Skip to main content
12. september 2019

Þarf að horfa á aðra vísa en hagvöxt fyrir árangur þjóða

„Á bak við hagvöxt er nýting auðlinda og auðlindir eru nú að þverra því jörðin er takmörkuð. Til að vinna auðlindir þarf orku og orkan er að mestu jarðefnaeldsneyti sem veldur loftslagsbreytingum. Það má því segja að vinnsla auðlinda, framleiðsla og neysla séu orsakasamhengi hamfarahlýnunar. Því þarf að horfa á aðrar breytur en hagvöxt til að mæla árangur þjóða.“ 

Þetta segir Kristín Vala Ragnarsdóttir, prófessor við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands og ein þeirra sem mun taka til máls á alþjóðlegri ráðstefnu um uppbyggingu svokallaðra velsældarhagkerfa í Hátíðasal Háskóla Íslands mánudaginn 16. september kl. 8.30-12. Að ráðstefnunni stendur forsætisráðuneytið í samstarfi við fjármála- og efnahagsráðuneytið, alþjóðasamtökin Wellbeeing Economy Goverments og Efnahags- og framfarastofnunin (OECD). Aðgangur að henni ókeypis.

Velsældarhagkerfi er í gruninn hagkerfi þar sem horft er til fleiri vísa eða mælikvarða en hagvaxtar og þjóðarframleiðslu, t.d. lífsgæða íbúa, jöfnuðar og sjálfbærrar uppbyggingar samfélaga.

Kristín Vala, sem er menntuð í jarðefnafræði, hefur frá aldamótum sinnt rannsóknum tengdum sjálfbærni og meðal annar stýrt stórum alþjóðlegum og þverfaglegum rannsóknaverkefnum sem snúa að jarðvegi,  sjálfbærum samfélögum og nýrri haghugsun. Áhuga Kristínar Völu á velsældarhagkerfum má rekja aftur til ársins 2012 þegar forsætisráðherra ríksisins Bútans bauð henni á þing Sameinuðu þjóðanna í New York til þess að vinna að nýrri framfarahugsun í aðdraganda heimsmarkmiða samtakanna. „Árið eftir var mér svo boðið ásamt 70 öðrum  til Bútans til þess að þróa hugmyndina áfram. Við höfum skrifað nokkrar fræðigreinar saman um að hagkerfið verði að vera innan marka jarðarinnar til að ná heimsmarkmiðunum og tryggja hag komandi kynslóða. Fyrst kölluðum við þessa hugsun sjálfbæra vellíðan eða sæld (e. sustainable wellbeing) en síðan sjálfbær velsældarhagkerfi (e. sustainable wellbeing economy),“ segir Kristín Vala.

Samstarf um velsældarhagkerfi þvert yfir hnöttinn

Hluti hópsins sem hittist í Bútan stofnaði samtökin Alliance for Sustainability and Prosperity sem síðar sameinuðust Leading for Wellbeing og úr urðu samtökin Wellbeing Economy Alliance - skammstafað WEAll – en Kristín Vala situr í stjórn og er sendiherra á þeirra vegum. Hún segir enn fremur að innan WEAall vinni margir hópar að þróun nýrrar hugsunar fyrir þjóðir. Þeirra á meðal sé  Wellbeing Economy Governments – WEGo  sem Ísland á aðild að ásamt Skotlandi og Nýja-Sjálandi.

WEGo var formlega stofnað á fundi OECD í Suður-Kóreu í nóvember í fyrra en um er að ræða nokkurs konar netverk ríkisstjórna sem ætlað er að stuðla að miðlun þekkingar og stefnumótunarhugmynda, sem snerta hugmyndafræði velsældarhagkerfa, milli landa og færa þau nær Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Um leið er tekist á við helstu efnahagslegu, félagslegu og umhverfislegu áskoranir samtímans.

Kristín Vala segist hafa vakið athygli Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra á WEGo en Katrín var meðal ræðumanna á fundi samtakanna í Skotlandi í vor. „OECD hefur einnig tekið þátt í umræðum WEGo og fleiri lönd hafa setið fundi samtakanna, t.d. Svíþjóð, Slóvenía og Kostaríka en þau eru ekki enn orðin opinberir félagar,“ segir Kristín Vala. Aðspurð segir að það skipti miklu máli að Ísland sé orðið aðili að WEGo. „Ísland er hér komið í  forystusæti um að snúa við þeirri eyðileggingu sem hagvöxtur hefur á umhverfi og náttúru.“

Til marks um vaxandi áhuga á þessari hugmyndafræði bendir Kristín Vala á að Skotlandsmálráðherra Bretlands, Nichola Sturgeon, hafi flutt TED-fyrirlestur í júlí síðastliðnum um velsældarhagkerfi og nú þegar hafi yfir 1,3 milljónir manna horft á hann á netinu.

„Á bak við hagvöxt er nýting auðlinda og auðlindir eru nú að þverra því jörðin er takmörkuð. Til að vinna auðlindir þarf orku og orkan er að mestu jarðefnaeldsneyti sem veldur loftslagsbreytingum. Það má því segja að vinnsla auðlinda, framleiðsla og neysla séu orsakasamhengi hamfarahlýnunar. Því þarf að horfa á aðrar breytur en hagvöxt til að mæla árangur þjóða,“ segir Kristín Vala Ragnarsdóttir. MYND/Kristinn Ingvarsson 

30 vísar til að mæla velsæld

Kristín Vala hefur undanfarið ár átt sæti í nefnd forsætisráðherra um þróun mælikvarða um hagsæld og lífsgæði hér á landi. Aðspurð segir hún að nefndin hafi lagt fram yfir 30 vísa til þess að mæla velsæld og að forsætisráðherra muni kynna tillögurnar á ráðstefnunni í Háskóla Íslands á mánudag. „Með því að hætta að einblína á hagvöxt sem árangur þjóða má setja stefnuna á að fylgja vísum sem varða náttúru og umhverfisvernd, hagkerfið og samfélagið allt,“ segir Kristín Vala um möguleika Íslands til að færast í átt til velsældarhagkerfis.

Auk þeirra Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra og Kristínar Völu munu Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra, Derek Mackay, fjármála- og efnahagsráðherra Skotlands, og  Angel Gurría, framkvæmdastjóri OECD, taka til máls á ráðstefnunni en jafnframt verður efnt til pallborðsumræðna undir stjórn dr. Gary Gillespie, efnahagsráðgjafa skosku heimastjórnarinnar. Fundarstjóri verður Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari. 

Kristín Vala Ragnarsdóttir