Styrkir til doktorsnema á Menntavísindasviði | Háskóli Íslands Skip to main content
9. júní 2020

Styrkir til doktorsnema á Menntavísindasviði

Fjórir styrkir hafa verið veittir til doktorsnema úr nýstofnuðum Styrktar- og rannsóknarsjóði Þuríðar J. Kristjánsdóttur. Styrkhafar eru Benjamin Aido, doktorsnemi í vísindamenntun og rannsóknum, Bjarnheiður Kristinsdóttir, doktorsnemi í stærðfræðimenntun, Renata Emilsson Pesková, doktorsnemi í fjölmenningar- og móðurmálsfræðum, og Sigrún Þorsteinsdóttir, doktorsnemi í heilsueflingu. Hvert þeirra hlaut styrk að upphæð 250.000 krónur.

Þetta er í fyrsta skipti sem veittur er styrkur úr Styrktar- og rannsóknarsjóði Þuríðar J. Kristjánsdóttur  en markmið sjóðsins er að styrkja doktorsnema á Menntavísindasviði, einkum vegna verkefna á sviði kennslumála.

Doktorsrannsókn Benjamins Aidoo fjallar um hvernig kennsluhættir breyttust í kjölfar skjótrar útbreiðslu COVID-19 hér á landi þegar háskólum og framhaldsskólum landsins var ýmist lokað með litlum sem engum fyrirvara eða mæting nemenda mjög takmörkuð. Afla á upplýsinga um hvernig kennarar aðlöguðu kennsluna að þörfum nemenda með fjarkennslu/kennslu í gegnum netið. Jafnframt á að kanna þekkingu og reynslu kennara á þessu sviði og hvernig þeir völdu námstækni og námsleiðir í samráði hver við annan. 

Benjamin Aidoo er með meistarapróf í umhverfis- og auðlindafræði frá Háskóla Íslands og hóf doktorsnám við skólann árið 2018. Leiðbeinendur hans eru Allyson MacDonald og Svava Pétursdóttir.

Doktorsverkefni Bjarnheiðar Kristinsdóttur snýst um þróun og beitingu hljóðlausra myndbanda í stærðfræðikennslu á framhaldsskólastigi. Myndböndin eru 1-2 mínútna teiknimyndir sem sýna stærðfræði á kvikan hátt án texta. Nemendur fá svo það verkefni í tveggja manna hópum að undirbúa og taka upp talsetningu við myndbandið. Í kjölfarið fara nemendur og kennari yfir talsetningarnar þar sem tækifæri gefst til að beina sjónum nemenda að ýmiss konar algengum misskilningi eða ónákvæmni í umfjöllun tengdri viðkomandi stærðfræðihugtaki. Verkefni sem þessi eru ný af nálinni en rannsóknin er þróuð og unnin í samstarfi við framhaldsskólakennara. 

Bjarnheiður er með BS-gráðu í stærðfræði frá Háskóla Íslands, meistaragráðu í hagnýtri stærðfræði frá Technische Universität Bergakademie Freiberg í Þýskalandi og hóf doktorsnám við Háskóla Íslands haustið 2016. Leiðbeinendur eru Freyja Hreinsdóttir og Zsolt Lavicza.

Í doktorsrannsókn sinni hyggst Renata Emilsson Pesková kanna samspil skólareynslu fjöltyngdra nemenda á miðstigi íslenskra grunnskóla og orðaforða þeirra. Sjónarhorn nemenda eru lögð til grundvallar ásamt sjónarhorni foreldra, bekkjarkennara og móðurmálskennara þeirra. Niðurstöður rannsóknarinnar verða settar í samhengi við hlutverk óformlegrar menntunar, heimsmarkmið (t.d. menntun fyrir alla) og þátttöku í lýðræðislegu samfélagi. Rannsóknin sameinar fjölmenningarfræði, annarsmálsfræði og fræði um fjöltyngi, móðurmálsnám og tungumálastefnur heimila og skóla. 

Renata er með BA-gráðu í fullorðinsfræðslu og mannauðsstjórnun frá Univerzita Karlova í Tékklandi og meistarapróf í þvermenningarsamskiptum og þýsku sem öðru máli frá Universität Bayreuth í Þýskalandi. Hún hóf doktorsnám árið 2013 og leiðbeinendur hennar eru Hanna Ragnarsdóttir og Lars Anders Kulbrandstad.

Doktorsverkefni Sigrúnar Þorsteinsdóttur snýst um að þróa úrræði til þess að takast á við matvendni hjá börnum, sérstaklega þeim sem glíma við taugaþroskaraskanir á borð við ADHD og raskanir á einhverfurófi, í samstarfi við foreldra þeirra. Svokölluð fæðumiðuð íhlutun verður notuð í rannsókninni en hún hefur sem kennsluaðferð færst í aukana í nágrannalöndum. Rannsóknir á aðferðinni skortir hins vegar og ætlunin er að bæta úr því ásamt því að þróa kennsluefni fyrir skóla. 

Sigrún er með BS-gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands, MS-gráðu í heilsusálfræði frá University of Westminster í Bretlandi og MS-gráðu í klínískri sálfræði frá Háskóla Íslands. Hún hóf doktorsnám við skólann árið 2017. Leiðbeinandi er Anna Sigríður Ólafsdóttir.

Í dómnefnd vegna úthlutunarinnar sátu þau Atli Vilhelm Harðarson, formaður doktorsnámsnefndar, Kristín Erla Harðardóttir, forstöðumaður Menntavísindastofnunar, og Jónína Vala Kristinsdóttir, deildarforseti Deildar kennslu- og menntunarfræði.

Um sjóðinn

Styrktar- og rannsóknasjóður Þuríðar J. Kristjánsdóttur var stofnaður við Háskóla Íslands í október árið 2019. Stofnframlag sjóðsins er gjöf Þuríðar Jóhönnu Kristjánsdóttur, fyrrverandi prófessors og aðstoðarrektors Kennaraháskóla Íslands, sem lést árið 2018. Í erfðaskrá sinni arfleiddi hún Háskóla Íslands að húseign sinni og öðrum peningalegum eigum með það að markmiði að stofna þennan sjóð. 

Þuríður lauk doktorsprófi frá Illinois-háskóla í Urbana í Bandaríkjunum árið 1971 og hóf störf við Kennaraháskóla Íslands sama ár. Hún varð fyrsti prófessorinn við skólann árið 1973. Þá gegndi hún starfi aðstoðarrektors Kennaraháskólans á árunum 1983-1987. Þuríður lét af störfum við skólann árið 1989.
 
Í  stjórn sjóðsins sitja sviðsforseti Menntavísindasviðs, sem er jafnframt formaður stjórnar, og deildarforsetar þeirra fjögurra deilda sem heyra undir sviðið ásamt fulltrúa nemenda.

Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk.
 

Styrkhafar eru Benjamin Aido, doktorsnemi í vísindamenntun og rannsóknum, Bjarnheiður Kristinsdóttir, doktorsnemi í stærðfræðimenntun, Renata Emilsson Pesková, doktorsnemi í fjölmenningar- og móðurmálsfræðum, og Sigrún Þorsteinsdóttir, doktorsnemi í heilsueflingu.