Þörf á auknum forvörnum gegn kynferðislegri og kynbundinni áreitni | Háskóli Íslands Skip to main content
25. september 2019

Þörf á auknum forvörnum gegn kynferðislegri og kynbundinni áreitni

Um fjórðungur kvenna hefur orðið fyrir kynferðislegri áreitni á vinnuferlinum og um sjö prósent karla samkvæmt niðurstöðum fyrstu rannsóknarinnar sem gerð hefur verið á umfangi eineltis og kynferðislegrar og kynbundinnar áreitni á Íslandi sem nær til vinnumarkaðarins í heild sinni. Rannsóknina vann Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands fyrir nefnd félags- og barnamálaráðherra sem starfaði undir forystu Ástu Snorradóttur, lektors í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands. Ásta kynnti niðurstöðurnar á nýafstaðinni alþjóðlegri ráðstefnu hér á landi um áhrif #MeToo-hreyfingarinnar og segir þörf á að auka forvarnir og viðbrögð fyrirtækja og stofnana í málaflokknum.

Nú í haust eru tvö ár liðin frá því að #MeToo-bylgjan reið yfir samfélagsmiðla en þar greindu konur í ýmsum starfsstéttum og þjóðfélagshópum frá kynferðislegu ofbeldi og kynbundinni og kynferðislegri áreitni sem þær höfðu orðið fyrir. Íslensk stjórnvöld efndu af því tilefni til ráðstefnu um áhrif #MeToo-bylgjunnar í Hörpu dagana 17.-19. september en hún var liður í formennsku Íslands innan Norrænu ráðherranefndarinnar. Ráðstefnan var skipulögð í samstarfi við RIKK – rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands og á henni flutti á annað tug fræðimanna og doktornsema við Háskóla Íslands erindi sem tengdust #MeToo. 

Þeirra á meðal var Ásta Snorradóttir, lektor við Félagsráðgjafardeild, en hún var formaður nefndar sem félags- og barnamálaráðherra skipaði í febrúar í fyrra og hafði það hlutverk að meta umfang kynferðislegrar áreitni, kynbundinnar áreitni eða ofbeldis auk eineltis á íslenskum vinnumarkaði og kanna aðgerðir vinnuveitenda í tengslum við slík mál. Kveikjan að skipan nefndarinnar var einmitt sú vitundarvakning sem varð í samfélaginu í kjölfar #MeToo. „Ástæðan fyrir því að leitað var til mín um aðkomu að nefndinni var sú að ég vann áður hjá Vinnueftirlitinu að þessum málum og hef einnig rannsakað einelti og skoðað þær kvartanir sem hafa komið inn á borð Vinnueftirlitsins. Þetta er því málefni sem ég hef lengi haft á mínum borðum,“ segir Ásta. 

Erlendir ríkisborgarar ólíklegri til að greina frá kynferðislegri áreitni

Auk hennar voru áttu fulltrúar vinnumarkaðarins, Vinnueftirlitsins og Jafnréttisstofu sæti í nefndinni en henni var sem fyrr segir falið að kortleggja umfang eineltis, ofbeldis og kynferðislegrar og kynbundinnar áreitni áreitni á vinnustöðum á Íslandi, bæði út frá sjónarhóli þolenda, vitna og gerenda. „Það var mikil samstaða um það í nefndinni að vinna skýrslu sem næði til allra hópa samfélagsins og þetta er í fyrsta sinn sem gerð er athugun á þessum þáttum í vinnuumhverfinu meðal þjóðarinnar í heild,“ segir Ásta. Úr varð að leitað var til Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands sem safnaði upplýsingum um einelti, kynferðislega áreitni og kynbundna áreitni á íslenskum vinnumarkaði með þrennum hætti: með 5.500 manna tilviljunarúrtaki fólks á aldrinum 18-68 ára, með sérstöku 3.000 manna tilviljunarúrtaki meðal erlendra ríkisborgara úr þjóðskrá og með nærri 550 fyrirtækja tilviljunarúrtaki.

Ásta kynnti niðurstöður þess hluta rannsóknarinnar sem snýr að kynferðislegri áreitni á #MeToo-ráðstefnunni í Hörpu og vöktu þær mikla athygli. Þær leiddu m.a. í ljós að um 16 prósent þátttakenda í rannsókninni höfðu orðið fyrir kynferðislegri áreitni einhvern tíma á vinnuferlinum; 25 prósent kvenna og 7 prósent karla. Fatlaðir þátttakendur og þátttakendur með skerta starfsgetu reyndust enn fremur líklegri til að hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni á vinnustað og fólk með erlent ríkisfang reyndist síður líklegt til að greina frá kynferðislegri áreitni en aðrir, eða 6 prósent á móti 17 prósentum íslenskra ríkisborgara. 

Ásta bendir þó á að þetta segi ekki alla söguna. Í rannsókninni hafi þessir þættir verið mældir með bæði beinni og óbeinni mælingu. Í beinni mælingu eru eru þátttakendur beðnir um að lesa skilgreiningu á einelti eða kynferðislegri eða kynbundinni áreitni og meta út frá henni  hvort þeir hafi orðið fyrir einhverju þessara á vinnustað. Í hinni óbeinu er var hins vegar spurt beint um atriði eins og hvort fólk hefði einhvern tíma verið snert á óviðeigandi hátt, óviðeigandi og kynferðislegir brandarar sagðir við það eða höfð uppi móðgandi ummæli um vaxtarlag eða einkalíf. „Þegar horft var til síðustu sex mánaða samkvæmt beinu mælingunni sögðust einungis um 1% fólks sem hafa erlent ríkisfang hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni en samkvæmt þeirri óbeinu höfðu tæp 16% sama hóps upplifað það og eru þannig á pari við íslenska ríksiborgara. Þessi mikli munur í mælingum kom mér á óvart,“ segir Ásta enn fremur. 

Niðurstöðurnar sýndu enn fremur að þegar horft er til óbeinnar mælingar á kynferðislegri áreitni meðal starfsstétta reynist þjónustu- og verslunarfólk líklegast til að hafa orðið fyrir slíkri áreitni en þar á eftir koma bæði sérfræðingar og ósérhæft fólk í umönnunarstörfum.

Ásta Snorradóttir, lektor í félagsráðgjöf, var meðal þeirra starfsmanna Háskóla Íslands sem tóku þátt í ráðstefnu stjórnvalda og RIKK – rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands sem haldin var í tilefni þess að tvö ár eru í haust frá upphafi #MeToo-bylgjunnar.

Fyrirtæki geti bætt viðbrögð og forvarnir töluvert

Niðurstöður meðal fyrirtækja sýndu meðal annars að 41% stjórnenda sögðu að unnið væri eftir jafnréttisáætlun á þeirra vinnustað og þá töldu þrír af hverjum stjórnendum starfsfólk á vinnustað sínum frekar eða mjög vel upplýst um hvernig hægt væri að stuðla að góðum samskiptum til að koma í veg fyrir einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni eða ofbeldi. Enn fremur sagði rúmur þriðjungur viðbragðsáætlun hafa verið útbúna til að bregðast við því ef upp kæmu kvartanir vegna eineltis, kynferðislegrar áreitni, kynbundinnar áreitni eða ofbeldi.

Ásta bendir á að þetta sýni að bæði fyrirtæki og stofnanir geti bætt sig töluvert í þessum málum. „Það virðist ekki vera nægilega útbreitt að vinna að forvörnum og viðbrögðum við einelti og kynferðilegri og kynbundinni áreitni á vinnustöðum og það vantar oft þekkingu til að takast á við þetta. Þarna vaknar sama spurningin og í annars konar ofbeldi: á að fara í einstaklingana eða kerfið? Allar rannsóknir sýna að það nægir ekki að einblína á einstaklingana, geranda og þolanda, heldur þarf að taka kerfið innan vinnustaðarins til skoðunar. Þegar vinnustaðurinn er góður og stjórnendur vinna skipulega að vellíðan starfsfólks á vinnustaðnum þá eru miklu minni líkur á einelti og áreitni. Þar skiptir til dæmis máli að álag sé hæfilegt, stuðlað sé að góðum samskiptum milli alls starfsfólks, starfsfólk hafi góðan aðgang að stuðningi og greinargóðum upplýsingum sem varðar starfið þeirra og ekki síst að starfsfólk upplifi að það geti leitað til og treyst stjórnendum ef að vandamál koma upp,“ segir hún.

Mikilvægt að vinna með stjórnvöldum í stefnumótun

Aukin áhersla hefur verið lögð á það innan háskólasamfélagsins að rannsóknir nýtist samfélaginu og að vísindamenn nýti sérþekkingu sína til að styðja stjórnvöld í stefnumótun. Ásta segir aðspurð að vinna með stjórnvöldum skipti að hennar mati mjög miklu máli. „Ég hef ánægju af því að vinna rannsóknir sem gagnast samfélaginu og fannst þetta mjög góð nálgun á þetta viðfangsefni því ég þekki það mjög vel. Ég held að stjórnvöld hafi mjög gott af því að fara þessa leið því þarna verður til mjög gott gagnasafn sem við getum unnið áfram með í Háskólanum og farið dýpra í og skapað þannig þekkingu á þessum málaflokki. Háskólasamfélagið getur líka þannig hjálpað samfélaginu að skilja þetta viðfangsefni betur,“ segir Ásta enn fremur.

Stjórnvöld hafa þegar brugðist við niðurstöðum rannsóknarinnar og skipað sérstakan aðgerðahóp til að vinna gegn kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni eða ofbeldi auk eineltis á vinnustöðum. Hópurinn mun meðal annars taka mið af niðurstöðum skýrslu Félagsvísindastofnunar en áhugasöm geta nálgast hana á vef stjórnarráðsins.

Ásta Snorradóttir