Skip to main content
21. október 2019

Styrkja nýsköpun og frumkvöðlafærni í námi

„Verkefnið snýst um að þróa og búa til hlaðborð sem býður upp á leiðbeiningar, tól og tæki, auk tækifæra til að deila reynslu og að tengja saman fólk sem er að nýta leiðbeiningarkerfið EntreComp í námi, kennslu og starfi,“ segir Svanborg R. Jónsdóttir, prófessor í listum og skapandi starfi, sem nú stýrir viðamikilli rannsókn á frumkvöðlafærni. Verkefnið, sem ber heitið Entrepreneurship360 Network, hlaut á dögunum nærri 38 millljóna króna styrk úr menntaáætlun Evrópusambandsins, Erasmus+. 

„Tilgangurinn er að styðja við alla aðila í almennri menntun og símenntun til að styrkja þróun, mat og viðurkenningu á frumkvöðlafærni sem hæfni í námi út allt lífið,“ útskýrir Svanborg en verkefnið er samevrópskt og nær til þriggja ára.

Háskóli Íslands leiðir verkefnið er önnur þátttökulönd eru Belgía, Ítalía, Spánn, England og Finnland. Auk Svanborgar kemur Kristín Harðardóttir rannsóknastjóri Menntavísindasviðs að verkefninu.

„EntreComp er umfangsmikið leiðbeiningarkerfi með hæfniviðmiðum fyrir frumkvöðlafærni sem inniheldur mörg hæfniviðmið sem henta í námi af ýmsu tagi m.a. lífsleikni. Í samstarfsverkefninu verður leitast við að sýna hvernig EntreComp getur nýst í símenntun þar sem athyglinni er beint að þeim þverfaglegu færniþáttum sem taldir eru mikilvægir í nútímasamfélagi. Þessir þættir miða gjarnan að því að bæta félagslega inngildingu samhliða því að styrkja efnahagslegan grundvöll samfélaga,“ segir Svanborg og bendir á að sífellt meira sé litið til þátta á borð við frumkvöðlafærni í íslensku menntakerfi og atvinnulífi.

Svanborg er forstöðumaður Rannsóknastofu um skapandi skólastarf og hefur tekið þátt í mörgum samstarfsverkefnum í gegnum tíðina, bæði hér á landi og erlendis. Hún stýrði m.a. starfendarannsóknum sem snerust um að efla sköpun í námi. Svanborg hefur skrifað og fengið birtar fjölda ritrýndra greina og bókarkafla og er jafnframt höfundur bókarinnar The road to independence. Emancipatory pedagogy ásamt Rósu Gunnarsdóttur.

Sjá nánar um EntreComp.

„Verkefnið snýst um að þróa og búa til hlaðborð sem býður upp á leiðbeiningar, tól og tæki, auk tækifæra til að deila reynslu og að tengja saman fólk sem er að nýta leiðbeiningarkerfið EntreComp í námi, kennslu og starfi,“ segir Svanborg R. Jónsdóttir, prófessor í listum og skapandi starfi, sem nú stýrir viðamikilli rannsókn á frumkvöðlafærni. Verkefnið, sem ber heitið Entrepreneurship360 Network, hlaut á dögunum nærri 38 millljóna króna styrk úr menntaáætlun Evrópusambandsins, Erasmus+.