Skip to main content
2. júlí 2020

Styrkir veittir til rannsókna er tengjast liðskiptum og mjaðmabrotum

Þrír styrkir hafa verið veittir til rannsókna á sviði bæklunarlækninga með áherslu á stoðkerfissjúkdóma úr Sjóði Sigríðar Lárusdóttur við Háskóla Íslands. Styrkhafar eru María Sigurðardóttir, sérfræðingur í svæfinga- og gjörgæslulækningum við Landspítala, Halldór Jónsson jr., prófessor og sérfræðingur í bæklunarskurðlækningum, og Rafn Benediktsson, prófessor og sérfræðingur í lyflækningum og innkirtla- og efnaskiptalækningum.

Rannsókn Maríu Sigurðardóttur miðar að því að kanna heilsu sjúklinga sem gangast undir liðskiptaaðgerð á hné eða mjöðm. Enn fremur að kanna hvort vinna megi gegn þekktum áhættuþáttum fyrir fylgikvillum í tengslum við aðgerðina, eins og blóðskorti, sykursýki, vannæringu, ofþyngd og reykingum á meðan bið eftir aðgerðinni stendur, í þeim tilgangi að bæta allan aðgerðarferilinn. Markmiðið er að fækka hugsanlegum fylgikvillum í kjölfar aðgerðar og bæta þannig lífsgæði og horfur sjúklinga eftir aðgerð. Verkefnið er unnið í samvinnu Landspítala og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins ásamt Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Suðurnesja, Vesturlands og Vestfjarða. Hafin er lokavinnsla á gögnum um viðmiðunarhóp sjúklinga sem hefur verið safnað síðastliðin tvö ár en skráning í rannsóknarhóp er í gangi og mun standa til loka árs 2020.

María Sigurðardóttir er doktorsnemi við Háskóla Íslands og í doktorsnefnd sitja umsjónarkennari Sigurbergur Kárason, dósent, leiðbeinandi Martin Ingi Sigurðsson, prófessor, Yngvi Ólafsson, PhD, meðleiðbeinandi og Emil Lárus Sigurðsson, prófessor.

Rannsókn Halldórs Jónssonar jr. hefur þann tilgang að varpa ljósi á mismunandi tegundir skurðaðgerða og íhluta og afdrif sjúklinga vegna mjaðmabrota á fimm ára tímabili (2013–2018) á Landspítala. Faraldsfræði mjaðmabrota á Íslandi hefur verið skoðuð í nokkrum rannsóknum og sú nýjasta sýnir m.a. að um helmingur brota er á lærleggshálsi, þrír af hverjum fjórum sem brotna eru konur og að frá 67–89 ára jókst tíðni brota stöðugt en eftir 89 ára aldur lækkaði hún aftur.  Meðferðarsaga mjaðmabrota á Íslandi hefur breyst með þróun í innri festibúnaði og mjaðmagerviliðum en meðferðarárangur hvers og eins hefur aldrei verið kannaður nánar. Með rannsókninni er ætlunin að greina helstu snemmkomin vandamál sem tengjast meðferðarvali vegna mjaðmabrota og þá helst hvaða tegund ígræðis verður fyrir valinu fyrir sérhvert brot. Jafnframt er ætlunin að öðlast betri þekkingu á kynjaskiptingu og aldri þeirra sem leita aðstoðar vegna mjaðmarbrots og annarri meðferð sem tengist brotinu, m.a. til þess að bera saman við niðurstöður erlendra rannsókna af sama meiði. 

Samstarfsaðilar Halldórs eru Jatinder Singh, Krister Blær Jónsson og Sigrún S. Skúladóttir.

Rannsókn Rafns Benediktssonar, „Grípum brotin“, miðar að því að kanna árangur samræmdra viðbragða í kjölfar greiningar á fyrsta beinþynningarbroti. Beinþynning eykur verulega hættu á beinbroti við lítinn áverka og er með helstu heilsufarsvandamálum nútímans. Beinþynningarbrot eykur verulega líkur á frekari brotum en tæplega 40% af slíkum beinþynningarbrotum eru seinni brot og verða þau flest innan tveggja ára frá fyrsta broti. Erlendis hefur kerfisbundin nálgun í kjölfar fyrsta brots dregið verulega úr tíðni endurbrota og dánartíðni en einnig hefur verið gripið til sértækrar lyfjameðferðar og í heild hefur þetta sparað fé. Verkefnið hófst á Landspítala árið 2017 og hingað til hefur áherslan verið á brot í fjærenda framhandleggs. Verklagið felur í sér að tryggja að viðkomandi fái upplýsingar og fræðslu en einnig boð í beinþéttnimælingu. Haft er samband við lækni viðkomandi og athygli vakin á atburðinum með upplýsingum um skynsamleg næstu skref og eftirfylgd. Rannsóknin miðar að því að meta árangurinn af þessum fyrsta áfanga verkefnisins.

Samstarfsmenn Rafns við rannsóknina eru Birkir Friðfinnsson, Anna Björg Jónsdóttir, Björn Guðbjörnsson og fleiri.

Um sjóðinn

Tilgangur Sjóðs Sigríðar Lárusdóttur við Háskóla Íslands er að efla rannsóknir á sviði bæklunarlækninga. Sérstök áhersla er lögð á rannsóknir á meðfæddum göllum í mjaðmarlið, svo sem ættgengi, tíðni og afleiðingum. Sjóðinn stofnaði Sigríður Lárusdóttir (f. 5. maí 1918, d. 13. júní 2006) árið 2003 til minningar um þá sem hafa glímt við meðfædda sjúkdóma í mjöðm en Sigríður átti við þann sjúkdóm að stríða frá fæðingu.

Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk. 
 

Þrír styrkir hafa verið veittir til rannsókna á sviði bæklunarlækninga með áherslu á stoðkerfissjúkdóma úr Sjóði Sigríðar Lárusdóttur við Háskóla Íslands. Styrkhafar eru María Sigurðardóttir, sérfræðingur í svæfinga- og gjörgæslulækningum við Landspítala, Halldór Jónsson jr., prófessor og sérfræðingur í bæklunarskurðlækningum, og Rafn Benediktsson, prófessor og sérfræðingur í lyflækningum og innkirtla- og efnaskiptalækningum.