Skip to main content
21. október 2021

Styrkir til framhaldsnáms í Bandaríkjunum 

Styrkir til framhaldsnáms í Bandaríkjunum  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Nemendur við Háskóla Íslands geta sótt um styrki til framhaldsnáms eða rannsókna við bandaríska háskóla skólaárið 2022-2023 hjá Stofnun Leifs Eiríkssonar. Þetta er sautjánda árið sem stofnunin veitir slíka styrki.

Ótalmörg tækifæri eru fyrir íslenska nemendur til að stunda framhaldsnám og rannsóknir í Bandaríkjunum. Námsstyrkirnir eru ekki bundnir við ákveðnar námsgreinar og á undanförnum árum hafa styrkþegar stundað nám í lögfræði, læknisfræði, kvikmyndafræði, stærðfræði, sálfræði og vélaverkfræði. Nemendur hafa stundað nám eða rannsóknir við Yale, Columbia, Julliard, MIT, University of Pennsylvania, University of Virginia og fleiri bandaríska háskóla.

Upphæð styrkja er allt að 25.000 bandarískum dollurum sem talið er nægja almennt fyrir skólagjöldum og framfærslukostnaði í eitt ár í Bandaríkjunum. Gert er ráð fyrir að stofnunin úthluti a.m.k. tíu námsstyrkjum fyrir næsta skólaár.

Umsóknarfrestur er 19. nóvember 2021 fyrir skólaárið sem hefst haustið 2022.

Frekari upplýsingar og umsóknarform er að finna á vef The Leifur Eiriksson Foundation

Ellefu fengu styrki á yfirstandandi skólaári

Við þetta má bæta að stór hópur íslenskra og bandarískra nemenda hlaut styrk frá stofnuninni til náms bæði í Bandaríkjunum og hér á landi á yfirstandandi skólaári.

Íslenskir námsmenn sem hlutu styrk til framhaldsnáms í Bandaríkjunum að þessu sinni eru:

Guðný Ragna Ragnarsdóttir til LL.M.-náms við lagadeild Columbia University í New York. 

Hörður Helgason til doktorsnáms í byggingaverkfræði við University of Washington í Seattle. 

Jón Kristinn Einarsson til meistaranáms í sagnfræði við Columbia University í New York. 

Njáll Skarphéðinsson til meistaranáms í tölvunarfræði (gervigreind og nýsköpun) við Carnegie Mellon University í Philadelphia. 

Númi Sveinsson til doktorsnáms í líf- og vélaverkfræði við University of California - Berkeley.  

Saga Morris Helgason til meistaranáms í rússnesku og austurevrópufræðum við Stanford University í Palo Alto. 

Bandarískir námsmenn sem hlutu styrk til náms og rannsókna á Íslandi eru:
Robyn Barrow til rannsókna á sviði listasögu miðalda við Árnastofnun og Þjóðminjasafn Íslands, en hún stundar doktorsnám við University of Pennsylvania.

Jacob Bell til rannsókna á sviði miðaldafræða við Háskóla Íslands og Árnastofnun en hann er doktorsnemi við University of Illinois í Urbana-Champaign.

Riley Book til rannsókna á vistkerfi þörunga í Mývatni við Náttúrurannsóknastöðina við Mývatn og Háskólann á Hólum. Verkefnið er hluti af doktorsnámi hennar við University of Wisconsin - Madison. 

Theo Northcraft til meistaranáms í víkinga- og miðaldafræðum við Háskóla Íslands. 

Theodore Teichman til rannsókna á landgræðslu og landslagsarkitektúr við Landbúnaðarháskóla Íslands, Landgræðslu ríkisins og Listaháskóla Íslands. Hann stundar meistaranám við University of Virginia og hlaut Robert Kellogg styrk. 
 

Stytta af Leifi Eiríkssyni