Þögult samþykki um mengun | Háskóli Íslands Skip to main content
27. ágúst 2019

Þögult samþykki um mengun

Fjallað er um mengun af völdum flugelda á Íslandi og viðbrögð hagsmunaaðila við henni í vísindagrein eftir Hrund Ólöfu Andradóttur, prófessor við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild, og Þröst Þorsteinsson, prófessor í umhverfis- og auðlindafræði, sem birtist í vísindaritinu Journal of Cleaner Production um miðjan mánuðinn.

Greinin er aðgengileg í tvær vikur á vefnum

Endurtekin fordæmalaus mengun
Svifryksmengun af völdum flugelda í Reykjavík er fordæmalaus því hún er hærri en allir aðrir mengunartoppar í borginni. Styrkur svifryks fyrstu stundir nýársdags mælist að meðaltali annað hvert ár svo hár að hann flokkast sem hættulegur og samkvæmt viðmiðum ætti fólk að forðast útiveru. Fjórum mánuðum eftir að Evrópumet í fínu svifryki féll á nýársnótt 2018 í Dalsmára í Kópavogi höfðu hagsmunaaðilar lítið fjallað um mengunina. Flestir viðmælendur töldu sig hafa litla aðkomu að því að stýra flugeldum þar sem regluverk landsins heimilar almenningi að kaupa flugelda. Viðmælendum höfðu borist fáar kvartanir vegna flugeldamengunar. 

„Túlka má niðurstöður rannsóknarinnar þannig að það ríki þögult samþykki um „mengunardaginn mikla“ þar sem engin takmörk eru á hversu mikið er mengað inni í íbúðarhverfum,“ segir Hrund. „Þessi mótsögn við grunnhugmyndafræðina um að íbúahverfi eigi að vera griðastaðir fyrir mengun vekur furðu og áhyggjur,“ bætir Þröstur við. „Ef það er í lagi að minnihluti þjóðar, sem hlýtur ánægju af því að skjóta upp flugeldum, mengi fordæmalaust sitt eigið nærumhverfi og nágranna sinna, er þá líka í lagi að sértæk atvinnustarfsemi framkalli mengun á þeirri stærðargráðu að það sjáist varla á milli húsa einn dag á ári?“

Frekara samstarf
Hrund og Þröstur segjast fyrst og fremst vonast eftir því að greinin leiði til þess að löggjafarvald og samfélög um heim allan velti fyrir sér hvernig á því standi að viðburðir sem menga jafn mikið og raun ber vitni fái að endurtaka sig ár eftir ár án þess að nokkuð sé að gert. 

Þau hafa deilt greininni meðal þátttekanda í rannsókninni hér á landi, Umhverfisstofnun Evrópu og alþjóðlegra samstarfsfélaga við jákvæðar undirtektir. „Við höfum stofnað til samstarfs við Rögnu Benediktu Garðarsdóttur, dósents í umhverfissálfræði við Háskóla Íslands, um neysluvenjur á flugeldum sem við stefnum á að kynna í Þjóðarsspeglinum, ráðstefnu félagsvísindasviðs Háskóla Íslands, í nóvember. Þá höfum við jafnframt áhuga að rannsaka frekar hvaða aðgerðir séu mögulegar til að draga úr flugeldamengun.“ 

Tímaritið Journal of Cleaner Production leggur áherslu á sjálfbærni og neyslu, og hefur m.a. birt grein um áhrif menningar á loftmengun í tengslum við flugeldanotkun Kínverja. „Það hefur mikla þýðingu að birta niðurstöður rannsókna í ritrýndu alþjóðlegu tímariti með háan áhrifastuðul,“ segir Hrund. „Tímaritið Journal of Cleaner Production leggur áherslu á að draga úr úrgangi og auka skilvirkni á sviðum umhverfismála og sjálfbærni meðal fyrirtækja, samfélaga og stjórnsýslu. Við völdum tímaritið því það hefur birt mikið um sjálfbæra neyslu þar sem grunnrót vandans um mengun af völdum flugelda er óhófleg neysla á þeim.“ 

Hrund Ólöf Andradóttir