Skip to main content
13. ágúst 2018

Tengsl manns og náttúru í háskerpu

„Áherslur Rannsóknaseturs Háskólans á Austurlandi munu snúa að rannsóknum frá ýmsum hliðum á tengslum samfélags og náttúru hér enda mótast mannlíf, atvinnu- og efnahagslíf og auðlindanýting í fjórðungnum mjög af sambúð manns og náttúru.“ Þetta segir Unnur Birna Karlsdóttir, nýr forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Austurlandi, en með ráðningu hennar er stigið afar mikilvægt skref í þróun starfsemi rannsóknasetra Háskóla Íslands um land allt. 

Unnur Birna lauk doktorsprófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 2010 en áður hafði hún lokið MA- og BA-prófi í sagnfræði og námi í kennslu- og uppeldisfræði frá Háskóla Íslands. Samband manns og náttúru er eitt helsta hugðarefni Unnar Birnu enda fjallaði hún sérstaklega um þetta flókna samband í doktorsritgerðinni sinni sem hét því skemmtilega nafni „Þar sem fossarnir falla. Náttúrusýn og nýting fallvatna á Íslandi 1900 – 2008“. Í ritgerðinni fjallaði Unnur Birna um tengsl manns og náttúru út frá sjónarhóli og aðferðafræði umhverfissagnfræði sem er vaxandi svið innan þessarar gömlu fræðigreinar.

Aðspurð um markmið með rekstri setursins segir Unnur Birna að megináherslan sé líkt og hjá öðrum setrum Háskóla Íslands að stuðla að rannsóknum, menntun og leiðbeiningu framhaldsnema og vera vettvangur samstarfsverkefna Háskóla Íslands við nærsamfélögin. „Þannig viljum við efla tengsl Háskóla Íslands við atvinnu- og þjóðlíf í öllum landsfjórðungum og vera vettvangur fyrir samstarfsverkefni með sveitarfélögum, stofnunum, fyrirtækjum, félagasamtökum og einstaklingum á landinu öllu.“

Unnur Birna hefur haft mörg járn í eldinum síðustu misserin en undanfarið hefur hún unnið að rannsókn á viðhorfum Íslendinga til hreindýra og hvernig þau viðhorf hafa mótað afdrif dýranna hér á landi. Hreindýr hafa verið á Íslandi frá því á síðari hluta 18. aldar og haft veruleg áhrif á menningu og mannlíf á Austurlandi. „Væntanleg er viðamikil og myndskreytt ritrýnd bók um efnið sem gefin verður út í samvinnu við Sögufélag,“ segir Unnur Birna.  

Hálendið og viðhorfin til þess
Setrið fyrir austan hefur sett sér rannsóknaáætlun til næstu fimm ára og segir Unnur Birna að allmörg verkefni séu nú þegar komin á vinnslustig.  Eitt af þessum verkefnum er rannsókn á tengslum samfélags og hálendis á Austurlandi. 

„Viðhorf Íslendinga til miðhálendisins hafa verið í brennidepli á síðustu árum og áratugum, ekki hvað síst í tengslum við virkjanaáform og hugmyndir um þjóðgarð á hálendinu og í sambandi við vaxandi hálendisferðamennsku,“ segir Unnur Birna. „Í rannsókninni verður leitað að rótum viðhorfa samtímans til hálendisins og hvernig þau hafa birst og mótast í íslenskri náttúrusýn í gegnum tíðina.“

Unnur Birna segir að markmið þessarar rannsóknar sé að varpa ljósi á viðhorf til öræfa Austurlands og á það hvort og hvernig hugmyndir um þau hafi þróast í tímans rás. Jafnframt er sjónum beint að því hvernig þessi viðhorf hafi markað hugarfar, ferðir og umsvif mannsins á hálendinu og hvaða togstreitu og árekstra þessi viðhorf hafi skapað með tilliti til miðhálendisins sem auðlindar í ýmsum skilningi. „Ætlunin er einnig að draga fram hvort og hvaða tækifæri liggja fyrir samfélagið á Austurlandi í hálendi Austurlands sem rými til að nýta og njóta í samræmi við tíðaranda og mögulegar nýjar áherslur í nýtingu og vernd öræfa hér á landi.“

Unnur Birna segir að fyrsti áfangi verkefnisins fjalli um hálendisleiðangra og viðhorf til hálendisins norðan Vatnajökuls á 18. og 19. öld. Annar áfangi fjalli um land- og orkunytjar annars vegar og útivistarmenningu hins vegar á öræfum Austurlands.  „Í því sambandi greinum við viðhorf til hálendisins norðan Vatnajökuls á 20. öld og það sem af er þeirri 21. með áherslu á að sjá þróun og breytingar á sýn á hálendið á tímabilinu.  Við munum fjalla um deilur um svæðið og helstu hugmyndir sem þar réðu ferðinni og síðast en ekki síst leita svara við þeirri spurningu hvaða tækifæri hafa skapast eða kunna að skapast í tengslum við hálendið í næstu framtíð.“ 

„Ætlunin er einnig að draga fram hvort og hvaða tækifæri liggja fyrir samfélagið á Austurlandi í hálendi Austurlands sem rými til að nýta og njóta í samræmi við tíðaranda og mögulegar nýjar áherslur í nýtingu og vernd öræfa hér á landi.“

Ímynd og orðstír Austurlands
Setrið hefur einnig rannsókn á prjónum undir yfirskriftinni Austurland; ímynd og orðstír. – Um markaðssetningu Austurlands fyrir ferðamenn. „Verkefnið felst í að varpa ljósi á hver ímyndin af samfélagi og náttúru Austurlands er og hverju hefur verið haldið á lofti í markaðssetningu Austurlands fyrir erlenda ferðamenn að undanförnu og hvort og hvernig það samræmist viðhorfum og hagsmunum íbúa landshlutans.“

Unnur Birna nefnir einnig rannsókn sem er fram undan sem kallast Austurland: Umbreyting eða kyrrstaða og hvernig passar sjálfbærnihugtakið inn í myndina? „Áhersla rannsóknarinnar beinist að því að skoða sjálfbærnihugtakið í tengslum við þróun atvinnulífs, efnahags, búsetuþróunar og umhverfismála á Austurlandi síðustu tíu ár og verða sjálfbærnihugtakið, umhverfismál og búsetuþróun, staðarímyndir og gerð og fjölbreytni atvinnu- og menningarlífs í brennidepli.“
 
Saga menningarminja á bökkum Jökulsár
Unnur Birna segir að Rannsóknasetur Austurlands muni einnig beita sér fyrir samstarfsverkefnum af ýmsu tagi sem lúta að menningarminjum, samfélagi, náttúru og sögu Austurlands og megi þar nefna verkefni sem nú þegar er verið að leggja drög að og muni taka nokkur ár að fullvinna, nánar tiltekið skráningu og rannsókn á sögu menningarminja á bökkum Jökulsár á Dal. 

„Fyrsta skrefið verður frumskoðun á vettvangi og kynning á verkefninu fyrir íbúum í Jökuldal sem eiga land að Jöklu enda þurfa svona verkefni að vera unnin í góðri samvinnu við landeigendur og aðra hlutaðeigandi. Verkefnið  mun fela í sér skráningu, rannsóknir á vettvangi og heimildarannsóknum og í kjölfarið er stefnt að gerð varðveislustefnu um fornar minjar með fram farvegi Jökulsár á Dal eða Jökulsár á Brú eins og hún er einnig nefnd og oft í daglegu tali aðeins kölluð Jökla.“

Unnur Birna segir markmiðið að rannsaka sögu byggðar og mannlífs með bökkum Jöklu frá elstu mannlífsleifum til þeirra sem enn sjást frá fyrri hluta 20. aldar og hvernig samfélagið hefur mótast af og brugðist við þessum mikla samgöngutálma sem þessi ein öflugasta jökulsá Íslands hefur verið öldum saman, eða þar til hún var brúuð og síðar enn frekar eftir að hún var virkjuð með stíflu og veitt yfir í Fljótsdal með tilkomu Kárahnjúkavirkjunar.

Unnur Birna segir að ætlunin sé að forða fornminjum, sem sé að finna með bökkum Jöklu neðan við Kárahnjúkastíflu og til sjávar, frá eyðingu eða skemmdum af náttúrunnar völdum eða vegna athafna mannsins og um leið að forða þeim frá gleymsku eins og stefnir í að af verði ef ekkert verði gert. 

„Enn eru þessar minjar sýnilegar en það mun ekki vara til langrar framtíðar nema gripið verði til aðgerða. Verkefnið felur í sér nána samvinnu heimamanna og sérfræðinga á sviði fornleifafræði og sagnfræði, þjóðfræði eða skyldra greina. Það felur í sér vettvangsferðir og skráningu fornminja með fram Jöklu, ráðgjöf og aðgerðaáætlun í þágu forvörslu þeirra og hvernig megi miðla fróðleik um þær til heimamanna og ferðamanna og auðvelda aðgengi að þeim þar sem því verður við komið.“

Verkefnið verður unnið í samvinnu við sveitarfélag, landeigendur og Minjastofnun Íslands. „Verkefnið getur haft hagnýta þýðingu á sviði sögutengdar ferðaþjónustu ef ferðaþjónustuaðilar kynnu að hafa áhuga á því og markmiðið er reyndar að hvetja til slíkrar hliðarafurðar af verkefninu en þó með það að markmiði að slíkt gagnist nærsamfélaginu og sé unnið í fullri sátt við það, þ.e. ferðaþjónustu á Jökuldal, á Fljótsdalshéraði og Austurlandi eins og verkast vill.“

Unnur Birna Karlsdóttir
Hálendi Íslands