræða. 

Þá fá 14 doktorsnemar við Háskóla Íslands og tengdar stofnanir styrki frá Rannís en alls voru 15 styrkir veittir til doktorsnema að þessu sinni. Doktorsnemarnir fást m.a. við rannsóknir á líffræðilegri fjölbreytni linda á Íslandi, menningarsögu íslenskra eldgosa, mótun millistéttarinnar gegnum foreldravenjur og -val innan íslensks grunnskólakerfis, hvernig sjávarspendýr flækjast í veiðarfærum, samskiptum æðaþels og þekjuvefjar í brjóstakrabbameinum og kolefnisbindingu í mómýrum í síbreytilegu umhverfi.

Yfirlit yfir styrkt verkefni úr Rannsóknasjóði má nálgast á vef Rannís.

Aðalbygging Háskóla Íslands

Netspjall