Skip to main content
27. nóvember 2018

Þrjú verðlaunuð fyrir lofsverðan árangur í starfi

""

Þrír starfsmenn Háskóla Íslands, þau Terry Adrian Gunnell, prófessor við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild, Anna Sigríður Ólafsdóttir, prófessor við Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda, og Ásdís Guðmundsdóttir, kennslustjóri Hugvísindasviðs, tóku í dag við viðurkenningu fyrir lofsverðan árangur í starfi. Viðurkenningarnar voru veittar á opnum fundi rektors Háskóla Íslands með starfsfólki í Hátíðasal skólans.

Terry Adrian Gunnell, prófessor við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild á Félagsvísindasviði Háskóla Íslands, hlaut viðurkenningu fyrir lofsvert framlag til kennslu. Hann lauk BA-prófi í leiklistarfræði frá háskólanum í Birmingham í Englandi 1977, kennsluréttindanámi í ensku og leiklist frá sama skóla 1978, Bacc. Phil. í íslensku fyrir erlenda stúdenta frá Háskóla Íslands 1981 og doktorsprófi í íslenskum fræðum frá háskólanum í Leeds í Englandi 1991. Terry hefur kennt við Háskóla Íslands í aldarfjórðung, fyrst sem stundakennari í þjóðfræði og bókmenntafræði, þá sem lektor í þjóðfræði frá 1998, sem dósent í sömu grein frá 2001 og sem prófessor frá 2010. 

Þegar Terry var ráðinn lektor gegndi hann eina fasta starfinu í þjóðfræði við Háskóla Íslands en hann hefur síðan þá leitt, þróað og eflt námið með þeim ágætum að nú starfa við greinina fjórir fastir kennarar. Mörg þeirra námskeiða sem kennd eru í þjóðfræði mótaði Terry og kenndi fyrstur en fékk svo aðra til að taka við af sér. Þar að auki stofnaði Terry til meistaranáms bæði í safnafræði og norrænni trú við sömu námsbraut. 

„Terry hefur einstakt lag á að kveikja brennandi áhuga hjá nemendum sínum og vekja hjá þeim metnað til að standa sig í námi. Hann lætur sér annt um þá og gefur sér alltaf tíma til að sinna þeim. Hann er þekktur fyrir að gera miklar kröfur til nemenda sem hann leiðbeinir, en um leið að blása þeim í brjóst trú á að þau geti staðið undir kröfunum og að veita þeim þá leiðsögn sem þau þurfa til að gera það. 

Terry hefur komið vel út úr kennslukönnunum sem sjá má af eftirfarandi lykilorðum sem tekin eru út úr opnum athugasemdum undanfarinna ára: kröfur, umhyggja, hvatning, metnaður, örlæti, sanngirni, orka, útgeislun, neisti, hlýindi, traust, einlægni, eldmóður, hugmyndaauðgi og fagmennska. 

Terry byggði snemma upp öflugt net erlends samstarfs til að auka námskeiðaúrval í lítilli grein og víkka sjóndeildarhring nemenda, en í námsbrautinni eru að jafnaði kennd 3-5 sendikennaranámskeið (Erasmus og Fulbright) á hverju ári. Hann hefur tekið þátt í móttöku skiptinema á Félagsvísindasviði ásamt því að bjóða upp á námskeiðið Being Icelandic: Icelandic Folktales, Beliefs and Popular Culture Past and Present sem er sérstaklega ætlað skiptinemum og erlendum nemum,“ segir í umsögn valnefndar um Terry.

Anna Sigríður Ólafsdóttir, prófessor við Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda á Menntavísindasviði Háskóla Íslands, hlýtur að þessu sinni viðurkenningu fyrir lofsvert framlag til rannsókna. Hún lauk BS-prófi í matvælafræði frá Háskóla Íslands 1997, meistaraprófi í næringarfræði frá háskólanum í Vín í Austurríki árið 2000 og doktorsprófi í næringarfræði frá Háskóla Íslands árið 2006. Anna Sigríður var ráðin lektor við Kennaraháskóla Íslands 2006, síðar á Menntavísindasviði Háskóla Íslands, varð dósent 2010 og prófessor frá 2016. Hún gegndi starfi forseta Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeildar frá 1. júlí 2016 og hefur verið forseti hinnar nýju Deildar heilsueflingar, íþrótta og tómstunda frá 1. júlí. 

Í rökstuðningi valnefndar segir um Önnu Sigríði: „Anna Sigríður er mikilvirkur, frjór og um leið vaxandi vísindamaður sem vinnur að rannsóknum sem hafa mikið vísindalegt og samfélagslegt gildi. Í rannsóknum sínum hefur hún stuðlað að samvinnu þvert á fræðasvið jafnt innanlands sem á erlendum vettvangi. Sérsvið Önnu Sigríðar er samspil næringar og hreyfingar hjá börnum og unglingum og hefur hún birt fjölda greina um rannsóknir sínar í virtum fræðitímaritum. Rannsóknir hennar eru mikilvægt framlag til þekkingar á heilsutengdri hegðun íslenskra barna og unglinga og hún hefur verið leiðandi í rannsóknum á mataræði barna og ungmenna innan skólakerfisins. Anna Sigríður hefur tekið þátt í að skapa þýðingarmikla þekkingu á þeim þáttum sem hafa áhrif á líf og vellíðan barna og unglinga auk þess að þróa markviss inngrip sem bætt geta heilsu þeirra. Hún hefur einnig verið ötul við að kynna rannsóknir sínar um næringu og heilsu fyrir almenningi. Það er til marks um þá virðingu sem Anna Sigríður hefur öðlast fyrir störf sín að hún var fengin til að vinna að viðmiðum um næringu fyrir Swedish Nutrition Foundation og að stefnumótun fyrir embætti Landlæknis. 

Anna Sigríður hefur tekið þátt í gerð fjölda umsókna í innlenda og erlenda samkeppnissjóði. Fyrir hönd Háskóla Íslands leiðir hún verkefni sem er styrkt af Horizon 2020 og miðar að því að vinna að inngripum sem bætt geta andlega líðan ungmenna í skóla. Styrkurinn er afar þýðingarmikil viðurkenning jafningjasamfélagsins á hæfni Önnu Sigríðar sem vísindamanns.“ 

Ásdís Guðmundsdóttir, kennslustjóri Hugvísindasviðs, hlýtur viðurkenningu fyrir lofsvert framlag til stjórnsýslu og stoðþjónustu. Hún lauk B.Ed. prófi frá Kennaraháskóla Íslands 1981 og námi í námsráðgjöf frá Háskóla Íslands 1994. Hún hefur starfað um árabil í stjórnsýslu Háskóla Íslands, fyrst við námsráðgjöf skólans en síðar sem skrifstofustjóri Guðfræðideildar. Starfaði hún á þeim vettvangi þar til deildin sameinaðist Hugvísindadeild í nýju Hugvísindasviði árið 2008. Frá þeim tíma hefur Ásdís gegnt starfi verkefnisstjóra Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar, jafnframt því sem hún er kennslustjóri Hugvísindasviðs. 

„Ásdís hefur um áraraðir sinnt starfi sínu við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild með einstakri prýði og fagmennsku. Hún er afkastamikil og fórnfús og ávallt reiðubúin að takast á við þau verkefni sem fyrir henni kunna að liggja, af hvaða toga sem þau eru. Samstarfshæfni hennar er með eindæmum góð og viðmót hennar einkennist af jákvæðni og gleði. Stundum hafa kennarar deildarinnar það á orði að hún sé „límið“ í deildinni. Í stuttu máli sagt hefur starf hennar í þágu Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar reynst ómetanlegt. 

Auk verkefnastjórnar fyrir Guðfræði- og trúarbragðafræðideild starfar Ásdís sem kennslustjóri Hugvísindasviðs. Í því hlutverki hefur hún haft forystu um þróun nýrra kennsluhátta og bætta stjórnsýslu á sviði kennslumála á sviðinu, bæði í samstarfi við kennslunefnd sviðsins og einstaka kennara og nemendur. Miklar og örar breytingar hafa orðið í þessum málaflokki á undanförnum árum með skýrari reglum og verklagi og hefur Ásdís komið þeim í ágætan farveg innan sviðsins. Er í raun undravert hversu vel henni hefur tekist til við að samþætta tvö erfið hlutverk, þ.e.a.s. kennslustjórn á heilu fræðasviði og alla umsýslu fyrir deild. 

Að síðustu hefur Ásdís gegnt lykilhlutverki á skrifstofu Hugvísindasviðs við að efla góðan starfsanda og skilvirka þjónustu. Hún hefur langa reynslu af stjórnsýslu við Háskóla Íslands og þekkir innviði hennar vel og hefur miðlað af þeirri þekkingu sinni af örlæti til nýrra starfsmanna. Þannig gegnir Ásdís Guðmundsdóttir lykilhlutverki í því að Hugvísindasvið hefur getað rekið árangursríka en fámenna stjórnsýslu og stuðlað um leið að einstaklega góðum starfsanda á skrifstofunni,“ segir í umsögn valnefndar um Ásdísi. 

Viðurkenningar fyrir lofsverðan árangur í starfi hafa verið veittar í Háskóla Íslands í nærri tvo áratugi. Í hvert sinn fá þrír starfsmenn viðurkenningar, einn fyrir kennslu, annar fyrir rannsóknir og sá þriðji fyrir önnur störf í þágu Háskólans. Valið fer þannig fram að öllum stúdentum Háskóla Íslands gefst kostur á að tilnefna kennara til kennsluviðurkenningar auk þess sem kennslumálanefnd háskólaráðs tilnefnir a.m.k. þrjá kennara.  Staðið er að viðurkenningunni fyrir rannsóknir þannig að allir akademískir starfsmenn geta sent inn tilnefningar auk þess sem vísindanefnd háskólaráðs tilnefnir a.m.k. þrjá vísindamenn.  Loks geta allir starfsmenn Háskóla Íslands sent inn tilnefningar fyrir viðurkenninguna fyrir önnur störf í þágu skólans.

Þriggja manna valnefnd fer síðan yfir tilnefningarnar og velur einn úr hverjum hópi. Valnefndina skipa þau Ebba Þóra Hvannberg, prófessor og fv. varaforseti háskólaráðs, Höskuldur Þráinsson, prófessor emerítus, sem er fulltrúi fyrrverandi starfsmanna í nefndinni, og Ásthildur Margrét Otharsdóttir, ráðgjafi og formaður stjórnar Marel hf. og fulltrúi í háskólaráði, sem er jafnframt fulltrúi fyrrverandi nemenda í valnefnd.

Alls hafa 57 starfsmenn Háskóla Íslands verið heiðraðir með þessum hætti. Yfirlit yfir handhafa viðurkenninganna er að finna á vef skólans.

Fleiri myndir frá fundinum og upptaka af honum.

Handhafar viðurkenninganna ásamt rektor Háskóla Íslands. Frá vinstri: Jón Atli Benediktsson, Ásdís Guðmundsdóttir, Anna Sigríður Ólafsdóttir og Terry Adrian Gunnell. MYND/Kristinn Ingvarsson