Skip to main content
25. nóvember 2021

Styrkjum úthlutað til vísindafræða og vísindamiðlunar

Styrkjum úthlutað til vísindafræða og vísindamiðlunar - á vefsíðu Háskóla Íslands

Veittir hafa verið fimm styrkir til verkefna í vísindasögu, -heimspeki og -miðlunar úr Vísindum og velferð: Styrktarsjóði Sigrúnar og Þorsteins. Styrkhafar eru Victor Karl Magnússon meistaranemi, Erlendur Jónsson, prófessor emeritus, Bryndís Björnsdóttir verkefnisstjóri, Þorsteinn Þorsteinsson jöklafræðingur og Davíð Kristinsson heimspekingur. Heildarupphæð styrkja er tæplega fimm milljónir króna. 

Sjóðnum Vísindi og velferð er annars vegar ætlað að efla doktorsnám og sérfræðiþekkingu í félagsráðgjöf með áherslu á málefni barna og fjölskyldna og hins vegar vísindafræði, nánar tiltekið rannsóknir og nýjungar sem tengjast vísindasögu, vísindaheimspeki og vísindamiðlun. Að þessu sinni voru veittir styrkir til verkefna á síðarnefndu sviðunum, en auglýst er árlega eftir umsóknum á hvoru meginsviði til skiptis.

Victor Karl Magnússon stundar meistaranám í rökfræði og vísindaheimspeki við Ludwig-Maximilians háskólann í München. Námið er innan vébanda stofnunar sem heitir Munich Center for Mathematical Philosophy (MCMP) og er framarlega á heimsvísu þegar kemur að rannsóknum í vísindaheimpeki, rökfræði, ákvarðanafræði og leikjafræði. Victor hyggst skrifa MA-ritgerð um áhrif gervigreindar á lýðræðislega ákvarðanatöku. Victor hefur áður fjallað um mikilvægi trausts í lýðræðislegri ákvarðanatöku. Hann starfaði við rannsókn á viðbrögðum íslenskra stjórnvalda við heimsfaraldri COVID-19, sem naut stuðnings Nýsköpunarsjóðs námsmanna, og er meðhöfundur skýrslu Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands um málið.

Erlendur Jónsson, prófessor emerítus í heimspeki við Háskóla Íslands, hlaut styrk fyrir „Heimspekiorðabók, hugtök og heiti heimspekinnar“, sem er nánast fulllokið og mun koma út hjá Háskólaútgáfunni. Um er að ræða orðabók með stuttum og aðgengilegum skýringum á íslensku á helstu hugtökum heimspekinnar—meðal annars úr vísindaheimspeki og vísindasögu—og æviágripum merkra heimspekinga ásamt kenningum þeirra. Í verkinu eru yfirlit yfir ýmis tímabil í sögu heimspekinnar, s.s. nútímaheimspeki, fornaldarheimspeki o.s.frv., með tilvísunum í einstakar skýringargreinar og æviágrip, þannig að verkið má í raun lesa sem heimspekisögu að hluta, þar sem lesandinn ræður því sjálfur hversu ítarlegt söguyfirlitið á að vera. Í verkinu er víðtæk umfjöllun um ýmis mikilvæg hugtök úr vísindaheimspeki og vísindasögu og tengdum sviðum.

Bryndís Björnsdóttir, myndlistarmaður, hlaut styrk fyrir IMMUNE/ÓNÆM-listrannsóknarverkefnið. Um er að ræða alþjóðlegt verkefni sem byggist á Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar (1752-1757) og vísindalegri skrásetningu þeirra á náttúru Íslands. Í verkefninu er ritið endurskoðað með sérstakri áherslu á vensl við náttúruna og hugmyndir okkar um nýtingu á henni. Eftir nær tveggja ára rannsóknarleiðangur munu þátttakendur verkefnisins sýna afrakstur sinn í Nýlistasafninu 19. mars - 1. maí 2022. Samhliða sýningunni verða einnig haldnar vinnustofur og samræðuvettvangur. Verkefnið er tilraun til að mynda samspil milli lista og vísinda. IMMUNE/ÓNÆM hefur einnig hlotið styrki frá Nordic Culture Point, Reykjavíkurborg, Myndlistarsjóði, Nordic Culture Fund og Swedish Arts Grants Committee.

Þorsteinn Þorsteinsson, jöklafræðingur á Veðurstofu Íslands, hlaut styrk til gerðar sýningarskrár verkefnis um ævi og starf dr. Helga Pjeturss jarðfræðings. Helgi var einn af brautryðjendum raunvísinda á Íslandi, setti fram heimspekilegar kenningar í safnritinu Nýal og birti mikinn fjölda greina í íslenskum og erlendum blöðum og tímaritum á hálfrar aldar ritferli. Sett verður upp veggspjaldasýning í forsal Landsbókasafns þar sem rakin verður ætt og uppruni Helga Pjeturss, námsferill, jarðfræðirannsóknir og ritstörf. Niðurstöður þær sem hann birti í alþjóðlegum vísindatímaritum leiddu til nýs skilnings á jarðsögu landsins, einkum ísaldartímabilinu. 

Davíð Kristinsson, stundakennari við Norður-Evrópudeild Humboldt-háskóla í Berlín, hlaut styrk til verkefnisins „Um þróun fræðamarka heimspeki og menntavísinda“. Kennaranám varð háskólanám í hinum enskumælandi heimi á eftirstríðsárunum. Litið var svo á að fræðin um menntamál væru ekki sjálfstæð vísindagrein með eigin kenningar og voru þau því grundvölluð á fjórum ólíkum grunngreinum: heimspeki, sálfræði, sagnfræði og félagsfræði – ólíkt Þýskalandi þar sem uppeldisfræðin byggðust í meira mæli á eigin fræðilegum grundvelli. Í þessari rannsókn er ætlunin að skoða þróun sambands menntavísinda og heimspeki og  breytingar á Íslandi á undanförnum áratugum eru bornar saman við erlenda þróun. 

Um sjóðinn

Vísindi og velferð: Styrktarsjóður Sigrúnar og Þorsteins var stofnaður á vormánuðum árið 2021 og eru stofnendur sjóðsins hjónin Sigrún Júlíusdóttir og Þorsteinn Vilhjálmsson, sem bæði eru fyrrverandi prófessorar við Háskóla Íslands. Sigrún er fyrrverandi prófessor í félagsráðgjöf og hefur verið einn ötulasti talsmaður þróunar, rannsókna og fræða í félagsráðgjöf við háskólann og stofnandi Rannsóknaseturs í barna- og fjölskylduvernd. Þorsteinn er fyrrverandi prófessor í eðlisfræði og vísindasögu, stofnandi og fyrsti ritstjóri Vísindavefsins og hefur verið brautryðjandi í vísindafræðum við skólann.

Sjóðurinn heyrir undir Styrktarsjóði Háskóla Íslands og starfar samkvæmt staðfestri skipulagssrá. Í stjórn sjóðsins sitja Vilhjálmur Þorsteinsson, sonur Þorsteins og fulltrúi stofnenda sjóðsins sem jafnframt er formaður stjórnar, Sigurveig H. Sigurðardóttir prófessor, fulltrúi Félagsráðgjafardeildar, og Einar H. Guðmundsson, prófessor emeritus, fulltrúi Raunvísindadeildar og Sagnfræði- og heimspekideildar.

Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands og þar með samfélagið allt. 

Fleiri myndir frá úthlutun styrkjanna.
 

Styrkþegar og fulltrúar þeirra ásamt stjórn sjóðsins, stofnendum og rektor Háskóla Íslands.