Taktu þátt í Vísinda- og nýsköpunarverðlaunum Háskóla Íslands | Háskóli Íslands Skip to main content
25. febrúar 2020

Taktu þátt í Vísinda- og nýsköpunarverðlaunum Háskóla Íslands

Kallað er eftir frumlegum og nýstárlegum hugmyndum sem fela í sér framfaraskref fyrir samfélag eða atvinnulíf í hin árlegu Vísinda- og nýsköpunarverðlaun Háskóla Íslands. Sigurlaun fyrir fyrsta sætið nema allt að þremur milljónum króna.

Samkeppnin, sem hét áður Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands og hefur verið haldin innan skólans í yfir 20 ár, er opin bæði starfsfólki og stúdentum Háskólans. Verðlaunahafar frá upphafi hafa komið af öllum fræðasviðum Háskóla Íslands. 

Leitað er að nýstárlegum hugmyndum sem fela í sér ávinning fyrir samfélag eða atvinnulíf án tillits til þess hvort hún hafi fjárhagslegan hagnað að markmiði. Við mat sitt á verkefnum og hugmyndum horfir dómnefnd keppninnar til nýnæmis og frumleika, útfærslu, samfélagslegra áhrifa, m.a. út frá heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, og hvort verkefnið sé í samræmi við stefnu skólans og styðji við starfsemi hans.

Frestur til að skila inn umsóknum rennur út þriðjudaginn 31. mars 2020. 

Í ár verða veitt verðlaun fyrir bestu hugmyndirnar í fjórum flokkum:

Heilsa og heilbrigði – Verðlaunarfé 1,5 m.kr.
Tækni og framfarir – Verðlaunafé 1,5 m.kr.
Samfélag – Verðlaunafé 1,5 m.kr.
Hvatningarverðlaun – Verðlaunafé 500 þ.kr.

Sigurvegari samkeppninnar, sem kemur úr hópi verðlaunahafa í flokkunum fjórum, hlýtur til viðbótar 1,5 m.kr. í verðlaunafé.

Frekari upplýsingar um samkeppnina, einstaka flokka og umsóknareyðublað um þátttöku er að finna á vefsíðu samkeppninnar

Vísinda- og nýsköpunarverðlaun Háskóla Íslands eru samstarfsverkefni Háskóla Íslands, Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, Árnason|Faktor, Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Auðnu-tæknitorgs.

Aðalbygging