Skip to main content
27. október 2020

Styrkir til meistaraverkefna á sviði almenningssamráðs, þátttökulýðræðis og stjórnarskrárgerðar

Öndvegisverkefnið Lýðræðisleg stjórnarskrárgerð auglýsir eftir umsóknum um styrki til frá meistaranemum til ritgerðaskrifa. Í boði eru 4-6 styrkir vegna ritgerða sem nemendur hyggjast vinna að á tímabilinu frá október 2020 og til apríl 2022. Fyrirhuguð útskrift má ekki vera síðar en haustið 2022.

Styrkt verða verkefni á sviði hug- og félagsvísinda sem fjalla um almenningssamráð og lýðræðislega þátttöku í ákvörðunum og stefnumótun þar á meðal, en ekki eingöngu, á sviði stjórnarskrárgerðar og lagasetningar. Innan verkefnisins er áhersla á heimspeki, lögfræði, stjórnmálafræði, sagnfræði og menningarfræði, en styrkirnir eru ekki bundir við þessar greinar og hver umsókn verður metin sérstaklega.

Lýðræðisleg stjórnarskrárgerð: Tekist á um borgaraþátttöku, vald stofnana og sameiginleg gæði (e. Democratic Constitutional Design: Negotiating Civic Engagement, Institutional Control and the Common Good) hlaut öndvegisstyrk Rannís í janúar 2019 og þrír doktorsnemar munu vinna að doktorsverkefnum á vegum þess.

Í verkefninu er leitast við að rannsaka þá lærdóma sem draga má af íslenska stjórnarskrárferlinu sem hófst árið 2010. Fjallað er um vinnu Stjórnlagaráðs, sem afhenti Alþingi drög að nýrri stjórnarskrá árið 2011, og sömuleiðis um tilraunir til að vinna að heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar á árunum 2018 til 2025, en verkefnið hefur unnið náið með stjórnvöldum að skipulagi almenningssamráðs vegna þeirrar endurskoðunar sem nú stendur yfir. Um leið eru fræðilegar forsendur þessarar endurskoðunar teknar til rækilegrar skoðunar.

Stjórnlagaráðið vakti alþjóðlega athygli með tilraun sinni til að skrifa nýja stjórnarskrá með þátttöku almennings. Þó að tilraun þess hafi mistekist þar sem umfjöllun um tillögu þess var hætt á Alþingi og aldrei voru greidd um hana atkvæði þar, var stuðningur almennings við ráðið ótvíræður auk þess sem það hefur veitt innblástur í öðrum löndum þar sem reynt hefur verið að virkja almenning til þátttöku við endurskoðun stjórnarskrár.

Verkefnið sameinar þannig rannsókn á vinnu Stjórnlagaráðs, ráðgjöf um og rannsóknir á núverandi endurskoðunarferli og umræðu um þær kenningar m.a. á sviði rökræðulýðræðis og þekkingarmiðaðs lýðræðis sem mestu skipta fyrir slíka vinnu.

Styrkþegar fá greidd laun í fjóra mánuði eftir viðmiðum Háskóla Íslands um styrki til meistaranema (mánaðarleg greiðsla kr. 369.964). Gert er ráð fyrir að styrkþegar taki þátt í vinnustofum og málstofum á vegum verkefnisins og haldi fyrirlestur um rannsóknaverkefni sitt.

Umsóknarfrestur er til 1. nóvember 2020. Fullbúin umsókn inniheldur lýsingu á fyrirhuguðu meistaraverkefni (300-500 orð), ferilskrá umsækjanda ásamt afritum af prófskírteinum og yfirlitum um frammistöðu í námi. Umsóknir skal senda til Rannsóknasetursins EDDU á netfangið eddacenter@hi.is og merkja með bókstöfunum DCD í efnislínu.