Skip to main content
13. janúar 2018

Þörf á rannsóknum á áhrifum sauðfjárbeitar

Sauðfjárbeit hér  á landi hefur áhrif á uppbyggingu plöntusamfélaga og vísbendingar eru um að hún auki jafnframt rof í gróðurþekju í úthaga og afrétti. Þetta sýnir samantekt hóps vísindamanna á öllum rannsóknum sem gerðar hafa verið hér á landi á áhrifum sauðfjárbeitar á íslenskt vistkerfi. Aðstandendur rannsóknarinnar undirstrika jafnframt að mikil þörf sé á ítarlegri rannsóknum á þessu sviði til þess að geta tryggt sjálfbæra landnýtingu.

Sauðfjárbeit og áhrif hennar á vistkerfi landsins hefur lengi verið þrætuepli hér á landi – en hver er í raun vísindaleg þekking okkar á þessu málefni? Hópur vísindamanna við Háskóla Íslands, Landgræðslu ríkisins, Landbúnaðarháskóla Íslands og Landgræðsluskóla Sameinuðu þjóðanna reyndi að svara þessu og má finna afrakstur þeirrar vinnu í nýútkominni grein í vísindatímaritinu Icelandic Agricultural Sciences. Greinin byggist á samantekt á niðurstöðum sextán rannsókna sem unnar hafa verið hér á landi en alls skoðaði hópurinn 374 heimildir af ýmsum gerðum við vinnslu greinarinnar. 

„Sauðfjárbeit er skiljanlega mikið í umræðunni á Íslandi,“ segir Bryndís Marteinsdóttir, fyrsti höfundur greinarinnar og verkefnastjóri yfir GróLind, verkefni sem ætlað er að meta ástand og vakta gróður- og jarðvegsauðlind Íslands. „Það er áhugavert að sjá hversu lítið umræðan hefur breyst í gegnum árin, það er margt líkt með blaðagreinum sem skrifaðar voru um 1970 og greinum sem ég les í dag. Einnig kom það mér mjög á óvart hversu lítið er til af vísindalegum gögnum um þau áhrif sem beitin hefur á vistkerfi landsins.“

„Flest skjölin voru á íslensku sem þýðir að sú þekking sem þó er til staðar er ekki aðgengileg hinum alþjóðlega vísindaheimi. Þessi vinna er nefnilega ekki eingöngu mikilvæg fyrir umræðuna innanlands heldur einnig fyrir vísindaheiminn almennt,“ segir Isabel Barrio, sérfræðingur við Háskóla Íslands og meðhöfundur greinarinnar, um þýðingu samantektarinnar.

Samantektin sýnir að almennt hefur sauðfjárbeit áhrif á uppbyggingu plöntusamfélaga. „Við vissum að sauðfjárbeit hefur áhrif á gróður, bæði á Íslandi og annars staðar í heiminum, en það sem rannsóknin undirstrikar helst er hvar okkur skortir þekkingu á þessu sviði. Við þurfum t.d. að gera fleiri rannsóknir þar sem borin eru saman áhrif sauðfjárbeitar á mismunandi landsvæðum og innan og utan eldvirka beltisins,“ bætir Isabel við. 

Að auki sýndi rannsókn vísindahópsins að sauðfjárbeit eykur rof í gróðurþekjunni. Úthaginn og afrétturinn verður þar af leiðandi viðkvæmari fyrir jarðvegsrofi. „Þrátt fyrir að rannsóknirnar séu of fáar til að draga megi almennar ályktanir sjáum við ákveðnar vísbendingar í gögnunum,“ segir Ingibjörg Svala Jónsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands. „Við þurfum að auka rannsóknir á þeim áhrifum sem sauðfjárbeit hefur á landið og hvernig þessi áhrif eru háð umhverfisaðstæðum á hverjum stað. Sum svæði eru viðkvæmari en önnur. Aðlaga þarf beit að aðstæðum á hverju svæði fyrir sig svo tryggja megi sjálfbæra landnýtingu.“

Greinin: Marteinsdóttir, B., Barrio, I.C., Jonsdóttir, I.S. (2017) Assessing the ecological impacts of extensive sheep grazing in Iceland. Icelandic Agricultural Sciences 30:55-72

kindur á beit
Bryndís Marteinsdóttir, Ingibjörg Svala Jónsdóttir og Isabel Barrio