Þekktur manga-teiknari tekur þátt í Japanshátíð | Háskóli Íslands Skip to main content

Þekktur manga-teiknari tekur þátt í Japanshátíð

24. janúar 2019

Japanski manga-teiknarinn Chie Kutsuwada kemur hingað til lands til að taka þátt í Japanshátíð Háskóla Íslands í Veröld næstkomandi laugardag. Gestir hátíðarinnar geta fylgst með Chie teikna manga-myndir í fyrirlestrasal Veraldar kl. 13 og auk þess mun hún veita áhugasömum leiðsögn um þetta listform. Chie hefur gefið út fjölda manga-bóka sem hafa verið þýddar á nokkur tungumál. Þá hefur hún kennt þetta listform við listaskóla og listaöfn víða um heim og unnið að verkefnum fyrir CNN og Channel 4 í Bretlandi. (Hér má skoða myndir Chie Kutsuwada á Instagram).

Manga eru japanskar teiknimyndasögur. Fram kemur á Vísindavef Háskóla Íslands að manga hafi orðið til skömmu eftir lok seinni heimsstyrjaldar þegar japönsk stjórnvöld afléttu banni á allri útgáfustarfsemi sem ekki var áróðurstengd. Stíllinn er blanda af sígildum japönskum teiknistíl og vestrænum stíl, en gjarnan er áhersla lögð á ýkt svipbrigði og andlitsdrætti. Mikil menning hefur sprottið upp í kringum sögurnar í Japan sem síðan hefur dreifst út um nær alla heimsbyggðina.

Á Japanshátíðinni verður hægt að upplifa ótalmargt sem á sér rætur í japanskri menningu. Má þar nefna sushigerð, japanska bardagalist (Aikido og Jiu-jitsu), skrautskrift, origami, hefðbundna japanska búning og allt um ferðalög til Japans. Þeir sem hafa áhuga á cosplay eru hvattir til að mæta í búningum, en veitt verða verðlaun fyrir besta búninginn. Hátíðin er haldin af kennurum og nemendum í japönsku við Háskóla Íslands, í samstarfi við sendiráð Japans á Íslandi. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir!

Japanshátíð á Facebook

Hér má nálgast dagskrá hátíðarinnar og kort af Veröld.

Heimasíða Chie Kutsuwada.