Tækifæri um allan heim á Alþjóðadögum | Háskóli Íslands Skip to main content

Tækifæri um allan heim á Alþjóðadögum

22. október 2018

Boðið verður upp á kynningar á námi og starfsþjálfun erlendis, stefnumót við fyrrum skiptinema, tónlist, dans, bíósýningar og fleira á Alþjóðadögum sem hefjast í dag og standa út vikuna. Markmið Alþjóðadaga er að vekja athygli á alþjóðlegu samstarfi Háskólans og þeim fjölmörgu tækifærum sem standa nemendum og starfsfólki til boða um allan heim. 

Kynningar á skiptinámi, sumarnámi og starfsþjálfun verða í gangi alla vikuna, bæði fyrir einstök fræðasvið eða deildir en einnig kynningar sem verða opnar öllum. Upplýsingastofa um nám erlendis verður með erindi um nám erlendis á eigin vegum og möguleikar á Erasmus+ ferða- og dvalarstyrkjum fyrir starfsfólk verða kynntir. 
Föstudaginn 26. október geta nemendur kynnt sér háskólanám í Svíþjóð en sex sænskir samstarfsskólar HÍ verða með kynningu á Litla torgi frá kl. 12 til 16. Fulltrúar frá Chalmers University of Technology, Göteborgs Universitet, Lunds Universitet, Linné Universitet, Umeå Universitet og Jönköpings Universitet verða á staðnum og sænski tónlistarmaðurinn Kristian Anttila kemur fram.

Alþjóðatorgið
Fimmtudaginn 25. október er svo komið að hápunkti Alþjóðadaga á Háskólatorgi milli kl. 11.30-13.30. Þar gefst nemendum kostur á að kynna sér skiptinám, starfsþjálfun og sumarnám, auk náms á eigin vegum. Fyrrum og núverandi skiptinemar, fulltrúar frá sendiráðum og fjölmörgum íslenskum stofnunum og félögum verða til viðtals á torginu. Svið og deildir háskólans og starfsfólk Skrifstofu alþjóðasamskipta verða einnig á staðnum og veita upplýsingar um námsdvöl erlendis. Starfsfólk háskólans getur kynnt sér möguleika á kennara- og starfsmannaskiptum og öðrum kostum sem bjóðast innan Erasmus+.

Sem fyrr verður lífgað upp á stemninguna með tónlist og dansatriðum. Dansarar úr Kramhúsinu sýna Afródans, Bjössi Sax spilar og Rósana stígur magadans. Happdrættið verður á sínum stað þar sem nemendur eiga m.a. möguleika á að vinna flugmiða til landa í Evrópu  auk þess sem boðið verður upp á alþjóðlegt matar- og drykkjasmakk.

Eftirtaldir taka þátt: Sendiráð Bandaríkjanna, Bretlands, Danmerkur, Finnlands, Frakklands, Indlands, Japans, Þýskalands, Kanada, Noregs, Póllands, Rússlands og Svíþjóðar; Ræðisskrifstofur Spánar, Færeyja og Ítalíu, Fulbright-stofnunin, Skrifstofa alþjóðasamskipta, Svið og deildir Háskólans, Upplýsingastofa um nám erlendis, Rannís, Náms- og starfsráðgjöf, SÍNE, Norræna félagið, LÍN, Konfúsíusarstofnunin, Tungumálamiðstöðin, AIESEC, ESN, Sendinefnd Evrópusambandsins, alþjóðanefnd Stúdentaráðs og skiptinemar.

Nánari upplýsingar um dagskrá Alþjóðadaga má finna á viðburðadagatali Háskóla Íslands en þar er einnig að finna nánari upplýsingar um Alþjóðatorgið 25. október.

Yfirlit yfir dagskrá Alþjóðadaga
 

Netspjall