Þorskstofninn breyttist með auknum fiskveiðum | Háskóli Íslands Skip to main content
23. júní 2021

Þorskstofninn breyttist með auknum fiskveiðum

Þorskstofninn breyttist með auknum fiskveiðum - á vefsíðu Háskóla Íslands

Ný rannsókn vísindamanna við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum og samstarfsfólks leiðir í ljós að staða þorsks í fæðuvef við Íslandsstrendur reyndist stöðug um aldabil en breyttist samhliða auknum fiskveiðum við landið í lok 19. aldar. Það er líklegt að þetta endurspegli bæði breytingar á aldri og stærð veiðistofns þorsks en líka breytingar í fæðuvef sjávar þar sem fiskum fækkar við umfangsmiklar veiðar og fæðukeðjur styttast. Greint er frá niðurstöðunum í hinu virta vísindatímariti Scientific Reports sem heyrir undir Nature-tímaritasamstæðuna. Niðurstöðurnar undirstrika mikilvægi þess að varðveita ólíkar fargerðir þorsks við Íslandsstrendur, m.a. til að auka þol stofnsins gagnvart umhverfisbreytingum, að sögn höfunda rannsóknarinnar.

Að rannsókninni standa þau Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir, líffræðingur og forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ á Vestfjörðum, og Ragnar Edvardsson, fornleifafræðingur við setrið, ásamt starfssystkinum í Kanada og Noregi. 

Guðbjörg Ásta og Ragnar hafa um árabil unnið að þverfræðilegum rannsóknum á fiskbeinum, einkum úr þorski, sem þau hafa grafið upp við fornar verstöðvar á Vestfjörðum. Elstu beinin eru 1000 ára gömul.  

„Meginmarkmið rannsóknarinnar er að skilja hvernig breytingar á fiskveiðum og umhverfi sjávar hafa haft áhrif á fiskistofna í gegnum aldirnar. Með margra alda gagnaseríu má leggja nokkurs konar grunnlínu og t.d. reyna að áætla hvernig lífríkið í sjónum gæti hafa verið fyrir umfangsmikla nýtingu mannsins,“ útskýrir Guðbjörg Ásta. 

Ragnar bendir á að víða um land, sérstaklega á Vesturlandi og Vestfjörðum, megi finna verstöðvar frá sögulegum tíma. Bein úr þremur slíkum voru undir í rannsókninni, í Breiðuvík og Kollsvík í Vesturbyggð og Siglunesi við Eyjafjörð. „Verstöðin í Breiðuvík í Vesturbyggð er einstök en þaðan voru stundaðar þorskveiðar meira eða minna óslitið frá því fyrir 1000 og fram á upphaf 20. aldar. Aðferðin við veiðarnar og vinnslu fisksins breyttist ótrúlega lítið í gegnum aldirnar en um miðja 19. öld umbreytist öll útgerð á landinu, fyrst með þilskipum og síðar með tilkomu togaranna,“ segir Ragnar. Fyrir þann tíma var þorskurinn yfirleitt þurrkaður í skreið og þorskhausinn skilinn eftir en það eru einmitt bein úr honum sem nýttust við rannsóknina. 

fornleifauppgroftur

Frá fornleifauppgreftri tengdum verkefninu. MYND/Ragnar Edvardsson

Þúsund ára gömul lífssýni undir smásjánni

„Samfelld sería lífsýna úr sömu tegund, sérstaklega efnahagslega mikilvægri tegund eins og Atlantshafsþorski, í yfir 1000 ár er auðvitað ómetanlegur efniviður til rannsókna. Það var því kannski þannig, í þessu tilfelli, að það var efniviðurinn sem hvataði þverfræðilegar umræður um þorskstofninn og nýtingu hans og í framhaldinu þetta verkefni,“ segir Guðbjörg Ásta um upphaf verkefnisins. 

Í samstarfi við vísindamenn í Kanada notuðu þau Guðbjörg og Ragnar rannsóknaraðferð þar sem þau greina svokallaðar stöðugar efnasamsætur kolefnis og niturs í beinunum. Þær gefa ýmsar upplýsingar um líf dýranna fyrr á öldum. „Gildi efnasamsætanna geta sagt okkur mikið um vistkerfi sjávar. Þannig getum við notað gildi niturs til að meta stöðu einstaklingsins í fæðukeðjunni, hærri gildi þýða t.d. að fiskurinn át aðra fiska frekar en hryggleysingja. Gildi kolefnis endurspegla frekar umhverfi fisksins, sjávarhita en líka fæðu, t.d. hvort fiskurinn át í strandsjó eða á hafi úti,“ útskýrir Guðbjörg Ásta.

Þótt afkoma þorsksins í gegnum aldirnar hafi verið í brennidepli í rannsókninni reyndist nauðsynlegt fyrir mat á fæðusvistfræði stofnsins að nýta líka bein úr öðrum fiskum til samanburðar. Því voru bein úr ýsu og steinbít einnig rannsökuð. Auk þess voru beinin borin saman við bein úr fiskum veiddum í nútíma. 

Ragnar bendir á að víða um land, sérstaklega á Vesturlandi og Vestfjörðum, megi finna verstöðvar frá sögulegum tíma. Bein úr þremur slíkum voru undir í rannsókninni, í Breiðuvík og Kollsvík í Vesturbyggð og Siglunesi við Eyjafjörð. „Verstöðin í Breiðuvík í Vesturbyggð er einstök en þaðan voru stundaðar þorskveiðar meira eða minna óslitið frá því fyrir 1000 og fram á upphaf 20. aldar. Aðferðin við veiðarnar og vinnslu fisksins breyttist ótrúlega lítið í gegnum aldirnar en um miðja 19. öld umbreytist öll útgerð á landinu, fyrst með þilskipum og síðar með tilkomu togaranna,“ segir Ragnar.

Ólík viðbrögð fiskistofna við auknum veiðum

„Það sem sló okkur þó strax var hvað fæðuvist þorsksins virðist stöðug yfir gífurlega langt tímabil, mörg hundruð ár. Þetta metum við út frá því hvað gildi niturs breytast lítið yfir aldirnar. Gildi kolefnis hjá þorski eru mun breytilegri og eru bæði lægri og dreifðari á kaldari tímabilum. Dreifðari gildi kolefnis eru líklega merki um að aflinn hafi komið víðar að. Ef við setjum þessar niðurstöður í samhengi við lífsögu þorsksins má leiða líkur að því að dreifðari kolefnisgildi endurspegli fæðugöngur þorsks og að þessar fæðugöngur hafi gert honum kleift að bregðast við og halda sinni stöðu í fæðukeðjunni,“ segir Guðbjörg Ásta um niðurstöðurnar.

Hins vegar verða breytingar við lok 19. aldar þegar Íslendingar hófu að veiða fisk í meira mæli en áður samhliða bættum skipakosti. Samanburður á þorski, ýsu og steinbít eftir þann tíma leiðir áhugaverð mynstur í ljós. „Við lok 19. aldar lækka gildi niturs hjá bæði þorski og ýsu en þau hækka frekar hjá steinbít. Þetta er í samræmi við það sem er vænst við þá umfangsmiklu aukningu á veiðiálagi sem verður með aukinni togaraútgerð á þessum tíma. Bæði er líklegt að meðalstærð fiska í veiðistofnum minnki, sem getur endurspeglast í stöðu í fæðukeðjunni, en þá er líka líklegt að fiskveiðar fjarlægi eitthvað af ákjósanlegustu fæðu þorsk úr vistkerfinu með sömu afleiðingum. Tegundir sem reiddu sig lítið á fiskiát gætu þvert á móti haft hag af minnkaðri samkeppni við stóra afræningja og staða þeirra í keðjunni hækkað. Þetta skýrir mögulega það mynstur sem við sjáum hjá steinbít,“ segir Guðbjörg Ásta.

Afar gott dæmi um þverfræðilegt samstarf 

Ljóst má vera að þverfræðilegar rannsóknir sem þessar skipta miklu máli enda snerta þær bæði afkomu mikilvægra fiskistofna við Íslandsstrendur og áhrif umhverfisbreytinga á lífríkið í hafinu. „Okkur finnst þessi rannsókn bæði mikilvæg út frá líffræðilegum og fornleifafræðilegum forsendum. Niðurstöðurnar vekja athygli á mikilvægi þess að viðhalda fargerðum þorsks við Ísland sem er auðvitað gífurlega mikilvægt með tilliti til fiskveiðistjórnunar. Þá sýnir þetta verkefni vel möguleikana sem felast í fornleifafræðilegum efnivið fyrir umhverfisrannsóknir og þar með mikilvægi þess að vernda fornar verstöðvar þar sem þær finnast,“ segir Ragnar. 

Guðbjörg Ásta bætir við að fyrir okkur Íslendinga hafi öll þekking á þorskinum, þessum mikla nytjastofni, gífurlega þýðingu. „Það er ekki síst ánægjulegt að sjá hvernig þverfræðilegt verkefni sem byggist á þorskveiðisögu Íslendinga og þróun verstöðva á Íslandi getur skapað þekkingu á sjávar- og fiskavistfræði sem hefur alþjóðlega þýðingu,“ segir hún en þess má geta að þessar rannsóknir ríma einkar vel við nýja stefnu Háskóla Íslands, HÍ26, sem setur m.a. þverfræðilegt samstarf og alþjóðleg áhrif í öndvegi.

Greinin í Scientific Reports er hluti af stærra rannsóknarverkefni þeirra Guðbjargar Ástu, Ragnars og samstarfsfélaga og von er á frekari niðurstöðum á næstu misserum. „Það hafa margir falast eftir samstarfi um þessar rannsóknir enda efniviðurinn merkilegur og við höfum alltaf tekið vel í slíkt. Þannig heldur þetta vonandi áfram að þróast á næstu árum. Sjálf erum við komin á aðeins aðrar slóðir með okkar rannsóknir, hvort á sinn hátt, og munum líklega eyða meiri tíma úti á sjó og ofan í sjó á næstu árum heldur en grafandi upp gömul bein,“ segir Ragnar að endingu en þau skötuhjú hafa m.a. einnig rannsakað áhrif hlýnunar loftslags á atferli þorskseiða og hvalstöðvar Norðmanna á Vestfjörðum.

Greinina í Scientific Reports má finna á vef tímaritsins.

Ragnar Edvardsson og Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir