Skip to main content
7. september 2017

Sýningin „Ísland í heiminum og heimurinn í Íslandi“ framlengd

Þann 24. nóvember 2016 opnaði Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands, sýninguna „Ísland í heiminum og heimurinn í Íslandi“ við hátíðlega athöfn.
Kristín Loftsdóttir og Unnur Dís Skaftadóttir, prófessorar í mannfræði við Háskóla Íslands, eru höfundar sýningarinnar og byggja áherslur sýningarinnar á rannsóknum þeirra síðastliðin áratug. Sýningin hefur fengið góðar undirtektir sem endurspeglar áhuga á málefnum og umræðu um fordóma í íslensku samfélagi enda kallar hún fram ólíkar birtingarmyndir fólksflutninga.

Margir aðrir fræðimenn frá Háskóla Íslands koma að sýningunni og má þar nefna Ólaf Rastrick, dósent í þjóðfræði, Guðbjörtu Guðjónsdóttur, Önnu Wojtynska og Eyrúnu Eyþórsdóttur, sem allar eru doktorsnemar í mannfræði. Íris Ellenberger, nýdoktor á Hugvísindasviði, og Nína Rós Ísberg, doktor í mannfræði, eru einnig með innlegg á sýningunni.

Þjóðminjasafnið hefur tekið á móti skólahópum á sýninguna og hafa sérstaklega kennarar á miðstigi grunnskóla séð sér hag í að nýta það efni sem sýningin hefur upp á að bjóða. Fjörutíu og þrír grunnskólahópar hafa komið á Þjóðminjasafnið sérstaklega í þessum tilgangi. Sýningin leiddi jafnframt til jákvæðs samstarfs við margar aðrar stofnanir sem safnið er í virku samstarfi við. Einnig hafa verkefni verið unnin í tengslum við sýninguna, t.d. verkefnið „Börn á flótta“ sem var á dagskrá Barnamenningarhátíðar í apríl sl., og nemendahópar frá Háskóla Íslands hafa einnig nýtt sér sýninguna í tengslum við námskeið.

Vegleg bók var gefin út í tilefni sýningarinnar og hafa flestir kaflahöfunda haldið erindi um sinn hlut í sýningunni. Þessi fyrirlestrar hafa verið mjög vel sóttir og verður Ólafur Rastrick með lokafyrirlestur þann 10. október næstkomandi.

Boðið hefur verið upp á reglulega leiðsögn, bæði á íslensku og pólsku. Til stendur að bjóða upp á leiðsögn á fleiri tungumálum áður en sýningunni lýkur en hún hefur nú verið framlengd til 22. október.

Frá sýningunni „Ísland í heiminum og heimurinn í Íslandi“.
Frá sýningunni „Ísland í heiminum og heimurinn í Íslandi“.
Frá sýningunni „Ísland í heiminum og heimurinn í Íslandi“.