Skip to main content
3. desember 2018

Tengsl Íslands og Kanada komin til að vera

""

„Ef frá er talið samband Íslands og Danmerkur eru menningartengsl okkar við Kanada djúpstæðari en gengur og gerist við önnur lönd. Um það vitnar til að mynda saga og þróun Háskóla Íslands en hann hefur lengi notið stuðnings Íslendinga og afkomenda þeirra í Kanada. Eins og gefur að skilja eru tengslin breytingum undirorpin og taka lit af tíðaranda hverju sinni. Það breytir því ekki að nú sem fyrr stöndum við frammi fyrir þeirri áskorun að rækta tengslin og áhrif þeirra beggja vegna hafs.“

Þetta segir Birna Bjarnadóttir, verkefnisstjóri við  Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, en hún hefur unnið ötullega að undirbúningi málþings um samband Íslands og Kanada á sviði menningar í sögu og samtíð. Þingið fer fram í Veröld – húsi Vigdísar þann 5. desember nk.

„Samband af þessu tagi felur meðal annars í sér möguleika á rannsóknasamstarfi. Í þeim efnum má benda á samstarfsráðstefnu Manitóbaháskóla og Háskóla Íslands sem komið var á fót árið 1999. Næsta ráðstefna verður haldin hér á landi í ágúst á næsta ári og efnið snýst um brottflutninga í sögu og samtíð. Reyndar má halda því fram að umrætt samband feli um þessar mundir í sér einstakt tækifæri til að íhuga gaumgæfilega reynslu innflytjenda á Íslandi með hliðsjón af reynslu íslenskra innflytjenda í Kanada á sviði bókmennta og menningar.“

Menning innflytjenda í Vesturheimi
Birna þekkir tengsl okkar við svokallaðar Íslendingabyggðir í Kanada betur en flestir en hún þjónaði lengi sem Chair of Icelandic við Íslenskudeild Manitóbaháskóla. „Winnipeg er og verður ein af höfuðborgunum í mínu lífi. Þökk sé starfi mínu við deildina – sem er eina íslenskudeildin okkar í útlöndum – öðlaðist ég einstakt tækifæri til að íhuga rætur og þróun íslenskrar menningar í Vesturheimi. Sem innflytjandi þóttist ég einnig skynja betur örlög þeirra sem finna sig á ókunnugri strönd; reynsla sem skáldin okkar í Vesturheimi tjáðu með ógleymanlegum hætti. Um leið sýnir líf og reynsla Íslendinga í Kanada ríkidæmi innflytjenda á öllum tímum og hvernig þeir frjóvga jarðveg nýja landsins með veru sinni einni saman.“         

Íslensk skáld fundu farveginn í Kanada
Það er einmitt mjög áhugvert við samband okkar við Vesturheim hversu mörg íslensk skáld fundu þar farveg sinn til skáldskapar. Þjóðskáldið Stephan G. Stephansson var í þeim hópi ásamt rithöfundinum Torfhildi Þ. Hólm.  

Birna segir að efni á málþinginu muni einmitt tengjast minningarsjóði Háskóla Íslands í nafni Stephans G. Stephanssonar. Þessum sjóði var komið á fót í tengslum við opnun Alþjóðlegar miðstöðvar tungumála og menningar við Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í apríl 2017. Stephan Vilberg Benediktsson, barnabarn Stephans G., og kona hans Adriana lögðu til stofnfé sjóðsins, en markmið sjóðsins er að efla rannsóknir á bókmenntum og menningu innflytjenda.

Þjóðskáldið Stephan G. Stephansson fæddist 3. október árið 1853 á Kirkjuhóli í Lýtingsstaðahreppi í Skagafirði og var skírður Stefán Guðmundur Guðmundsson. Hartnær tvítugur fluttist hann ásamt foreldrum sínum vestur um haf til að vitja betra lífs í Wisconsin í Bandaríkjunum. Þar vann hann meðal annars við lagningu járnbrautar og í skógarhöggi við erfið kjör. Árið 1889 flutti hann svo til Alberta-fylkis í Kanada við rætur Klettafjalla og gerðist bóndi og höfuðskáld. Stephan G. var bóndi við erfiðar aðstæður í Alberta og hafði lítinn tíma til annars en brauðstrits. Hann orti því öll sín bestu ljóð að næturlagi og er talsverð kaldhæðni í því að ljóðasafn hans nefnist einmitt Andvökur.

Torfhildur Þ. Hólm var fyrsta íslenska konan til að rita skáldsögur en í ár er öld frá því að hún lést. Torfhildur fæddist 2. febrúar 1845 á Kálfafellsstað í Suðursveit og ólst þar upp en hún nam síðar hannyrðir, teikningu og ensku í Reykjavík. Eftir dvöl í Reykjavík sigldi hún til Kaupmannahafnar þar sem hún nam tungumál og hannyrðir. Hún giftist Jakobi Hólm, verslunarstjóra á Hólanesi, við heimkomuna frá Danmörku en hann lést aðeins ári eftir að þau gengu í hjónaband. Torfhildur flutti til Vesturheims 1876 og birtust fyrstu smásögur hennar í Framfara, riti sem þar var gefið út. Árið 1889 flutti Torfhildur aftur heim til Íslands og gerðist afkastamikill rithöfundur og varð fyrsti Íslendingurinn til að hljóta listamannalaun. Hún varð sjálf öflugur útgefandi og gaf út bókmenntatímaritið Draupni á árunum 1891 til 1908 og tímaritið Dvöl á árunum 1901 til 1917. 

Torfhildur lést fyrir réttri öld, í hinni alræmdu spænsku veiki, þann 14. nóvember árið 1918.    

Gætir enn áhrifa fyrstu innflytjendanna?
Þegar hugað er að samskiptum okkar Íslendinga við Kanadamenn þá vaknar spurningin hvort enn gæti ríkra íslenskra áhrifa í byggðum fyrstu Íslendinganna í Kanada? „Þetta er stór spurning,“ svarar Birna,  „og ætli svarið taki ekki mið af sjónarhorni viðkomandi. Kanada er eitt af stærstu löndum veraldar og áhrifin eru mismunandi eftir fylkjum. Tengsl landanna eru líka breytingum undirorpin og taka lit af tíðaranda hverju sinni. Víst er að á málþinginu mun Stefan Jonasson, ritstjóri Lögbergs–Heimskringlu, svara þessari spurningu beint eða óbeint og það fyrir hönd kanadískra þegna af íslenskum ættum.“    

Birna segir að tengsl þjóðanna séu komin til að vera. „Einmitt þess vegna hvílir sú skylda á herðum okkar að efla þau á öllum tímum.“ 

Dagskráin fer fram á ensku

Málþingið verður eins og áður sagði í Veröld – húsi Vigdísar, miðvikudaginn 5. desember milli kl. 15 og 17.  Háskóli Íslands stendur fyrir málþinginu í samstarfi við kanadíska sendiráðið á Íslandi. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, opnar málþingið en Stefan Jonasson, ritstjóri Lögbergs‒Heimskringlu, er heiðursgestur og mun halda erindi um Lögberg‒Heimskringlu, elsta blað þjóðarbrots í Kanada. 

Dagskráin fer fram á ensku og eru allir velkomnir.

Dagskrá/Program:
15:00─15:10 Katrín Jakobsdóttir, Prime Minister: Opening Remarks.
15:10─15:20 Dr. Jón Atli Benediktsson, Rector, University of Iceland: The University of Iceland’s Relations with Canada and the Stephan G. Stephansson Endowment Fund.

15:20─15:30 Dr. Birna Bjarnadóttir, Project Manager, Vigdís Finnbogadóttir Institute:
Icelandic Canadian Research Relations.

15:30─15:40 Hjálmar W. Hannesson, Ambassador: The Icelandic National League in Iceland.  
15:40─16:10 Rev. Stefan Jonasson: Lögberg-Heimskringla. A Mirror of Icelandic Life Among North Americans.

16:10─16:30 Discussions, Chaired by Dr. Birna Arnbjörnsdóttir, Professor and Director of the Vigdís Finnbogadóttir Institute.

16:30‒17:00 Refreshments.

Birna Bjarnadóttir