Skip to main content
29. október 2019

Tækjasalur íþróttahúss tekur stakkaskiptum

Jóga

Tækjasalur á annarri hæð íþróttahúss Háskóla Íslands hefur verið stækkaður umtalsvert með breytingum sem gerðar voru á húsnæðinu í sumar. Íþróttahúsið er sem fyrr opið bæði starfsmönnum og stúdentum og þar er bæði hægt að sækja ýmsa íþróttatíma og rækta líkamann upp á eigin spýtur.

Íþróttahús Háskóla Íslands er ein af elstu byggingunum á háskólasvæðinu, teiknuð af Gísla Halldórssyni og Sigvalda Thordarson og tekin í notkun árið 1948. 

Vegna húsnæðiseklu hefur í gegnum tíðina þurft að nýta húsnæðið fyrir aðra starfsemi en íþróttaiðkun. Síðast hafði Sálfræðideild aðsetur á annarri hæð í byggingunni fyrir hluta af starfsemi sinni. Hún hefur nú verið flutt annað og þar með gafst tækifæri til að stækka aðstöðuna á hæðinni til muna fyrir heilsutengda starfsemi. 

Tækjasalur hefur verið stækkaður, ótal ný tæki tekin í gagnið og lyftingaaðstaða er nú tengd við tækjasalinn. Þá er komið upp sérstakt teygju- og slökunarsvæði sem einnig nýtist fyrir léttar æfingar og jóga í vesturhluta hæðarinnar. Innangengt er á milli rýma á hæðinni en alls er það 250 fermetrar að stærð. 

Íþróttahús Háskóla Íslands er sem fyrr segir opið öllum nemendum og starfsfólki gegn mjög vægu gjaldi en árskortið kostar aðeins 10 þúsund krónur. Hópar sem leigja stóra salinn greiða þó sérstaklega fyrir það. MYND/Kristinn Ingvarsson

Auk líkamsræktaraðstöðunnar á annarri hæð er stór íþróttasalur á fyrstu hæð og þar fer fram fjölbreytt kennsla samkvæmt stundaskrá. Einnig er salurinn leigður út fyrir hópíþróttir. 

Íþróttahús Háskóla Íslands er sem fyrr segir opið öllum nemendum og starfsfólki gegn mjög vægu gjaldi en árskortið kostar aðeins 10 þúsund krónur. Hópar sem leigja stóra salinn greiða þó sérstaklega fyrir það. 

Nánari upplýsingar um afgreiðslutíma íþróttahúss

Starfsmönnum og stúdentum býðst einnig fjarþjálfun hjá fyrirtækinu Háfit en að því standa fyrrverandi og núverandi nemendur skólans. Háfit býður upp á æfinga- og næringaráætlanir og einnig er hægt að fá ráðleggingar frá sjúkraþjálfara vegna meiðsla. Áætlanir hefjast í lok hvers mánaðar eins og lesa má um á heimasíðu fjarþjálfunarinnar.

Kona við æfingar í tækjasal