Sýnileikinn eykur áhrif vísindanna | Háskóli Íslands Skip to main content
25. nóvember 2021

Sýnileikinn eykur áhrif vísindanna

Sýnileikinn eykur áhrif vísindanna - á vefsíðu Háskóla Íslands

„Ég hugsa þetta ekki þannig að ég fái einhvern sérstakan ávinning af því að deila efni á samfélagsmiðlum. Þetta er ekki spurning um það sem ég kann að fá, heldur það sem ég gef til samfélagsins. Mín skoðun er sú að okkur fræðafólki beri skylda til að deila.“ 

Þetta segir Inga Minelgaité, prófessor við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Hún hefur vakið mikla athygli fyrir að deila efni á LinkedIn og aðra þekkta vefmiðla sem tengist afkastamiklu fræðastarfi hennar. 

LinkedIn er einn áhugaverðasti samfélagsmiðill í heimi þegar horft er til atvinnulífstengsla en meira en 774 milljónir notenda eru skráðir á samfélagsmiðlinn frá um tvö hundruð löndum. Í nýrri stefnu Háskóla Íslands er áhersla á að auka traust á vísindum og gera áhrif þeirra á samfélagið sýnilegri, ekki síst með því að fjölga milliliðalausum leiðum til samtals fræðafólks við innra og ytra samfélag. 

Fullyrða má að Inga hafi fundið mjög áhugaverða leið til miðlunar með því að deila efni á samfélagsiðla sem dregur verulega athygli að rannsóknastarfi hennar og viðfangsefnum á sviði kennslu og samstarfs við atvinnulíf á breiðum grunni. Inga hefur sérhæft sig í leiðtogahæfni, forystu og verkefnastjórnun í fræðastörfum og kennslu auk þess að fjalla um konur í viðskiptum. Hún hefur ítrekað deilt efni tengt öllu þessu á LinkedIn. 

„Eitt helsta verkefni okkar vísindamanna er að hafa áhrif með rannsóknum okkar á aðra vísindamenn og styðja þá í sínum rannsóknum. Hér er Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, vissulega fyrirmynd en hann er einn af áhrifamestu vísindamönnum heims á sínu sviði. Rannsóknir þurfa þannig að vera viðurkenndar af vísindasamfélaginu og af virtum vísindatímaritum til fást birtar. Rannsóknir hafa í nær öllum tilvikum líka hagrænt gildi og samfélagslegt sömuleiðis. Með því að deila vísindaefni á samfélagsmiðlum get ég átt samtal t.d. um niðurstöður rannsókna minna og annara. Þetta getur líka á margan hátt nýst atvinnulífinu. Með slíkum deilingum aukast líkurnar verulega á að vitnað sé í greinarnar mínar og þetta á almennt við um alla vísindamenn,“ segir Inga. 

Hún segir að með deilingum skapist líka tengsl við fleiri hagsmunaaðila. „Þannig getum við haft meiri áhrif. Ég fæ líka mikið af mjög gagnlegum upplýsingum í viðbrögðum þeirra sem tilheyra mínu tengslaneti á LinkedIn. Þetta hjálpar mér mikið við að sjá og henda reiður á hver er að gera hvað í fræðunum og í atvinnulífinu og hvernig við getum hugsanlega unnið saman.“ 

Inga segir að LinkedIn geti jafnvel orðið vettvangur til að finna samstarfsaðila en hún segir það frábært að vera fulltrúi Háskóla Íslands á samfélagsmiðlum og tilheyra menntastofnun sem sé þekkt og njóti mikillar virðingar alþjóðlega. 

Skiptir miklu máli að vera sýnileg

„Það skiptir okkur mjög miklu máli að vera sýnileg og að verkefni okkar fái athygli,“ segir Inga. „Það er alls ekki nóg bara að gera hlutina. Við þurfum líka að láta aðra vita. Á þessari öld yfirflæðis upplýsinga er nánast barnalegt að hugsa að þeir sem hafi áhuga finni upplýsingar sem tengjast tilteknum verkefnum eða rannsóknum. Kannski finnast upplýsingarnar en hvers vegna ekki að einfalda málin gagnvart þeim sem gætu haft áhuga?“

Inga segir að með því að gera upplýsingar aðgengilegri geti vísindamenn ekki bara borið út hróður háskólanna sjálfra heldur einnig haldið á lofti landi og þjóð. 

„Nýlega kenndi ég t.d. MBA-nemum frá Wharton-háskólanum í Bandaríkjunum. MBA-námið við Wharton hefur margsinnis fengið viðurkenningu sem það besta í heimi, t.d. af Forbes-tímaritinu. Þessir MBA-nemar komu hingað til Íslands í vettvangsferð og þurftu að læra um viðskiptaumhverfið hér áður en þeir komu til Íslands. Og hvað heldurðu að þeir hafi lesið? Þeir lásu bók um leiðtogahæfni á Íslandi sem ég skrifaði í félagi við frábærar samstarfskonur mínar, þær Árelíu Guðmundsdóttur, dósent og Svölu Guðmundsdóttur, prófessor í viðskiptafræði við HÍ. Bókin heitir Demystifying Leadership in Iceland: An Inquiry In Cultural, Societal, and Entrepreneurial Uniqueness. Við þrjár kynntum bókina sérstaklega í Washington, Hong Kong, Peking, Vilnius og víðar. Svo deildum við færslum um bókina margoft á LinkedIn. Það skilaði sér greinilega.“

Inga segist þó alls ekki deila öllum greinum sem hún fær birtar í vísindatímaritum. „Ég deili líka stundum áhugaverðum efni frá öðru fræðafólki sem stundar rannsóknir á sama sviði og ég. Ég set upp nokkra hatta þegar ég deili efni,“ segir Inga og hlær. 

„Til dæmis hóf ég að deila efni í þágu jafnréttis kynjanna í Litháen sem hefur gengið einstaklega vel á LinkedIn, ekki síst út frá sjónarmiðum verkefnisstjórnunar en einnig út frá umfjöllun um verkefnið í fjölmiðlum. Þetta frumkvæði var innblásið af aðferðum á Íslandi og ég er mjög stolt af því að hafa dregið athyglina að þessum málaflokki í heimalandi mínu.“ 

„Rannsóknir hafa í nær öllum tilvikum líka hagrænt gildi og samfélagslegt sömuleiðis. Með því að deila vísindaefni á samfélagsmiðlum get ég átt samtal t.d. um niðurstöður rannsókna minna og annara. Þetta getur líka á margan hátt nýst atvinnulífinu. Með slíkum deilingum aukast líkurnar verulega á að vitnað sé í greinarnar mínar og þetta á almennt við um alla vísindamenn,“ segir Inga. MYND/Kristinn Ingvarsson

Færslur sem fengu meira en 40 þúsund snertingar

Inga segir að sumar af færslum sínum hafi fengið meira en 40 þúsund snertingar á LinkedIn. Þetta er birting gagnvart markhópnum sem eru að hennar sögn vísindamenn og fólk úr atvinnulífinu. „En LinkedIn er ekki eina mikilvæga rásin fyrir deilingu efnis fyrir fræðafólk,“ segir Inga. „Veftorgin Researchgate og Academia eru líka mjög mikilvæg. Það kom mér mjög á óvart þegar Academia tilkynnti mér með sérstökum skilaboðum að efni frá mér væri á meðal þess sem væri í fjórum prósentum þess sem mest væri lesið í tilteknum mánuði. Þetta er verulega ánægjulegt ekki síst þegar haft er í huga að það eru 80 milljónir skráðir notendur á Academia.“

Inga segir það færast mjög í vöxt að miðlun niðurstaðna sé skilgreindur og mikilvægur hluti af rannsóknaverkefnum. Þessa dagana vinnur hún að verkefnum með Ralf Müller, prófessor við BI viðskiptaháskólann í Noregi, sem er einn þekktasti fræðimaður heims á sviði verkefnastjórnunar. Í því verkefni er skilgreint sérstaklega hvernig deila eigi efni. Í öðru verkefni á sviði forysturannsókna, sem er eitt það stærsta í heimi á því sviði, er mjög skýr stefna varðandi miðlun, ekki síst á viðurkennda samfélagsmiðla. Í síðartöldu rannsókninni, sem nefnist GLOBE, vinnur Inga ásamt þeim Inga Rúnari Eðvarðssyni, prófessor í viðskiptafræði, og Svölu Guðmundsdóttur. 

Áherslur á fjölbreytileika og sjálfbærni í nýrri stefnu HÍ26

Inga sérhæfir sig í sjálfbærni í forystu en þannig hagar til að sjálfbærni er ein af fjórum megináherslum nýrrar stefnu HÍ. Stefnan felur í sér að sjálfbærni er lögð til grundvallar í allri starfsemi skólans. En fjölbreytileiki er líka ein af undirstöðunum og í stefnunni nýju er stutt sérstaklega við fjölbreytt samfélag starfsfólks og nemenda. 

Inga er fædd og uppalin í Litháen. Hún lauk doktorsprófi frá Háskóla Íslands árið 2016 og hóf í framhaldinu kennslu við Viðskiptafræðideild en hún var studd áfram í kennslunni af Margréti Sigrúnu Sigurðardóttur sem er dósent við deildina. Inga segir að Ingi Rúnar Eðvarðsson hafi líka hvatt hana til sækjast eftir fræðastörfum í framhaldi af námi. 

„Það var og er frábært að finna stuðning samstarfsfólks við fjölbreytileika en ég hef fengið mikla hvatningu frá deildinni minni. Ég held að ég sé eini kennarinn enn sem komið er af erlendum uppruna í fastri stöðu hjá Viðskiptafræðideild,“ segir Inga sem starfaði í atvinnulífinu í áratug áður en hún hóf doktorsnám við HÍ og síðar störf við skólann. 

Inga segist njóta þess mjög að kenna á háskólastigi. „Það er frábært að kenna nemendum sem skilja gildi þess að takast á við flóknar áskoranir og erfið verkefni. Ég nýt þess sérstaklega að hafa umsjón með vinnu nemenda við lokaritgerðir. Það er bæði lengra og persónulegra ferðalag og það er alveg frábært að sjá hvernig fólk þróast og þroskast í því ferli.“

Inga Minelgaité