Þrjú styrkt til náms við Minnesota-háskóla | Háskóli Íslands Skip to main content

Þrjú styrkt til náms við Minnesota-háskóla

3. nóvember 2017

Þrír nemendur við Háskóla Íslands, Margrét Gísladóttir, nemi í viðskiptafræði, og Friðrik Sveinsson og Styrmir Guðmundsson, nemar í iðnaðarverkfræði, hlutu á dögunum styrk frá styrktarsjóði Val Bjornson Icelandic Exchange Scholarship Fund til þess að stunda nám á vormisseri við Minnesota-háskóla (University of Minnesota) í Bandaríkjunum. 

Sjóðurinn var stofnaður í minningu Valdimars „Val“ Bjornson, fyrrverandi fjármálaráðherra Minnesota (1906–1987). Hann var af íslensku bergi brotinn, einstakur ættjarðarvinur og var ákaflega annt um íslenska námsmenn í Minnesota. Sjóðurinn hefur notið mikils stuðnings vesturíslenska samfélagsins í Minnesota.

Minnesota-háskóli er elsti erlendi samstarfsháskóli Háskóla Íslands og í vetur stunda tveir nemendur frá skólanum nám við Háskóla Íslands. Það eru þær Michelle Wang, sem er nemandi í mannfræði, og Rachel Schollaert, nemandi í ensku og bókmenntum. Þær hljóta styrk frá Háskóla Íslands.

Samstarf Háskóla Íslands og Minnesotaháskóla spannar hátt á fjórða áratug og hafa skólarnir átt víðtækt samstarf, m.a. um stúdenta-, kennara- og starfsmannaskipti ásamt öflugu rannsóknasamstarfi. Í maí sl. var haldið upp á 35 ára samstarfsafmæli skólanna og heimsótti rektor Minnesota-háskóla og sendinefnd Háskóla Íslands og undirritaður var áframhaldandi samningur um samstarf og stúdentaskipti.

Hér á landi er starfandi Hollvinafélag fyrrverandi nemenda Minnesota-háskóla á Íslandi. Jónína Kárdal Ólafsdóttir, náms- og starfsráðgjafi við Háskóla Íslands, er formaður félagsins en hún er ein þeirra sem notið hafa styrks úr styrktarsjóði Val Bjornson.
 

Frá afhendingu styrkjanna á dögunum. Á myndinni eru Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Friðrik Sveinsson, Styrmir Guðmundsson, Hrefna Ingólfsdóttir, móðir Margrétar Gísladóttur sem þegar hefur haldið til Minnesota, Michelle Wang, Rachel Schollaert, Jónína Kárdal, formaður Hollvinafélags Minnesota-háskóla, Friðrika Harðardóttir, forstöðumaður Skrifstofu alþjóðasamskipta og Hafliði Sævarsson, verkefnisstjóri á sömu skrifstofu.

Netspjall