Sveiflast milli söngs og verkfræði | Háskóli Íslands Skip to main content
25. febrúar 2019

Sveiflast milli söngs og verkfræði

""

Harpa Ósk Björnsdóttir er kona eigi einhöm. Hún státar af spánnýju brautskráningarskírteini í rafmagns- og tölvuverkfræði frá Háskóla Íslands og stundar jafnframt söngnám við Listaháskóla Íslands enda í hópi efnilegustu óperusöngvara landsins. Harpa segir árin í Háskólanum hafa verið viðburðarík og gefið henni ótal skemmtileg tækifæri og vonast til að geta sinnt bæði verkfræðinni og söngnum í framtíðinni.

Harpa var í hópi rúmlega 450 kandídata sem tóku við brautskráningarskírteinum sínum við hátíðlega athöfn í Háskólabíói á laugardag. Hún státar nú af BS-gráðu í rafmagns- og tölvuverkfræði en segir aðspurð ekki alveg viss hvers vegna sú grein hafi orðið fyrir valinu á sínum tíma. „Mig langaði að læra verkfræði og velti fyrir mér öllum möguleikum í verkfræði hjá Háskóla Íslands. Ég hafði mjög gaman af síðasta hluta eðlisfræðinnar í Menntaskólanum í Reykjavík þar sem ég lærði um hleðslu og einfalda rásagreiningu og því var ég spennt fyrir rafmagnsverkfræðinni,“ segir hún og bætir við að möguleikar á að geta hugsanlega fært sig í aðra verkfræðigrein innan skólans hafi líka haft áhrif á valið.

Náinn nemendahópur
Hún segir námið hafa verið skemmtilegt og mörg áhugaverð námskeið kennd innan Rafmagns- og tölvuverkfræðideildar. „Það er eiginlega magnað hversu mikið námið breytist eftir fyrsta árið þar sem við förum úr því að vera í 400 manna fyrirlestrum í Háskólabíói yfir í 10-20 manna rafmagnsverkfræðiáfanga þar sem manni líður stundum eins og maður sé aftur kominn í bekkjarkerfi í menntaskóla. Því á ég lítinn en náinn vinahóp úr deildinni eftir þessi þrjú skemmtilegu en ansi krefjandi ár,“ segir Harpa enn fremur.

Hún segir félagsstörf innan deildarinnar einnig standa upp úr eftir námsárin. „Ég var fyrst nýnemafulltrúi í VIR, nemendafélagi rafmagns- og tölvuverkfræðinema, svo skemmtanastjóri á öðru ári og að lokum formaður á þriðja ári. Ég er á því að það sé erfitt að finna aðra eins stemmningu innan nemendafélags innan skólans, miðað við höfðatölu, því þótt deildin sé smá og nemendafélagið enn minna kemur það alls ekki niður á andrúmsloftinu,“ bætir hún glettin við.

Harpa og krakkar

Harpa á ferð með Háskólalestinni í Grenivík á síðasta ári.

Sumarrannóknir við Caltech standa upp úr
Harpa lét sér ekki námið og félagsstörfin nægja því samhliða því starfaði hún m.a. í Vísindasmiðju Háskóla Íslands og ferðaðist með Háskólalest skólans um landið og kynnti undur vísindanna fyrir grunnskólanemendum í gegnum námskeið um vindmyllusmíði. 

Hún segir þó einn eftirminnilegasta tímann í náminu hafa verið rannsóknarverkefni sem hún vann sumarið 2018 við Caltech í Bandaríkjunum, einn virtasta háskóla heims, en þangað fór hún með styrk í gegnum svokallað Summer Undergraduate Research Fellowship samstarf Háskóla Íslands og Caltech. Við Caltech vann hún að þróun á ígræðanlegri rafrás með hópi vísindamanna og nemenda.

„Það var algjörlega ómetanleg reynsla að fá að vinna að rannsókn inni á svona flottri rannsóknarstofu og að fá að lifa og hrærast í þessu fræga háskólaumhverfi. Ekki skemmdi fyrir að háskólinn er staðsettur í Pasadena hjá Los Angeles og því var þetta sumar algjört ævintýri. Bæði fékk ég að upplifa í fyrsta skipti hvernig það er að hella sér ofan í rannsókn í svona langan tíma án þess að verða fyrir truflunum frá öðrum hlutum og ég gat líka ferðast allar helgar um Kaliforníu en mér tókst að nýta hverja einustu helgi í að kanna svæðið í kringum Los Angeles. Ég keyrði t.d. um Pacific Coast Highway á blæjubíl til Malibu og Santa Barbara, ferðaðist tvisvar sinnum til San Francisco og hitti þar í bæði skiptin hóp frá Háskóla Íslands sem var í sumarnámi við Stanford-háskóla og fór á tónlistarhátíð með þeim. Ég eignaðist líka svakalega góðan hóp af vinum sem voru flest að læra við Cambridge, Oxford eða háskóla í Svíþjóð. Við hittumst öll aftur í september í Cambridge og hópurinn ætlar svo að koma til Íslands að heimsækja okkur Stefán [Eggertsson sem fór einnig í sumarnám til Caltech] og við ætlum að sýna þeim eitthvað fallegt,“ segir hún glaðbeitt.
 
Aðspurð hvaða þýðingu gráða frá Háskóla Íslands hafi í hennar huga segist hún hafa fundið fyrir því að gráðan sé vel metin bæði hjá öðrum háskólum og vinnustöðum. „Ég myndi halda að með ágætis einkunnir frá Háskóla Íslands séu manni allir vegir færir í skólum erlendis. Ég á marga vini úr náminu sem stunda nú nám við flottustu háskóla heims,“ segir hún enn fremur.

„Það var algjörlega ómetanleg reynsla að fá að vinna að rannsókn inni á svona flottri rannsóknarstofu og að fá að lifa og hrærast í þessu fræga háskólaumhverfi. Ekki skemmdi fyrir að háskólinn er staðsettur í Pasadena hjá Los Angeles og því var þetta sumar algjört ævintýri,“ segir Harpa sem er hér við rannsóknastofuna í Caltech.

Sigursæl í söngnum
Harpa lét sér ekki nægja að stunda sumarrannsóknir við Caltech í fyrra heldur lauk hún einnig einsöngvaraprófi frá Söngskóla Reykjavíkur síðasta vor og hóf jafnframt BA-nám í söng við Listaháskóla Íslands í haust. Aðspurð segir hún það hafa verið mikið púsl að samtvinna söng- og háskólanám undanfarin ár. „Það gekk þó alltaf á einhvern hátt en það kom kannski stundum niður á bóklegu fögunum í söngnáminu þar sem ég lét alltaf rafmagnsverkfræðiáfangana ganga fyrir. Það er samt alveg magnað hvað þetta virðist passa vel saman, mér líður aldrei eins og ég sé í tvöföldu námi því ég næ að hvíla mig á öðru á meðan ég sinni hinu. Til dæmis þegar ég tek mér pásur frá lærdómnum þá nýti ég þann tíma í að mæta í söngtíma eða æfa mig og sömuleiðis nýti ég pásur í söngverkefnum í að gera heimadæmi. Þetta hefur gengið vel fyrir mig þótt mörgum þyki þetta undarlegt,“ segir hún. 

Harpa á tónleikum

Harpa syngur með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Eldborg

Árangurinn í söngnum hefur ekki látið á sér standa því í október 2018 var Harpa einn fjögurra sigurvegara í einleikarakeppninni Ungir einleikarar og kom af því tilefni fram á tónleikum með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Eldborgarsal Hörpu um miðjan síðasta mánuð. Viku síðar gerði hún sér svo lítið fyrir og sigraði í háskólaflokki í söngkeppninni ,,Vox domini 2019” þar sem hún hlaut titilinn „Rödd ársins 2019“ ásamt því að sigra í áhorfendakosningu. 

Spennandi verkefni fram undan
Aðspurð hvort söngurinn eða rafmagns- og tölvuverkfræðin verði ofan á í framtíðinni segir hún erfitt að segja. „Ég skipti svo oft um skoðun og mig langar alltaf að gera hvort tveggja. Ég var svakalega spennt fyrir því að hella mér ofan í rafmagnsverkfræðina þegar ég kom heim úr rannsóknarverkefninu í Caltech en svo hægt og rólega færðist hugurinn yfir til söngsins þegar ég byrjaði í Listaháskólanum, sérstaklega eftir að ég var valin einn sigurvegara Ungra einleikara og fékk verðlaunin í Vox domini 2019 í síðasta mánuði. Ég var þó ekki alveg búin að leggja rafmagnsverkfræðidrauminn á hilluna og var á sama tíma að vinna í umsóknum um meistaranám í rafmagns- og tölvuverkfræði við nokkra háskóla. Fyrir nokkrum dögum bauðst mér hins vegar mjög spennandi tækifæri tengt söngnum hér heima næsta haust, sem greint verður nánar frá fljótlega, og því má segja að hugurinn stefni eins og er að söngnum þótt rafmagnsverkfræðin sé ekki að fara neitt. Mér finnst ekki liggja á því að fara í frekara nám, ég hef starfað síðastliðin þrjú ár hjá Landsvirkjun sem sérfræðingur hjá vinnsluáætlanadeild Orkusviðs og líkar vel. Þar fæ ég að láta rafmagnsverkfræðinginn í mér blómstra,“ segir Harpa brosmild að endingu en af frammistöðu hennar á báðum sviðum er alveg ljóst að hún á svo sannarlega bjarta framtíð fyrir höndum.

Harpa Ósk Björnsdóttir