Skip to main content
18. janúar 2019

Styrkur til rannsókna á einelti

Auglýst er eftir umsóknum um styrk úr Styrktarsjóði Margaretar og Bents Schevings Thorsteinssonar á árinu 2019. Styrkir eru veittir til rannsókna fræðafólks við Háskóla Íslands og/eða nemenda í framhaldsnámi við háskólann sem samræmast tilgangi og markmiði sjóðsins. Rannsóknirnar geta verið einstaklingsverkefni eða hópverkefni í eða án samvinnu við aðila utan Háskóla Íslands. 

Umsóknarfrestur er til og með 18. febrúar 2019.

Markmið sjóðsins er að styðja rannsóknir á einelti í víðum skilningi hugtaksins og kanna allar lagalegar og siðferðilegar leiðir til að koma í veg fyrir einelti og bæta fyrir afleiðingar þess. Aðeins þær umsóknir koma til greina sem falla að markmiðum sjóðsins.

Heildarfjárhæð úthlutaðra styrkja er allt að kr.1.500.000. 

Í umsókninni þurfa eftirtalin atriði að koma fram: 
1.    Nafn umsækjanda, kennitala, heimilisfang, sími og virkt netfang.
2.    Heiti rannsóknarverkefnis, markmið og vísindalegt gildi. 
3.    Hnitmiðuð lýsing á verkefninu, 2-3 málsgreinar, sem verður nýtt til almennrar umfjöllunar og kynningar hljóti verkefnið styrk. 
4.    Veigameiri lýsing á rannsóknarverkefninu, ein blaðsíða að hámarki. Fram komi hvernig verkefninu er ætlað að auka við núverandi þekkingu á efninu og hvernig verkefnið samræmist markmiðum sjóðsins. Sé ætlunin að óska eftir stuðningi við hluta af stærra verkefni skal koma fram til hvaða þáttar sótt er um.
5.    Áætlun um framvindu, tímaáætlun, fjárhagsáætlun og yfirlit yfir helstu samstarfsaðila í verkefninu. Upplýsingar um annan fjárhagslegan stuðning við verkefnið komi einnig fram.
6.    Nöfn, símanúmer og netföng þeirra sem leita má til um meðmæli.
Gert er ráð fyrir því að styrkþegi skili sjóðnum greinargerð um stöðu verkefnisins innan árs frá afhendingu styrks. 

Hámarkslengd umsóknar er þrjár síður. Farið er með allar umsóknir sem trúnaðarmál. Stjórn áskilur sér rétt til að veita fleiri en einum umsækjanda styrk, hafna öllum og/eða úthluta styrkjum með öðrum hætti.

Umsóknum skal skila sem viðhengi á netfang Styrktarsjóða Háskóla Íslands, sjodir@hi.is. Áætlað er að úthlutað verði á vormánuðum 2019.

Frekari upplýsingar um styrkveitingu og úthlutun er að finna á heimasíðu Háskóla Íslands, á sjóðavef Háskóla Íslands, eða hjá Helgu Brá Árnadóttur, verkefnisstjóra Styrktarsjóða Háskóla Íslands, helgab@hi.is, sími 525-5894.
 

Styrktarsjóður Margaretar og Bents Schevings Thorsteinssonar var stofnaður af þeim hjónum við Háskóla Íslands árið 2001. Þetta er þriðji sjóðurinn sem Bent Scheving Thorsteinsson stofnar við háskólann. Hinir tveir eru Verðlaunasjóður Óskars Þórðarsonar læknis, sem styrkir rannsóknir á sviði barnalækninga, og Verðlaunasjóður Bergþóru og Þorsteins Schevings Thorsteinssonar til styrktar rannsóknum í lyfjafræði.