Sýndarveruleiki, sköpun og snípur í þrívídd á Vorblóti | Háskóli Íslands Skip to main content
15. maí 2019

Sýndarveruleiki, sköpun og snípur í þrívídd á Vorblóti

Fjöldi fólks lagði leið sína á Vorblót Menntavísindasviðs Háskóla Íslands og skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar sem haldið var á dögunum. Fjölbreyttar sýningar, menntaspjall og kynningar á tækifærum í skóla- og frístundastarfi voru í boði fyrir gesti og gangandi. Snípur í þrívídd, ritun til að efla skapandi hugsun, fagnaðarerindi útináms, KrakkaRÚV, vélmenni og Vinátta — forvarnarverkefni Barnaheilla voru á meðal þess sem gestir gátu kynnt sér í menntabúðum og í sérstökum vinnusmiðjum.

Þátttakendur Vorblótsins voru starfandi fagfólk í menntakerfinu, s.s. í leikskólakennslu, grunnskólakennslu og frístundastarfi auk fræðimanna við Háskóla Íslands. Hæfileikafólk úr hópi nemenda Menntavísindasviðs lét ekki sitt eftir liggja og kynnti m.a. framlag meistaranema á Barnamenningarhátíð, Sundleikjabók og margt fleira. Þá voru kynntir starfsþróunarmöguleikar fyrir fagfólk í menntakerfinu og kennaranám undir formerkjum Komdu að kenna. 

Við sama tilefni var undirritaður samningur milli Háskóla Íslands og Reykjavíkurborgar sem kveður á um aukið samstarf til starfsþróunar og nýsköpunar í skóla- og frístundastarfi. Samstarfið felur enn fremur í sér samvinnu um námskeiðahald, leiðsögn, ráðgjöf og rannsóknir. Starfið grundvallast á Menntastefnu Reykjavíkurborgar sem samþykkt var á síðasta ári. Yfirskrift menntastefnunnar er „Látum drauma rætast“ sem byggist á þeirri sýn að í kraftmiklu skóla- og frístundastarfi öðlast börn menntun og reynslu til að láta drauma sína rætast og hafa jákvæð áhrif á umhverfi sitt og samfélag. Þrjú börn úr Háteigsskóla, Háaleitisskóla og Breiðagerðisskóla lásu upp drauma sína við athöfnina við góðar undirtektir gesta.

Viðburðurinn var nú haldinn í annað sinn og að þessu sinni í samvinnu við fulltrúa frá Listaháskóla Íslands, Kópavogi, Hafnarfirði, RÚV, List fyrir alla og fleiri. Stefnt er að því að endurtaka Vorblótið að ári.

Það var líf og fjör á Vorblótinu. MYND/ Kristinn Ingvarsson