Styrkur til náms við Minnesota-háskóla á vormisseri 2020 | Háskóli Íslands Skip to main content
2. september 2019

Styrkur til náms við Minnesota-háskóla á vormisseri 2020

Minnesota-háskóli

Auglýst er eftir umsóknum um Val Bjornson styrk til námsdvalar við Minnesota-háskóla á vormisseri 2020. Í boði er einn styrkur sem nemur skólagjöldum, fæði og húsnæði. Skilyrði er að nemandi sé íslenskur ríkisborgari og hafi lokið a.m.k. 60 ECTS einingum í námi við Háskóla Íslands.

Nemendur Háskóla Íslands, sem sótt hafa um skiptinám við Minnesota-háskóla, geta sótt um styrkinn. Þeir sem lokið hafa prófgráðu frá Háskóla koma einnig til greina. 
Minnesota-háskóli er mikils metinn rannsóknaháskóli í Minneapolis-St. Paul, stórborg í miðríkjum Bandaríkjanna. Staðsetningin býður upp á fjölbreytt menningarlíf og mikla útivistarmöguleika.

Styrktarsjóður Val Bjornson (Val Bjornson Icelandic Exchange Scholarship Fund) var stofnaður í minningu Valdimars „Val“ Bjornsonar (1906 –1987), fyrrverandi fjármálaráðherra Minnesota fylkis sem var af íslensku bergi brotinn. Sjóðurinn nýtur mikils stuðnings vestur-íslenska samfélagsins í Minnesota.

Valnefnd styrktarsjóðs Val Bjornsonar metur umsóknir þar sem m.a. er tekið mið af námsferli, framtíðarmarkmiðum, meðmælum og frammistöðu í viðtali ef við á. Valnefnd áskilur sér rétt að skipta styrknum milli umsækjenda. Endanlegt val er skv. kröfum Minnesota-háskóla.

Umsókn um skiptinám

Gögn með umsókn:
•    Kynningarbréf þar sem m.a. skal koma fram rökstuðningur fyrir hvers vegna umsækjandi hafi áhuga á að taka hluta af námi sínu við skólann
•    Staðfest einkunnayfirlit með  árangursröðun
•    Niðurstöður úr TOEFL prófi (eða staðfestingu á skráningu í TOEFL próf)
•    Tvenn meðmæli. Skilað í lokuðu umslagi til Skrifstofu alþjóðasamskipta en einnig má senda þau með pósti
•    Upplýsingar um námsleið sem sótt hefur verið um við skólann og staðfesting á umsókn (Aðeins umsækjendur sem stefna á fullt framhaldsnám við Minnesota-háskóla)

Umsókn ásamt fylgigögnum skal skila í lokuðu umslagi á Þjónustuborð á Háskólatorgi. Umsóknarfrestur er 12. september 2019.

Nánari upplýsingar fást á Skrifstofu alþjóðasamskipta. Einnig má senda fyrirspurnir á outgoing.international@hi.is.

Minnesota-háskóli