Skip to main content
12. febrúar 2021

Taktu þátt í Vísinda- og nýsköpunarverðlaunum Háskóla Íslands

Taktu þátt í Vísinda- og nýsköpunarverðlaunum Háskóla Íslands - á vefsíðu Háskóla Íslands

-    Samanlagt verðlaunafé yfir sex milljónir króna
Lumar þú á nýstárlegri hugmynd sem getur fært samfélaginu ávinning eða orðið grundvöllur að nýsköpunarfyrirtæki eða nýjum atvinnutækifærum? Þá hvetjum við þig til að taka þátt í samkeppninni um hin árlegu Vísinda- og nýsköpunarverðlaun Háskóla Íslands. Sigurlaun fyrir fyrsta sætið nema allt að þremur milljónum króna.

Eyðublað fyrir þátttöku 

Samkeppnin hefur verið haldin innan skólans í yfir 20 ár og er opin bæði starfsfólki og stúdentum Háskólans. Fólk af öllum fræðasviðum Háskólans er hvatt til að taka þátt enda hafa verðlaunahafar frá upphafi komið úr afar fjölbreyttum fræðigreinum. 

Leitað er að nýstárlegum hugmyndum sem fela í sér ávinning fyrir samfélag eða atvinnulíf án tillits til þess hvort hún hafi fjárhagslegan hagnað að markmiði. Dómnefnd keppninnar horfir m.a. til nýnæmis og frumleika verkefnanna, útfærslu, samfélagslegra áhrifa, m.a. út frá heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, og hvort verkefnið sé í samræmi við stefnu skólans og styðji við starfsemi hans.

Frestur til að skila inn tillögum í samkeppnina rennur út sunnudaginn 21. mars 2021. Vegna tæknilegra örðugleika hefur frestur verið framlengdur út mánudaginn 22. mars 2021.

Líkt og í fyrra verða veitt verðlaun fyrir bestu hugmyndirnar í fjórum flokkum:

  • Heilsa og heilbrigði – Verðlaunafé 1,5 m.kr.
  • Tækni og framfarir – Verðlaunafé 1,5 m.kr.
  • Samfélag – Verðlaunafé 1,5 m.kr.
  • Hvatningarverðlaun – Verðlaunafé 500 þ.kr.

Sigurvegari samkeppninnar, sem kemur úr hópi verðlaunahafa í flokkunum fjórum, hlýtur til viðbótar 1,5 m.kr. í verðlaunafé.

Frekari upplýsingar um samkeppnina, einstaka flokka og umsóknareyðublað um þátttöku er að finna á vefsíðu Háskóla Íslands.

Vísinda- og nýsköpunarverðlaun Háskóla Íslands eru samstarfsverkefni Háskóla Íslands, Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, Árnason|Faktor, Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Auðnu -tæknitorgs.

Nemendur og kennari sitja við tölvu