Skip to main content
12. júní 2019

Þrjú heimsþekkt skáld á eyjagjörningi í Háskóla Íslands

""

Bókmennta- og listfræðastofnun Háskóla Íslands stendur ásamt fleirum fyrir tveimur miklum menningarviðburðum nú í júní með þremur af þekktustu ljóðskáldum Bretlandseyja. Mikill fengur er að komu skáldanna til landsins en kver með ljóðum þeirra verða gefin út í íslenskri þýðingu af tilefni heimsóknarinnar. Skáldin eru þau Paul Muldoon, Lavinia Greenlaw og Simon Armitage, sem hlotnaðist reyndar nýverið sá heiður að vera útnefndur lárviðarskáld Bretlands.  

„Fyrir tveimur árum var mér boðið að taka þátt í eyjabókmenntaráðstefnu í Færeyjum sem rithöfundurinn Sjón átti drjúgan þátt í að skipuleggja, ekki síst í samráði við Sif Gunnarsdóttur sem þá var forstöðumaður Norðurlandahússins í Færeyjum. Þetta var einstaklega fróðleg og skemmtileg samkoma og við Sjón ræddum þá strax um að gaman væri að finna henni einhverskonar framhaldslíf,“ segir Ástráður Eysteinsson, prófessor í bókmenntafræði við Háskóla Íslands.

Hann segir að þeir Sjón hafi haldið áfram að stinga saman nefjum þegar heim var komið og þá hafi borist í tal að Sjón hefði komist í kynni við þrjú af þekktustu samtímaljóðskáldum Bretlandseyja, þau Paul Muldoon, Laviniu Greenlaw og Simon Armitage. Þau hefðu öll áhuga á Íslandi og hefðu komið hingað og Sjón benti á að þau hefðu jafnframt hvert um sig kynnt sér vel þekkt Bretlandseyjaskáld frá fyrri tíð sem einnig hefðu leitað til Íslands.

„Þar með var viðfangsefni næsta eyjagjörnings komið í sjónmál, ef ég leyfi mér orðaleik,“ segir Ástráður og kímir,  en hann hefur nú ásamt skáldinu Sjón, fengið þessu nafntoguðu skáld, tvö ensk og eitt írskt, hingað heim. 

Að viðburðunum standa eins og áður sagði Háskóli Íslands eða Bókmennta- og listfræðastofnun, Reykjavík - bókmenntaborg UNESCO og bókaútgáfan Dimma. Í tilefni heimsóknarinnar gefur Dimma út þrjár tvímála bækur með ljóðum gestanna ásamt íslenskum þýðingum Magnúsar Sigurðssonar, Sigurbjargar Þrastardóttur og Sjóns.

„Fyrir tveimur árum var mér boðið að taka þátt í eyjabókmenntaráðstefnu í Færeyjum sem rithöfundurinn Sjón átti drjúgan þátt í að skipuleggja, ekki síst í samráði við Sif Gunnarsdóttur sem þá var forstöðumaður Norðurlandahússins í Færeyjum. Þetta var einstaklega fróðleg og skemmtileg samkoma og við Sjón ræddum þá strax um að gaman væri að finna henni einhverskonar framhaldslíf,“ segir Ástráður Eysteinsson, prófessor í bókmenntafræði við Háskóla Íslands sem er hér ásamt Sjón.

Bréf til Íslands – Letters to Iceland
Ástráður segir að ákveðið hefði verið að heiti viðburðarins yrði sótt í titil þekktrar bókar W.H. Audens og Louis MacNeice, Letters from Iceland frá 1937, með vissum viðsnúningi þó. „Við leituðum hófanna hjá Reykjavík – bókmenntaborg og Háskóla Íslands og það er þessum stofnunum að þakka að við getum boðið skáldunum þremur til landsins og skipulagt tvo viðburði, annan í Norræna húsinu en hinn í Veröld – húsi Vigdísar, þar sem íslenskir höfundar og fræðimenn ræða við erlendu skáldin. Snemma kviknaði einnig sú hugmynd að láta þýða valin ljóð þessara skálda og við fengum í lið með okkur Aðalstein Ásberg Sigurðsson hjá Bókaútgáfunni Dimmu sem mun gefa út þrjú bókarkver með ljóðum eftir skáldin þrjú ásamt íslenskum þýðingum.“ 

Ástráður segist sérlega ánægður með þessar bækur, sem nú eru svo gott sem frágengnar og munu líta dagsins ljós þegar gestirnir koma. „Þessi ljóðakver á tveimur tungumálum undirstrika þá menningarsamræðu sem fram mun fara þessa daga, þetta leitandi eyjaflakk þar sem stutt getur verið á milli skilnings og misskilnings og aldrei að vita hvort land sé fyrir stafni eða hafið blátt,“ segir Ástráður og gerist skáldlegur enda ærið tilefni. 

Ferðir Bretlandseyjaskálda til Íslands
Að sögn Ástráðs verður dagskráin annars með þeim hætti að föstudaginn 21. júní verður málþing í Veröld þar sem fjallað verður um tengsl Bretlandseyja og Íslands og sérstaklega um ferðir Bretlandseyjaskálda norður á bóginn fyrr og síðar. Málþingið, sem hefst kl. 16, verður þríþætt: Sveinn Yngvi Egilsson, prófessor í íslensku við Háskóla Íslands, ræðir við hið nýja lárviðarskáld Bretlands, Simon Armitage, um ljóð þess síðarnefnda en einnig um Íslandstengsl Audens og MacNeice og skáldskap sem af þeim tengslum spratt. Kristín Svava Tómasdóttir, ljóðskáld, sagnfræðingur og stundakennari við Íslensku- og menningardeild, mun ræða við Lavinu Greenlaw um ljóðlist hennar og um tengsl Williams Morris við Ísland, og Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson, rithöfundur og útgefandi, ræðir við írska skáldið Paul Muldoon um norðursýn hans og landa hans, Nóbelsskáldsins Seamusar Heaneys.

Ljóðalestur og leitað svara hjá skáldum
Laugardaginn 22. júní verður svo dagskrá í Norræna húsinu þar sem skáldin þrjú og þýðendur þeirra flytja ljóð og svara spurningum. Sigurbjörg Þrastardóttir er þýðandi Simons Armitage, Magnús Sigurðsson þýddi ljóð Laviniu Greenlaw og Sjón íslenskaði nokkur ný og áður óbirt ljóð eftir Paul Muldoon. Viðburðurinn í Norræna húsinu hefst kl. 15.

Frekari upplýsingar um sjálf skáldin og viðburðina má finna á heimasvæði Bókmenntaborgarinnar Reykjavík.
 

Paul Muldoon, Lavinia Greenlaw og Simon Armitage